fbpx
FRAM ir vefur

Sokkinn kostnaður

Í garðinum við blokkina þar sem fréttaritari Framsíðunnar býr er risastórt trampólín. Það haggast ekki í vindhviðum enda rækilega njörvað niður með festingum frá sömu framleiðendum og útbjuggu fjötur Fenrisúlfs. Þetta eru almennilegar festingar. Ef Oslóartréð hefði verið bundið með þessum drjólum hefði ekki orðið nein búsáhaldabylting og Geir Haarde væri ennþá forsætisráðherra.

En það eru ekki allir jafn klókir og fréttarinn og nágrannar hans. Í hraustlegum lægðum fara trampólínin að fjúka út um víðan völl, ógna lífi og limum borgaranna og rispa jafnvel bíla. Tjón eigenda húsa, bifreiða og tryggingafélaganna í landinu vegna trampólína á ári hverju er gríðarlegt.

Það eru þó ekki einu útgjöldin sem þessari tómstundaiðkun barna tengjast. Svimandi upphæðum er varið í kaup á trampólínum. Tugþúsundum vinnustunda er sóað í stefnulaust hopp á vírstrengdum gúmmídúkum sem börnin hefðu getað nýtt til að bera út blöð – eða bara til að læra heima. Í trampólínlausu samfélagi mætti ef til vill stytta skólann til að gleðja Samtök atvinnulífsins. Halldór Benjamín gæti þá fengið ungmennin árinu yngri til að arðræna þau í láglaunastörfum á vinnumarkaði til að hlaða undir eina prósentið.

Þetta væri svo sem í lagi ef trampólínspriklið skilaði árangri, en það er öðru nær. Trampólínstökk er keppnisgrein á Óympíuleikum, en þar hafa Íslendingar aldrei tekið þátt, hvað þá unnið til verðlauna. Á máli hagfræðinnar nefnist þetta „sokkinn kostnaður“.

Fréttaritarinn og Valur Norðri félagi hans og umsjónarmaður viskýfleygsins góða óku óhræddir í gegnum rokið og regnhryðjurnar á ÍR-völlinn. Til mikils var að vinna: sigur þýddi að guðdómlegt miðjumoð yrði gulltryggt, tap þýddi að fallbaráttan tæki að anda oní hálsmálin á okkur. Og talandi um hálsmál: létti sumarjakkinn var kannski ekki alveg málið eftir á að hyggja…

Hippólító þurfti að gera ýmsar breytingar á liðinu. Thiago tók út leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda sem flest hafa komið fyrir tuð á lokamínútum, eftir að úrslit voru í raun ráðin. Karl og Dino voru hvergi sjáanlegir – væntanlega meiddir. Atli stóð vitaskuld á milli stanganna og varnarlínan var sú sama og frameftir móti: Unnar, Hlynur og Kristófer. Þessi uppstilling er vissulega brothættari en þegar eldri og reyndari mennirnir eru inná, en hugnast þó fréttaritaranum ágætlega, enda um að gera að gefa ungum heimamönnum reynslu. Alex og Mihajlo voru á köntunum, Heiðar Geir aftast á miðjunni, Orri, Fred og Már þar fyrir framan og Guðmundur á toppnum.

Framarar byrjuðu með látum. Fred hinn brasilíski prjónaði sig í gegnum nokkra Breiðhyltinga og skaut svo hárnákvæmu skoti í markhornið, 0:1 eftir fimm mínútur. Leikmaðurinn hefur í sumar ákveðið að gefa öllum staðalmyndum um suðræna leikmenn sem kunna illa við sig í íslensku skítaveðri langt nef. Besti leikur hans var einmitt á móti Selfossi við óboðlegar aðstæður í upphafi móts og í kvöld virtist hann kunna vel við sig í rokinu og rigningunni.

Og talandi um rokið og rigninguna: þrátt fyrir bærilegan lofthita næddi vindurinn um þá fáu áhorfendur sem mættir voru og sem ekki tókst að troða sér á eina lygna blettinn undir gafli vallarsjoppunnar. Nú er Ísland vissulega veðravíti, en sitthvað má þó gera til að berjast við vindinn, svo sem að notast við gróður. Skyldu ÍR-ingar aldrei hafa íhugað að koma sér upp gróðurbelti, t.d. með birki, til að brjóta verstu hviðurnar? Spyr sá sem ekki veit.

Engu mátti muna að ÍR jafnaði eftir tæpt kortér þegar bylmingsskot þeirra fór í slánna. Frákastið barst beint á kollinn á einum hvítklæddum sem skallaði aftur í slá! Framarar voru stálheppnir og viðvörunarbjöllur fóru að hringja.

Rétt eftir miðjan fyrri hálfleik urðu heimamenn fyrir áfalli. Kristófer virtist brjóta á einum ÍR-ingnum en ekkert var dæmt. Réttlætiskennd brotaþolans var greinilega misboðið (meira um hugtakið réttlætiskennd á eftir). Hann ákvað að hefna þess í héraði sem hallaði á Alþingi, sló til okkar manns og fékk rautt spjald að launum. Manni fleiri og marki yfir virtist málið klappað og klárt… eða hitt þó heldur.

Það sem eftir leið hálfleiksins bar fátt til tíðinda og fréttaritari sá ekki ástæðu til að draga upp minnisblokkina nema einu sinni fram að lokamínútunni og þá til að geta um ágæta sókn heimamanna. Hér var þó ekki bara tíðindalitlum leik um að kenna, heldur var rigning og því ástæðulaust að bleyta pappírinn með ritgerðaskrifum í tíma og ótíma. En svo kom lokamínútan…

Mihaljo, sem hafði átt fremur slakan dag í vörninni og tekið óþarfa sénsa með boltann, ákvað að toga í ÍR-ing í miðjum vítateignum án þess að nein alvöru hætta væri á ferðum. Í tveimur af hverjum þremur skiptum sleppa dómarar svona smábrotum, en í hinum tilvikunum er ekkert hægt að kvarta þegar dæmdar eru vítaspyrnur. ÍR jafnaði úr vítinu, 1:1, með síðustu spyrnu fyrir hlé.

Breiðhyltingar eru höfðingjar heim að sækja og veðurbarðir Framarar fengu að flýja inni í félagsheimilið. Þar var hægt að drekka kaffi, ómælt og ókeypis – og súkkulaðikex með. Fréttritari klökknaði nánast yfir gestrisninni og íhugaði í smá stund að sleppa því að skrifa brandara um birkihrísludráp ÍR-inga… en bara í smá stund.

Þjálfarinn sýndi kátínu sína yfir varnartilburðum Mihajlos með því að skipta honum út fyrir Helga í hálfleik. Framarar byrjuðu örlítið beittari, enda ellefu á móti tíu og settu smá pressu á ÍR-vörnina. Í hvert sinn sem okkar menn reyndu það í leiknum var allt í pati hjá heimamönnum og stórhætta skapaðist. Eins virtist markvörðurinn afar óöruggur og því hefði verið sjálfsagt að láta meira og oftar á hann reyna.

Það voru raunar afleit markmannsmistök sem komu Frömurum yfir á 49. mínútu. Það sem virtist einföld sending frá marki rataði beint í lappirnar á Má sem komst einn inn fyrir og skoraði af öryggi, 1:2. Már var klárlega okkar besti maður í kvöld og hefur verið einn af ljósustu punktunum í sumar.

Mikið er talað um fúsk í iðnaðarmannastéttinni þessi misserin, en mörkin á ÍR-vellinum eru í það minnsta sterkbyggð. Það sannaðist skömmu eftir mark Más, þegar Fred náði þrumuskoti sem small í slánni – þeirri sömu og ÍR-ingarnir höfðu níðst svo á í fyrri hálfleiknum. Hýrnaði nú yfir Frömurum. Ekki bara útaf viskýfleygnum góða sem er opnaður við hvert Fram-mark, heldur einnig vegna þess að nú virtist öruggur sigur blasa við. Spurningin væri bara: hversu stór?

En bláklæddum tókst ekki að láta hné fylgja kviði. Manni færri náðu ÍR-ingar völdunum á miðjunni. Þeir voru grimmari og ákveðnari á meðan okkar menn virtust ekki vita nákvæmlega hvað ætti að gera næst. Blessunarlega ákváðu Breiðhyltingar þó að orku þeirra væri best varið í að fleygja sér í jörðin í tíma og ótíma í þeirri von að dómari leiksins jafnaði í liðum með rauða spjaldinu.

Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka gerði Atli sjaldséð mistök í markinu með afleitu úthlaupi í hornspyrnu og tíu litlir Breiðhyltingar höfðu jafnað 2:2. (ÍR-ingar eru vel að merkja ekkert litlir – í það minnsta ekki varnarlínan sem er stór og sterk, þetta er svokölluð bókmenntavísun.)

Fljótlega eftir markið gerðu Framarar seinni breytingu sína. Heiðar Geir fór af velli fyrir Jökul. Var þá mjög farið að draga af ýmsum leikmönnum.

Framarar á áhorfendapöllunum voru nú orðnir ansi stúrnir en Breiðhyltingar öllu glaðbeittari. Einhverjir bölsótuðust yfir því að 2:2, þar sem andstæðingarnir skoruðu síðasta markið, væri orðið hálfgert vörumerki Framliðsins í sumar. Aðrir hugsuðu þó sem svo að líklega væri 2:2 betra en ekkert, því sannast sagna virtust heimamenn mun ákveðnari á lokasprettinum.

Hér að framan var rætt um réttlætiskennd. Flest erum við sammála um að hún sé kostur frekar en löstur í fari fólks – almennt séð erum við hlynntari sanngirni en órétti í mannlegum samskiptum. Og mögulega hefði hinn sannarlega réttláti maður sagt að ÍR-ingar hefðu verið nær því að verðskulda þriðja markið og þar með stigin þrjú miðað við spilamennskuna undir lokin, manninum færri.

Fréttaritari Framsíðunnar eru þó sem betur fer ekki hinn sannarlega réttláti maður. Það olli honum því engri sálarangist að hoppa, hrópa og hæfæva krókloppnar hendur félaga sinna allt í kring í uppbótartímanum þegar ÍR-markverðinum mistókst að slá í burtu hornspyrnu, boltinn barst til Guðmundar sem náði ekki að skjóta honum almennilega en þaðan til Jökuls sem þrumaði af öllum lífs og sálar kröftum í netið, 2:3!

Vonbrigði ÍR-inga voru skiljanlega sár. Og þessar sekúndur sem eftir lifðu af leiknum reyndu þeir í örvæntingu að jafna, auk þess sem leikmaður þeirra fékk útrás með því að hrinda Kristófer á auglýsingaskilti þannig að ljótt slys hefði getað hlotist af. Dómari og línuvörður létu hefndarbrotið afskiptalaust, þrátt fyrir að það gerðist fyrir framan nefið á þeim. Örskömmu áður lét dómarinn raunar nægja að lyfta gula spjaldinu brot hjá Guðmundi sem hefði hæglega getað verið öðru vísi á litinn.

Leiknum lauk og Framarar hlutu til búningsklefa, án þess að hafa svo mikið sem rænu á að öskra sigga-sagga. Því hefur vonandi verið kippt í liðinn í sturtunni. Fram situr sem fastast í sjötta sæti. Miðjumoðið er fullkomnað. Við erum FH Inkasso-deildarinnar. Það er þó alltaf eitthvað!

Stefán Pálsson

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0