Fréttaritari Framsíðunnar hefur aldrei gefið ketti drullumall. Hann hefur heldur ekki pissað bak við hurð. Slíkt gera ekki sæmilega uppaldir menn. Á sama hátt minnist pistlahöfundur þess ekki að hafa skotið pabba sinn með byssu frá ömmu og því síður notað skrúfjárn fyrir sleikjó. Það er einfaldlega ógeðsleg tilhugsun og gæti orðið hryllilega óþægilegt ef járnið kæmist í snertingu við amalgamfyllingarnar í öllum skemmdu tönnunum (ég kenni fúkkalyfjunum um!)
Almennt séð virðist höfundur þessarar greinar því ná að uppfylla velflest siðaboðin úr Laginu um það sem er bannað. Nema eitt. Það er þetta með að stilla sig um að hlæja þegar einhver er að detta…
Miðvikudagurinn 27. júní gaf heimsbyggðinni Þórðargleðiveislu. Allir vefmiðlar og erlendar íþróttastöðvar punduðu út myndum af því fegursta sem unnt er að hugsa sér: fullorðnum, grátandi Þjóðverjum! Sneyptum landsliðsmönnum, tárvotum stuðningsmönnum, niðurlútu þjálfarateymi o.s.frv., o.s.frv. Þetta var fótboltaklám í sinni tærustu og fegurstu mynd!
Það var því kátur fréttaritari sem setti keðjur í skottið á bílnum, sló inn gps-hnitin og hringdi ferðaáætlunina til Skátanna áður en hann lagði af stað upp í Kórinn, efst á Kópavogsheiðum. Þar sem áður voru rjúpur og útigangshross er nú komin mannabyggð. Og fólkið sem býr í þessum nýju og skrítnu húsum er þeirrar gerðar að því finnst gaman að vera innandyra. Líka þegar kemur að því að spila fótbolta á íslensku sumri.
Hipólító ákvað að breyta uppstillingunni lítillega frá ÍR-leiknum afleita og skyldi engan undra. Svigrúmið til breytinga er þó takmarkað. Hópurinn er lítill og meiðslalistinn er langur.
Atli var í markinu og í vörninni fyrir framan hann þeir Kristófer, Hlynur og Arnór Daði, sem var fjarri góðu gamni síðast. Aftast á miðjunni var kominn Tiago í stað Sigurðar Þráins – meira um það síðar. Már og Mihaljo voru á köntunum. Fred, Orri og Helgi á miðjunni og Guðmundur fremstur. Andstæðingarnir óárennilegir. HK taplaust fyrir leikinn og virðist komið í tveggja hesta kapphlaup við ÍA um réttinn til að fá að falla úr Pepsi-deildinni að ári.
Leikurinn fór rólega af stað og jafnræði með liðum. Guðmundur átti fínan skalla eftir fimm mínútur, sem HK-markvörðurinn varði vel. Tína mætti til nokkur hálffæri Framara í viðbót en eina verulega góða marktilraunin kom þegar hálfleikurinn var nákvæmlega hálfnaður, þar sem Fred var kominn upp að endamörkum og tókst af harðfylgi að halda boltanum inná, sendi út í teiginn þar sem Helgi var einn á auðum sjó, en skot hans var varið.
Hinu megin fengu HK-menn sín færi og oftar en ekki urðu þær sóknir til eftir að okkar menn misstu boltann á slæmum stöðum eða klúðruðu honum frá sér með kæruleysislegum sendingum.
Á 26. mínútu kom HK boltanum í netið. Aukaspyrna flaug í gegnum alla vörnina og á kollinn á Kópavogsbúa (fréttaritari sá raunar ekki hver það var og því síður að honum sé kunnugt um lögheimilisskrásetningu viðkomandi – en maður tekur bara svona til orða) og þaðan í markið. HK-menn fögnuðu en aðstoðardómarinn veifaði til merkis um rangstöðu. Framarar stálheppnir.
Sú lukka reyndist skammvinn. Framvörnin lagði af stað upp völlinn, en missti boltann strax á fyrsta mótherja, HK maður slap einn í gegn, Atli varði en HK skoraði úr frákastinu, 1:0. Það var Tiago sem glutraði frá sér knettinum í þessari afdrifaríku sókn og það hvorki í fyrsta né í síðasta sinn í leiknum. Tiago hefur verið einn okkar allra besti maður í sumar og eitt einkenni hans er einmitt hversu vel hann heldur knettinum, en hann virðist ekki njóta sín svona aftarlega á miðjunni og var á köflum kærulaus. Það verður sífellt ljósara hversu mikið við söknum Heiðars Geirs, sem nær vonandi að snúa aftur fyrr en seinna.
Undir lok hálfleiksins mátti minnstu muna að heimamenn kæmust í 2:0 eftir að andartaks kæruleysi Hlyns varð til þess að einn rauð og hvítröndóttur slap einn í gegn en Atli varði vel. Atli hefur verið þrælfínn í sumar og bjargaði okkur vel í nokkur skipti í leiknum.
Hálfleikurinn bauð upp á hálfþunglyndislegar samræður þeirra fáu Framara sem ratað höfðu uppeftir en líka kærkomna hvíld frá glaðværa barnakórnum þeirra HK-manna og trommunni þeirra, sem víkingaklöppuðu sig í gegnum leikinn eins og þau væru á launum frá Íslandsstofu. – Sérstök ástæða er þó til að hrósa kurteisum og veluppöldum HK-táningum sem báðu um að fá að taka mynd af sér með undirrituðum, þar sem hann væri frægur karl úr Pepsi-mörkunum. Samfélag þar sem ungviðið ber virðingu fyrir miðaldra sagnfræðingum er á góðum brautum!
Eftir hlé varð leikurinn fljótt afar dauflegur. HK-menn virtust hæstánægðir með að verja 1:0 forystuna, sem sást á því að markvörður þeirra var farinn að tefja með ráðum og dáð löngu fyrir hlé. Nánast ekkert gerðist á þriðja leikfjórðungi sem verðskuldaði að vera hripað niður í minnisbókina. Fyrstu markverðu tíðindin urðu ekki fyrr en á 68. mínútu þegar króatíska varnartröllið Dino kom inná í fyrsta sinn í langan, langan tíma. Hann leysti Má af hólmi, sem þýddi að Orri færði sig út á kantinn, Tiago fór framar á miðjuna, Hlynur í hans stöðu og Dino í hjarta varnarinnar. Ef króatinn kankvísi (hey – stuðlanir eru félagslega viðurkennt stílbragð í fótboltapistlum) er að komast í 90 mínútna form er ljóst að valkostum Hipólító fjölgar talsvert í varnarleiknum.
Ekki urðum við þó neitt hættulegri fram á við með þessari breytingu og HK raunar líklegra til að bæta við ef eitthvað var. Þegar 10 mínútur voru eftir var Mihaljo skipt útaf fyrir Sigurð Þráinn, sem fór í stöðu Hlyns sem aftur færði sig enn framar á völlinn. Rétt undir lokin varð varamaðurinn hins vegar fyrir einhverju hnjaski og þurfti að fara af velli. Vonandi ekkert alvarlegt hjá Sigurði.
Um það leyti sem venjulegur leiktími var að renna út virtust Framarar aðeins ranka við sér og á 3-4 mínútna kafla fengum við amk þrjú þokkaleg færi og þar af eitt býsna gott, en þrumuskot Orra rataði ekki á markið.
Verum þó alveg með það á hreinu að jöfnunarmark hefði verið þjófnaður. Heimamenn voru einfaldlega sterkari, ekki hvað síst líkamlega – og réðu miðjunni. Það gerði gæfumuninn.
Okkar menn verða að rífa sig upp eftir dapra leikjahrinu. Tækifæri gefst í næsta leik þegar við tökum á móti Magna. En þá verður enginn pistil, því fréttaritarinn er á leiðinni til Ungverjalands eins og fínn maður til að kynna sér sögu paprikunnar.
Stefán Pálsson