fbpx
Fram - Selfoss

Tvær þjóðhátíðir

Tvo daga í röð hefur þjóðinni verið boðið til veislu fyrir austan fjall undir vökrum augum helstu fjölmiðla: RÚV annars vegar en Fram TV og Fótbolta.net hins vegar. Mætingin var svipuð í báðum tilvikum, þótt öryggisgæslan hafi verið örlítið fyrirferðarmeiri fyrri daginn. Í báðum tilvikum gengu gestir á dyr. Á Þingvallahátíðinni þegar fjölmenningarlega óheppinn gestur hóf upp raust sína. Í partýinu á Selfossi létu nokkrir heimamenn sig hverfa þegar Thiago rak lokanaglann í líkkistu Selfossliðsins skömmu fyrir leikslok.

Það var dásamlegt veður á Selfossi og brakandi sól. Sólin var raunar svo heit að hún olli staðbundnum þurrkum… mjög staðbundnum. Það gerði það að verkum að Selfyssingar neyddust til að vökva hressilega í hálfleik – en þó einungis vallarhelming Framara. Magnað!

Fréttaritari Framsíðunnar sneri aftur frá heimalandi þeirra Puskasar og Flóríans Albert og veit því ekkert um síðustu tvo leiki og hvort byrjunarliðið hafi verið svipað í þeim. Liðsuppstillingin var annars á þessa leið: Atli í markinu, Kristófer, Hlynur og Unnar í vörninni með Thiago fyrir framan sig á miðjunni. Arnór Daði og Már á köntunum, Fred og Orri á miðjunni, Helgi og Guðmundur frammi. Sókndjörf uppstilling, enda greinilegt að Hipólító ætlaði að sækja öll stigin á Selfoss (sem síðast gerðist árið 2010).

Okkar menn byrjuðu með látum og feng þrjú ágæt færi á fyrsta stundarfjórðungnum. Það skemmtilegasta var þegar Fred dansaði framhjá þremur Selfyssingum og sneri sér í hring með boltann á tánum en skot hans var varið. Eftir þessa ágætu byrjun fóru heimamenn að ná vopnum sínum og taka völdin á miðjunni. Á þeim tíma tókst þeim að skapa sér nokkur færi og þurfti Atli að verja í þrígang með stuttu millibili.

Mögulega hefði byrjað að fara um Framara á grasbalanum við völlinn ef þar hefðu verið samankomnir aðrir en stakt rólyndisfólk – og um það leyti sem Selfyssingarnir virtust komnir á skrið náðu Framarar góðri skyndisókn. Helgi Guðjónsson stakk alla af og átti svo gott skot út við stöng sem Stefáni Loga í Selfossmarkinu mistókst að verja, 0:1.

Þremur mínútum síðar mátti minnstu muna að Helgi tvöfaldaði markareikninginn, þegar Thiago átti frábæra sending inn fyrir vörnina en einn vínrauður náði boltanum af tánum á Helga með stórkostlegri tæklingu. Enn mátti litlu muna að Framarar bættu við á 40.mínútu, þar sem Helgi átti góðan sprett upp að endamörkum og sendi fyrir en Guðmundur rétt missti af knettinum. Var þetta eitt af mörgum dæmum um það hversu vel Frömurum gekk að sprengja upp Selfossvörnina með hröðu kantspili, þar sem Helgi var oft í aðalhlutverki en einnig þeir Arnór og Már. Fred og Thigao voru líka fantagóðir á miðjunni.

Í hléi kynntu ýmsir sér stefnu og strauma í hamborgarabakstri Sunnlendinga. Gómsætir borgararnir voru bornir fram með fullum skálum af niðurbrytjuðu grænmeti frá okkar bestu ylræktarbændum. Sósuúrvalið var frumlegt: hamborgarasósa frá E. Finssyni og barbíkjúsósa… en engin tómatssósa. Frumlegt!

Eftir hlé varð lítil breyting á leiknum. Selfyssingar voru hálfvankaðir en Framarar komu þeim ítrekað í vandræði með nettu spili og hraðabreytingum. Það var því fyllilega verðskuldað þegar annað markið kom, þar sem Guðmundur afgreiddi boltann auðveldlega í netið eftir frábæran undirbúning Helga – sem verður að teljast maður leiksins.

Orri komst í dauðafæri á sextugustu mínútu en gerðist óeigingjarn og reyndi misheppnaða sendingu í stað þess að skjóta bara sjálfur. Og mínútu síðar átti Thiago frábær tilþrif þegar hann tók hálfa Selfossvörnina í nefið einn síns liðs. Nokkru seinna virtist brotið á Orra í vítateignum en ekkert dæmt.

Helgi fór af velli örþreyttur eftir mikil hlaup á 75.mínútu fyrir Sigurð Þráinn og skömmu síðar leysti Mihaljo Fred af hólmi. Það var þó ekki fyrr en að Brasilíumaðurinn knái hafði platað steinsofandi vörn heimamanna og stungið boltanum inn á Thiago sem komst aleinn á móti markverðinum og gat gefið sér allan tímann í heiminum og beðið eftir tveimur varnarmönnum til að leika á áður en hann skoraði 0:3.

Sigurinn var nánast í höfn og Framarar misstu einbeitinguna í andartak strax eftir markið, sem gaf Selfyssingum færi á að klóra í bakkann. Ondo minnkaði muninn í 1:3, en nær komust þeir ekki. Afar sannfærandi sigur eftir flottan leik.

Næsta viðureign er á móti Þrótti. Þar liggur pistlahöfundurinn í því, því hann á að ganga með söguþyrsta Reykvíkinga um bannáraslóðir í miðbænum – allt út af einhverju hringli í mótanefnd sem heldur að það taki meira en sólarhring að taka til eftir Slash vin minn og félaga. Þetta er engin frammistaða! – Ætli þeir taki mörg lög af Chinese Democracy?

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!