fbpx
vefur

Ferðin til Sædýrasafnsins

Árið 1979 sendi skáldið Jón frá Pálmholti frá sér hina ógleymanlegu barnabók Ferðina til Sædýrasafnsins. Þar segir frá hópi íslenskra húsdýra sem yfirgefur vanþakkláta eigendur sína og halda saman til Sædýrasafnsins í Hafnarfirði. Ferðin hefst í Norðfjarðarsveit og lýsir höfundur henni af ótrúlegri nákvæmni, með sérstaka áherslu á mataræði dýranna á leiðinni. Þegar komið er á áfangastað rennur upp fyrir hjörðinni að glansmynd þeirra af Sædýrasafninu reyndist með öllu óraunsæ. Þau ákveða þó á lokablaðsíðunni að efna til marxískrar byltingar og (Höskuldarviðvörun!) brjótast inn í dýragarðinn.

Lesandinn fær aldrei að vita hvernig skæruliðahúsdýrunum reiðir af. Kannski sá Jón frá Pálmholti fram á að semja framhaldsbók. Líklegra er þó að hann hafi áttað sig á því að það væri ferðalagið sem skipti öllu – ekki útkoman. Jafnvel má líta svo á að höfundurinn hafi með þessu samið allegoríu um flestallar ferðir til Vallahverfisins í Hafnarfirði: þær enda alltaf með vonbrigðum og því fremur sem væntingarnar voru meiri.

Það var samt glaðbeittur fréttaritari Framsíðunnar sem ók á einkabílnum sínum inn á þynningarsvæði álversins fyrir leik Hauka og Fram í kvöld. Á leiðinni stytti hann sér stundir í hinum sígilda ferðaleik að telja hringtorgin, en gafst upp þegar hringirnir voru orðnir álíka margir og á ávísun til FH-inga. Stæði fannst rétt norður af Grindavík og síðan tók við drjúg ganga á völlinn.

Fréttaritarinn var ekki fyrr búinn að veifa fína aðgangskortinu sínu í hliðinu en hann gekk beint í flasið á Hlyni Atla, sem er lítillega meiddur og því ekki í liðinu. Fyrir vikið kom Kristófer aftur inn í liðið ásamt þeim Karli og Dino í vörninni. Alex og Mihaljo voru hvor á sínum kanti, Tiago aftastur á miðjunni með Orra og Helga og loks Fred þar fyrir framan. Guðmundur fremstur og Atli í markinu. Fátt óvænt hér.

Framarar mættu ákveðnari til leiks og hefðu getað náð forystunni strax á annarri mínútu þegar Alex átti gott skot framhjá. Fáeinum mínútum síðar komst Fred svo í dauðafæri eftir frábæran undirbúning frá Mihaljo og Helga, fékk frítt skot frá markteig en hitti beint í markvörðinn. Þeir Mihaljo og Helgi voru aftur á ferðinni skömmu síðar þegar þeir brutu sér leið upp að endamörkum og sendu fyrir, en Guðmundur náði ekki til knattarins. Framarar virtust á þessum tímapunkti hafa öll völd og bara tímaspursmál hvenær tækist að brjóta vörn heimamanna.

Haukar hafa átt erfitt uppdráttar síðustu vikur og á dögunum var þeim slátrað af Selfyssingum. Eftir fyrsta stundarfjórðunginn rönkuðu þeir hins vegar úr rotinu og fóru að láta finna fyrir sér. Þeir tóku í vaxandi mæli völdin á miðjunni og voru grimmari í alla bolta. Framarar virtust þó alltaf líklegri og eftir tæplega hálftíma leik kom fyrsta markið. Helgi sendi á Guðmund, sem sneri auðveldlega á varnarmann Hauka og afgreiddi boltann í netið hratt og örugglega eins og boðgreiðslu úr bæjarsjóði.-, 0:1.

Litlu mátti muna að forystan tövfaldaðist mínútu síðar þegar hálfmisheppnuð sending Mihaljos, sem kominn var upp að endamörkum, reyndist frábært skot sem sleikti slánna. Enn fengu Framarar nokkur háffæri til viðbótar og á stuttum köflum mátti sjá prýðilegt spil á móti varnarmönnum Hauka sem voru þungir eins og yfirdráttarheimild í Kaplakrika. – En Adam var ekki lengi í Paradís. Heimamenn jöfnuðu metin í sinni fyrstu alvöru sókn á fertugustu mínútu, með því að labba auðveldlega í gegnum Framvörnina í marki sem minnti ískyggilega á fyrra markið á Skaganum um daginn og raunar ansi mörg önnur nú í sumar. Það er áhyggjuefni að Framliðið hafi aðeins tvisvar haldið hreinu það sem af er sumri.

1:1 í leikhléi og stúrnir Framstuðningsmenn gerðu kaffinu í sjoppunni skil. Kaffið var fínt, enda eins gott á því heimskautahjarni sem Vellirnir reynast alltaf vera, þótt veðrið í Reykjavík kunni að vera milt og bjart. Fréttaritarinn fylltist efasemdum um skynsemi þess að hafa mætt í fína appelsínugula vestinu sínu, sem minnir á Walter Sobchak í The Big Lebowsky og sem passar svo vel við nýju hárgreiðsluna sem minnir einmitt líka á á Walter Sobchak í The Big Lebowsky.

Aðeins annað liðið mætti til leiks í seinni hálfleik og það voru því miður gestgjafarnir. Framarar voru gjafmildir eins og nýkjörin bæjarstjórn og gáfu Haukum eftir öll völd á miðjunni. Í seinni heimsstyrjöldinni var gantast með að ítölsku skriðdrekarnir hefðu haft einn gír áfram og fjóra aftur á bak. Sú hótfyndni kom oftar en einu sinni upp í hugann, þegar helstu úrræði okkar manna í spilinu virtust ganga út á að leika knettinum örlítið fram á við, senda svo aftur á miðvörð sem sparkaði langt og fast en mest þó út og suður.

Eftir klukkutíma leik gerðist hið óumflýjanlega: heimamenn tóku forystuna, en fallegt var það ekki. Eftir þvögu í vörninni hugðist einn varnarmanna Fram hreinsa frá, en skaut beint í afturendann á einum rauðklæddum og þaðan í markið. Algjör gjöf sem minnti helst á… æh, þið vitið!

Lánleysi Framliðsins í leiknum var staðfest tveimur mínútum eftir Haukamarkið þegar Dino náði bylmingsskalla eftir horn – en beint í Helga sem stóð á línunni. Hippólító hafði séð nóg og gerði tvöfalda skiptingu: Kristófer og Mihaljo fóru útaf og Unnar og Már inná. Sá síðarnefndi reyndist ferskur andblær og raunar sá eini í Framliðinu sem eitthvað náði að stríða Haukavörninni. Tíu mínútum síðar kom Jökull svo inná fyrir Alex, sem var farinn að láta gloppur í dómgæslunni fara um of í taugarnar á sér.

Tíminn rann út og Fram náði aldrei að gera almennilega atlögu að því að jafna metin. Biðin eftir sigurleik lengist enn og nú er staðan hreinlega orðin sú að liðið verður að sækja stig í Breiðholtið í næstu umferð, annars bíður bara hörð fallbarátta.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!