Hinn 16 ára gamli Mikael Egill Ellertsson hefur gengið til liðs við ítalska úrvaldsdeilarliðið S.P.A.L. 2013.
Ítalska liðið hefur fylgst með Mikael í talsverðan tíma og eftir að hann var tekinn inn í leikmannahóp Fram fyrir Inkasso-deildina í sumar jókst áhugi þeirra enn frekar. Það endaði síðan með því að SPAL gerði Fram og leikmanninum tilboð í júní og eftir samningaviðræður náðu félögin og Mikael saman í síðustu viku.
Mikael á að baki 18 leiki með meistaraflokki Fram á þessu tímabili og hefur hann einnig spilað 11 leiki með yngri landsliðum Íslands; 3 leiki með U-16 ára landsliðinu, 6 leiki með U-17 ára landsliðinu og 2 leiki með U-18 ára landsliðinu.
Við þökkum Mikael fyrir frábæra frammistöðu með Fram og óskum honum alls hins besta í nýjum og spennandi verkefnum á Ítalíu. Hann og fjölskyldan eru þegar farin út og hefjast æfingar á næstu dögum.
Þess má geta að Hörður Björgvin Magnússon landsliðsmaður fór einmitt líka frá Fram til Juventus á sínum tíma og Mikael er því annar ungur leikmaður Fram til að ganga til liðs við ítalskt úrvalsdeildarlið. Vonandi fetar Mikael í hans spor og leikur fyrir Ísland á stórmóti í framtíðinni.