fbpx
vefur

Tuttuguogfjórirkommaátta…

Fyrir allnokkrum árum ákváðu íbúar í bæjarfélagi nokkru úti á landi að koma sér upp sundlaug. Í verkið var ráðist af stórhug og ekki dugði minna en lögleg 25 metra keppnislaug, svo unnt væri að halda héraðsmót, unglingamót og hvaðeina. Steypt var voldugt laugarker og það klætt innan með þartilgerðum dúk. Síðan var kallaður til mælingamaður að sunnan til að taka út verkið.

Úttektarmaðurinn með tommustokkinn mældi og mældi. Því næst kvað hann upp dóm sinn: gleymst hafði að reikna með þykktinni á dúknum þegar laugin var steypt. Hún taldist 24,8 metrar. Næstum alveg 25 metrar, en samt bara næstum.

Eins og sagan af týndu sentimetrunum í sundlauginni er nú skemmtileg, þá verður að segjast að samúðin með laugarsmiðunum hefur farið vaxandi í sumar, eftir því sem leikjunum hefur fjölgað þar sem Framarar tapa stigi eða stigum með mörkum í blá-blálokin, löngu eftir lok venjulegs leiktíma. Þetta er orðið ansi þrálátt, einkum á móti rauð- og hvítklæddum mótherjum.

Fyrr í sumar unnu Framarar upp tveggja marka forystu Þórsara með miklu harðfylgi, til þess eins að fá bylmingshögg í nýrun í síðustu sókn leiksins. Það er svo sem í takt við úrslitin gegn Þór síðustu árin. Einhvern veginn virðumst við alltaf tapa fyrir Þór – óháð því hvort Þórsararnir séu góðir eða slakir. Snjallir Framarar í stúkunni létu sér jafnvel koma í hug það snilldarbragð, hvort ekki væri vit að tapa fyrir Akureyringum í dag til þess að losna við þá upp um deild!

Og um tíma virtist það vera áætlunin! Þór komst yfir eftir tólf mínútna leik, nálega í fyrsta færi leiksins, eftir klaufaleg mistök í Framvörninni þar sem gleymdist að dekka einn hvítan og rauðan. Það var ekki í síðasta sinn í leiknum þar sem frumlegar dekkingar sáust.

Byrjunarliðið var fyrirsjáanlegt, þó með þeirri breytingu að nýji maðurinn frá Þrótti, Karl Brynjar, kom inn í vörnina í stað Unnars. Hlynur og Kristófer héldu sínum stöðum og vitaskuld Atli í markinu. Heiðar Geir í svæðinu milli varnar og miðju, Orri og Tiago á miðjunni með Fred örlítið framar, Alex og Helgi á köntunum og Guðmundur frammi.

Áætlunin: „losnum við Þór upp í Pepsi“ efldist enn eftir hálftíma leik, þar sem Akureyringar tóku langa aukaspyrnu inn í miðjan vítateig Framara, þar sem engum datt í hug að valda fremsta Þórsarann sem skallaði auðveldlega í netið, 0:2. Áður höfðu Framarar þó aðeins gert sig líklega, þar sem Karl Brynjar átti hörkuskalla að marki og skömmu síðar smaug glúrin sending/skot frá Alex rétt framhjá Þórsmarkinu.

Tveimur mörkum undir urðu okkar menn að girða sig í brók og það sem eftir leið hálfleiknum tókst Framliðinu að skapa nokkur hálffæri. Dómari leiksins sleppti að því er virtist augljóslum vítaspyrnum á bæði lið. Fyrst þar sem Atli kom sér í klandur upp úr þurru og virtist brjóta á sóknarmanni Þórsara og því næst þegar einum Norðanmanninum tókst að koma boltanum í eigin hönd, þar sem hann stóð einn og óvaldaður í eigin vítateig. Líklega hefur dómarinn komist að þeirri niðurstöðu að bæði atvikin væru of aulaleg til að verðskulda víti.

Rétt um það leyti sem kaffiþyrstir og ostaslaufuhungraðir Framarar bjuggu sig undir að halda í kaffi, átti Tiago flotta sendingu inn fyrir Þórsvörnina þar sem Guðmundur slap einn í gegn og minnkaði muninn, 1:2.

Allt annað var að sjá til Framara í seinni hálfleik. Litlu mátti muna að Guðmundur jafnaði metin eftir fáeinar mínútur, en skallaði framhjá. Nokkrum mínútum síðar fór Alex af velli, ef til vill eitthvað meiddur, en Már kom inná í staðinn.

Atli hélt okkur inni í leiknum með glæsilegri markvörslu eftir klukkutíma leik og þurfti svo nokkrum sinnum til viðbótar að grípa inní beint í kjölfarið. Nokkru síðar gerði Hipólító sína aðra skiptingu, þegar Jökull kom inná fyrir Heiðar Geir. Sú skipting átti eftir að borga sig. Í það minnsta gat fréttaritari Framsíðunnar gat ekki betur séð en að varamaðurinn legði upp jöfnunarmarkið á 72. mínútu. Guðmundur bætti þar við sínu öðru marki á meðan Þórsarar sváfu á verðinum.

Enn liðu tvær mínútur uns einum Þórsaranum fannst það snjöll hugmynd að toga Kristófer niður í teignum. Víti dæmt. Guðmundur á punktinn og þrennan fullkomnuð! 3:2.

Gestirnir virtust slegnir út af laginu og næstu mínútur voru Framarar líklegri til að bæða við en Norðanmenn að jafna. Unnar kom inná fyrir Orra í uppbótartíma og kampakátir Framarar á pöllunum byrjuðu að rifja upp textann við zigga-zagga í huganum.

En þá skall ógæfan á. Ekki í líki sundlaugamælingarmanns að sunnan, heldur hvítklædd og í rauðum stuttbuxum. Á þriðju mínútu uppbótartíma var dæmd rangstaða á Framara. Rangstaðan var tekin vel inn á vallarhelmingi Fram – sem er… frumlegt. Boltanum var spyrnt fram, þar sem Akureyringur féll til jarðar. Víti. Mark.

Þar sem Framvefurinn er fjölskyldusíða sem lesinn era f börnum og óhörnuðum unglingum ætlar sá er þetta ritar ekki að skrifa þau blótsyrði sem helst koma upp í hugann. Eitt stig gegn Akureyrar Þórsurum í stað fjögurra er sorgleg niðurstaða en það þarf að klára leikina, 24,8 er ekki nóg.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!