fbpx
FRAM - ÍA vefur

Mávurinn

Rússneska leikskáldið Anton Chekov vakti fyrst verulega athygli með leikriti sínu Mávnum, sem frumsýnt var í Sankti Pétursbotg haustið 1896. Það er enn í dag talið meðal mikilvægustu verka höfundarins og tímamótaverk í sögu rússneskra leikbókmennta.

Í dramatískri senu í öðrum þætti verksins færir leikskáldið Konstantín hinni ungu landeigendadóttur Nínu máv sem hann hefur skotið. Kaldhæðinn rithöfundur kemur aðvífandi og líkir mávinum við unga stúlku sem nýtur lífsins frjáls og í sátt við náttúruna, eins og mávur, þar til ungur maður á leið um og leggur líf hennar í rúst af leiðindum einum saman – líkt og mávur sem verður bráð veiðimanns. Mávurinn í verki Chekovs er táknmynd um frelsi frá hinu hversdagslega og leiðinlega – en um leið táknmynd þess sem unnt er deyða.

Það var nóg af mávum á Akranesvelli í kvöld. Sumir þeirra flugu nær hamborgaragrillinu en matvælafræðingnum, ferðafélaga fréttaritara Framsíðunnar, þótti æskilegt. Það reyndust þó óþarfa áhyggjur. Hamborgararnir voru lostæti. Örugg sjöa, jafnvel átta af tíu mögulegum. Fátt annað varðandi leikinn fór nálægt slíkum einkunnum.

Hringtorgin í Mosfellsbænum reyndust bæði fleiri og hægfarnari en sendinefndin úr höfuðborginni gerði ráð fyrir og tvær mínútur voru því liðnar af leiknum þegar lafmóður blaðasnápurinn mætti á svæðið. Sú eina breyting hafði verið gerð á liðinu frá síðasta leik að Heiðar Geir var fjarri góðu gamni (ekki óvænt, hann virtist meiddur síðast) en Unnar kom í hans stað aftast á miðjunni. Að öðru leyti var liðið eins og vænta mátti: Atli í marki, Hlynur, Karl Brynjar og Kristófer aftastir. Helgi og Alex á köntunum. Orri.,Tiago og Fred á miðjunni og Guðmundur fremstur.

Ónefndur fréttamaður á RÚV og gallharður stuðningsmaður ÍA, hvatti þann er þetta ritar til að gera fegurð gulra knattspyrnutreyja að umfjöllunarefni í þessum pistli. Sjálfsagt er að verða við því. Gular treyjur, þótt ljótar séu, hafa augljóslega ýmsa kosti. Þær eru t.d. prýðileg sýnileikavesti við umferðarvörslu eða á vinnusvæðum með þungaflutningum. Og þær fá oft andstæðinginn til að halda ranglega að þú sért Brasilía. Sú var a.m.k. raunin í kvöld, þar sem Framarar mættu ragir til leiks og voru í raun nær því að leika með fimm manna vörn en þriggja manna. Helgi og Alex lágu alltof aftarlega og áttu aldrei möguleika á að sprengja sér leið upp kantana.

Skagamenn fengu að stýra leiknum frá fyrstu mínútu, þar sem Framarar lágu til baka og biðu efitr skyndisóknunum sem aldrei komu. Heimamenn gerðu þó lítið til að brjóta niður varnir Framara. Létu sér nægja að þiggja hverja hornspyrnuna á fætur annarri, sem engu skiluðu. Með góðum vilja mætti tína til fáein hálffæri gulklæddra, en sennilega fór Fram næst því að skora í fyrri hálfleiknum þegar Tiago slap einn í gegn eftir mistök hjá ÍA-vörninni, en náði ekki að gera sér mat úr því.

Markalaust í hálfleik og mávunum fór bara fjölgandi. Það vakti hugrenningatengsl og fréttaritari Framsíðunnar ákvað að kraftgúgla hvað orðið hefði um níundaáratugs einsmellsundrið Flock of Seagulls eða Mávagerið. Í ljós kom að Flock of Seagulls eru enn að og fyrr í sumar sendi upprunalegi mannskapur hennar frá sér sitt fyrsta lag frá árinu 1984. Það er ekki gott lag, en þó betra en flest varðandi leikinn í kvöld.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, nema við vorum jafnvel enn þróttminni og minna fókuseraðir. Á 58. mínútu skrifaði fréttaritarinn í minnisblokkina sína: „liggur verulega á okkur“ og strikaði undir orðið „liggur“. Innvígðir vita að slíkt gerir fréttaritarinn ekki að gamni sínu. Mínútu síðar lá boltinn í netinu, 1:0. Einhver Þórður eða Stefán hafði potað boltanum í netið eftir útsölutilboð í vörninni hjá okkur. Alltof auðvelt.

Þremur mínútum síðar var staðan orðin 2:0 eftir að vörnin galopnaðist á nýjan leik og einn gangbrautarvörðurinn labbaði í gegn og skoraði. Á þessum tímapunkti var ljóst að Framarar fengju ekkert út úr leiknum. Við vorum gúmmíendur en ekki háfleygir mávar.

Helgi fór útaf fyrir Mihaljo beint eftir markið og skömmu síðar kom Már inná fyrir Unnar. Már er sá eini sem fær hrós fyrir frammistöðuna í dag, en hann reyndi aðeins að láta finna fyrir sér þessar 25 mínútur sem hann fékk á vellinum

Súrleikastuðull kvöldsins virtist enn ætla að hækka þegar kortér var eftir og boltinn lá í þriðja sinn í neti okkar manna, en blessunarlega sá aðstoðardómarinn rangstöðu. Skömmu síðar gerði Hippólítío sína þriðju skiptingu, þar sem Fred fór útaf fyrir Dino. Það væru þá kannski einu gleðifréttir kvöldsins ef Dino er loksins að komast á skrið á nýjan leik.

Síðustu rúmu tíu mínúturnar rötuðu engin atvik eða uppákomur í minnisbók fréttaritarans. Bæði vegna þess að ekkert dró til tíðinda og vegna þess að hann var of upptekinn af því að fylgjast með frjálsum sálum mávanna sem flugu yfir vellinum – hafnir yfir hversdagslegt amstur þess að tapa fyrirsjáanlega fyrir liði sem á að heita það besta í Inkasso-deildinni, án þess að hafa í raun sýnt neitt sérstakt í allt sumar. En jæja, Njarðvík bíður á sunnudaginn kemur. Ekki detta í það á menningarnótt.

Stefán Pálsson

 

 

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!