fbpx
Vefur

Brjóstsykur og súkkulaði

Árið 1876 var örlagaríkt fyrir sælgætissögu Danmerkur og hins stórdanska ríkis sem Ísland var þá hluti af. Það ár komu á markað brjóstsykursmolar sem strax frá upphafi voru nefndir eftir svipmesta stjórnmálamanni Evrópu um þær mundir, prússneska járnkanslaranum Bismarck.

Auk þess að heita eftir frægum valdsmanni og búa yfir ljúfu piparmyntubragði, var góðgæti þetta með aukennandi útlit. Það skartaði hvítum og rauðum röndum. Ekki leið á löngu uns íbúar hjálendanna í norðrinu fregnuðu af þessari dönsku dásemd og áratugum saman var Bismarck-brjóstsykurinn eftirlætissælgæti íslenskra ungmenna ásamt Napóleonshöttum og apótekaralakkrís, sem því miður var ekki kenndur við neinn stríðsherra sögunnar.

Það er vel til fundið hjá HK-mönnum að halda nammisögu Íslands og Danmerkur á lofti með búningahönnun sinni. Enginn getur horft á HK-lið keppa án þess að fyllast sælgætislöngun. Framarar völdu hins vegar bláan og hvítan búning með vísun til þjóðfánans og sjálfstæðisbaráttunnar. Það er bara fínt líka.

Það var napurt á þjóðarleikvangnum þegar flautað var til leiks í kvöld og allnokkur vindur. Fréttaritari Framsíðunnar er grasekkill út af einhverju málþingi á Akureyri og dró því níu ára son sinn – Valsara illu heilli – með á völlinn. Litla dýrinu var lofað og kaupa sér eitthvað í sjoppunni í hálfleik og að fá að fylgjast með gangi heimsfótboltans á úrslit.net. Allt barnauppeldi er hárfín blanda af hótunum, fyrirskipunum og mútum.

Byrjunarliðið var nokkuð breytt frá hinum bráðskemmtilega en þó örlítið ósanngjarna sigurleik á móti ÍR í síðustu umferð, þar sem leikmenn sneru aftur úr meiðslum og leikbönnum – en aðrir duttu út. Atli var vitaskuld í markinu og Unnar sem fyrr í öftustu varnarlínu, en auk hans voru þeir Dino og Karl inná. Hlynur hóf leik þar fyrir framan. Alex og Helgi á köntunum. Orri, Tiago og Fred á miðjunni og Guðmundur fremstur. Enginn Mihaljo á bekknum og Már var ekki í byrjunarliði þrátt fyrir að hafa verið maður leiksins síðast að allra mati og í liði umferðarinnar hjá Fótbolta.net. Skrítið.

Brjóstsykursmolarnir úr Kórahverfi eru með hörkugott fótboltalið sem fær varla á sig mörk. Breiddinn í liðinu er sömuleiðis mikil, sem sást meðal annars á firnasterkum varamannabekk. Fréttaritaritarinn kannaðist eiginlega við fleiri nöfn á bekknum hjá HK en Fram! Því skal hér með spáð að HK nái efsta sætinu í Inkasso-deildinni í ár og jafnvel aftur árið 2020 ef rétt er á spilum haldið!

HK-ingar eru kannski danskur brjóstsykur, en í kvöld voru Framarar súkkulaði. Eftir rétt um tíu mínútna leik var staðan orðin 0:1, þegar einn þverröndóttur lék sér að vörninni, sneri auðveldlega á Dino, fór upp að endamörkum, sendi fyrir þar sem þrír Framvarnarmenn duttu hver um annan þveran og Kópavogsbúi skoraði auðveldlega. Næstu fimmtán mínúturnar eða svo spilaðist leikurinn á sama hátt: stöðubarátta og jafnræði úti á vellinum, en þegar HK-ingar komust í sóknir áttu þeir auðvelt með að finna leiðir framhjá stöðum varnarmönnum eða vængmönnum sem eru í raun engir bakverðir, Eftir hálftíma leik hefði staðan auðveldlega getað verið orðin 0:3.

Unnar og Hlynur höfðu stöðuskipti og hvort sem það var því að þakka eða einhverju öðru, þá lifnaði talsvert yfir leik okkar manna fram á við. Guðmundur átti hörkuskot af löngu færi rétt framhjá og skömmu síðar var hann nærri því að ná til boltans með höfðinu eftir gönuhlaup HK-markvarðarins. Orri fékk tvö fín færi og þeir Fred og Dino voru báðir nærri því að skora áður en flautað var til leikhlés. Síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiksins voru með því betra sem sést hefur lengi og það voru því tiltölulega brattir Framherjar sem héldu upp í fyrirmennastúkuna til að ná yl í kroppinn og gúffa í sig vínarbrauðum frá einhverju velviljuðu bakaríinu í nafni baráttunnar gegn matarsóun.

Fréttaritarinn rakst á kunningja úr gömlum bumbuboltahópi og framámann í HK. Horfðum saman á seinni hálfleikinn alveg uppi í rjáfri lausir við versta næðinginn, þar sem það var sannast sagna orðið nokkuð kalt. Sonurinn heimtaði samt nammipeninginn og eyddi honum í stórt og ískalt kókglas. Þeir hafa nú aldrei verið sérstaklega skarpir þessir Valsarar.

Seinni hálfleikur var rétt byrjaður þegar honum var í raun lokið. HK-ingar mættu miklu ákveðnari til leiks og eftir þrjár mínútur léku þeir sér að silalegri Framvörninni og tvöfölduðu forystuna. Öllum mátti ljóst vera að von væri á enn fleiri mörkum.

Á 53. mínútu skoruðu HK-menn þriðja sinni og í kjölfarið kom Már inná fyrir Unnar. Rúmum tíu mínútum síðar varði Hlynur á marklínu, en enginn kom vörnum við á 69. mínútu þegar gestirnir skoruðu fjórða markið. Bölsýnn fréttaritarinn fór að grípa til sagnfræðimenntunar sinnar til að rifja upp stærstu ósigra félagsins í sögunni. Það hafði enginn húmor fyrir að rata í metabækur í kvöld.

Sem betur fer virtust Kópavogsbúar saddir þegar komið var í fjögurra marka mun og það sem eftir lifði leiks voru Framarar heldur líklegri til að skora en gestirnir. Raunar má segja að úti á vellinum hafi ekki verið svo mikill gæðamunur á liðunum og Framarar voru ekkert minna inni í leiknum á löngum tímabilum – munurinn lá bara í því að þeirra vörn var þétt en okkar hriplek. Fred náði örlítið að lappa upp á stigatöfluna þegar mínúta var eftir að venjulegum leiktíma, 1:4.

Tvær umferðir eru eftir af mótinu og ekki verður öðru trúað en að okkar menn ætli að reyna að ljúka þeim með sóma. Næsti leikur verður á Grenivík. Þar verður fréttaritarinn fjarri góðu gamni, enda þarf hann að fylgja eldra barninu á eitthvað Comic Festival í höfuðborginni. Það mikið á einn mann lagt að eiga bæði Valsara og myndasögunörda fyrir börn. Kannski karmað að bíta mann í rassinn fyrir að skrifa endalausa eineltispistla um önnur fótboltalið á lýðnetið?

Stefán Pálsson

 

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!