fbpx
FRAM ir vefur

Fíkn og tál

Fyrir allnokkrum árum tókst tollvörðum á Keflavíkurflugvelli að handsama smyglara á kostulegan hátt. Óbótamennirnir hugðust flytja inn í landið talsvert magn af ólöglegum sterum í dós undan Quality Street-sælgætinu sem Íslendingar kalla einhverra hluta vegna Makkíngtossj. Ráðagerðin var skotheld: hvað er hversdagslegra en íslenskur ferðalangur með Makkíngtoss undir arminum?

En sælgætisfíknin varð þó smyglurunum að falli. Í stað þess að henda namminu (eða éta þá á skuggalegu hóteli í útlandinu) ákvað einn meðlimur smyglaragengisins að bjarga verðmætum og hellti molunum oní ferðatöskuna sína. Þegar hún var svo tekin og opnuð í græna hliðinu, áttu fulltrúar löggæslunnar auðvelt með að leggja saman tvo og tvo og grípa félagann með sterabaukinn.

Gottgrísirnir seinheppnu hefðu væntanlega glaðst á Laugardalsvelli í dag. Í Framherjakaffinu voru hvorki tebollur né niðurskornir pizzanúðar, heldur skálar fullar af Gæðastrætismolum!

Það myndi gera mjög mikið fyrir líkingamálið í þessum fótboltapistli ef hægt væri að líkja leiknum sjálfum við konfekt, en nei – svo gott var það nú ekki.

Það voru fáir áhorfendur mættir þegar flautað var til leiks á móti Njarðvíkingum klukkan tvö. Ekki laust við að stöku maður væri þunnur eftir ævintýri menningarnætur og einstaka jafnvel sönglandi gömlu Írafársslagarana, sem við vorum öll að vona að væru endanlega gleymdir.

Eftir rýra ferð á Skipaskaga í liðinni viku gerði Hippólító nokkrar breytingar á liðinu. Dino sneri aftur í vörnina ásamt Hlyni og Karli. Það eru ágæt tíðindi, enda Króatinn símeiddi okkar besti varnarmaður þegar hann er í fullu fjöri. Mihaljo og Alex voru á köntunum. Tiago byrjaði aftast á miðjunni, Orri og Már þar fyrir framan og Fred fremstur. Guðmundur vitaskuld efstur upp á toppi og Atli í markinu. Sumt þarf eiginlega ekki að taka fram.

Fljótt á litið virtist þessi uppstilling nokkuð sókndjörf, á meðan Njarðvíkingar voru greinilega komnir með það eitt í huga að verja stigið. Fengu reyndar fyrsta dauðafæri leiksins, þegar boltinn fór í þverslá Frammarksins strax á annarri mínútu, en upp frá því drógu grænklæddir sig aftur á völlinn og létu nægja að verjast og bíða átekta.

Framarar tóku völdin á miðjunni strax í upphafi og reyndu jafnt og þétt að auka sóknarþungann. Nokkur hálffæri litu dagsins ljós, en í heildina má segja að fyrsti hálftíminn hafi verið tíðindalítill. Á 32. mínútu tóku svo leikar að æsast. Guðmundur átti hörkuskalla að marki sem einn Njarðvíkingurinn varði vel, þaðan barst boltinn út í teig, þar sem Fred kom aðvífandi og náði hörkuskoti sem stefndi í bláhornið – en Robert Blakala, pólski markvörðurinn, reyndist hafa fingur sem vilja snerta… og varði meistaralega.

Það sem eftir var af fyrri hálfleik héldu Framarar áfram að reyna að skapa færi, en herslumuninn vantaði, 0:0 og við tók gotteríið og korgað kaffi.

Seinni hálfleikur byrjaði á sömu nótum og sá fyrri endaði. Framarar hlupu í stóra hringi og hjartalaga umhverfis njarðvíska varnarmenn sem voru hæstánægðir með jefnteflið. Einna mesta hættan skapaðist eftir hornspyrnur okkar manna og á 52. mínútu tókst gestunum með herkjum að skalla burt af marklínu eftir eina slíka.

Eftir um klukkutíma leik varði sá pólski vel frá Alex og skömmu síðar fengu Framarar aukaspyrnu rétt til hliðar við vítateig Njarðvíkur. Hippólító notaði tækifærið og sendi Helga inná fyrir Orra. Fred tók aukaspyrnuna hárnákvæmt, sendi beint á kollinn á Karli sem kom aðvífandi og stangaði boltann að marki. Blakala sá hins vegar við honum og varði frábærlega.

Við viljum ekki vera svona – ekki sitja, bíða og vona – hugsuðu hvekktir Framarar á pöllunum. Unnar kom inná fyrir Má og Tiago færði sig framar á völlinn. Skömmu síðar var Fred skipt útaf fyrir Jökul, sem hafði þó ekki teljandi áhrif á gang leiksins.

Á lokamínútunum lögðu Framarar allt kapp á að reyna að ná markinu dýrmæta og í tvígang mátti litlu muna. Fyrst átti Guðmundur flotta sending á Helga, sem var næstum búinn að koma sér í dauðafæri og í uppbótartíma fór boltinn í slánna, en norskur dómari leiksins taldi að Guðmundur hefði brotið á þeim pólska í markinu.

Lífið er eins og konfektkassi, maður veit aldrei hvernig mola maður fær – sagði Forrest Gump og þótti snjallt (þrátt fyrir að grunnhugsunin á bak við konfektkassa sé einmitt sú að maður getur sjálfur valið sér mola – og flestir betri framleiðendur sætinda bjóða upp á nákvæmar innihaldslýsingar). Það var í sjálfur sér ekkert óvænt við þennan leik. Gestirnir sóttu jafnteflið sem þeir vildu og Framara skorti grimmd til að nýta sér styrkleikamuninn.

Í bara annað sinn í sumar héldu okkar menn hreinu í deildinni og leikurinn í dag var einungis þriðja markalausa jafnteflið í Inkasso í sumar. Þau úrslit má að miklu leyti skýra með frammistöðu Blakala markvarðar. Fréttaritari Framsíðunnar minnir á að frægasti markvörður Pólverja fyrr og síðar gerðist síðar páfi og tók sér nafnið Jóhannes Páll II. Látið ykkur ekki koma á óvart þótt Blakala I verði kominn í Vatíkanið eftir fáeina áratugi að snerta mjúkar sálir með fingrunum.

Stefán Pálsson

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!