Stelpurnar okkar í handboltanum mættu Selfoss í fyrsta leik Olísdeildarinnar þennan veturinn og var leikið á Selfossi á nýjum stað. Selfoss hefur lengi leikið í Vallarskóla en hafa nú fært sig yfir götuna og leika þetta árið í íþróttahúsi FSU sem er pínu öðruvísi.
Leikurinn í kvöld byrjaði bara vel, við keyrðum strax upp hraðan og það var kraftur í okkar stelpum. Sóknarleikurinn gekk vel og við áttum frekar auðvelt með að skora. Varnarleikurinn fínn enda Steinunn og Elva mættar til leiks. Staðan eftir 10 mín. 4-8. Við miklu betri.
Næstu 10 mín. voru svo ekki góðar, við slökuðum á varnarlega sennilega vegna þess að Steinunn fékk hvíld, sóknarlega fórum við illa með mörg dauðafæri og Selfoss gekk á lagið. Staðan eftir 20 mín. 9-12.
Fengum gríðar mikið af góðum færum sem við nýttum illa.
Það var dálítð sagan okkar í þessum fyrri hálfleik, okkur gekk vel að skapa færi en nýttum þau illa, eins fannst mér við vera að taka færi sem var algjör óþarfi að taka því við fengum alltaf opnanir. Þurfum að velja færin betur. Varnarlega þurfum við enn og aftur að brjóta meira og til enda. Staðan í hálfleik 13-15.
Síðari hálfleikur spilaðist svipað, við áttum auðvelt með að skapa færi en vorum ekki að velja þau bestu. Varnarlega voru við á pari og leikurinn í okkar höndum. Staðan eftir 40 mín. 17-19.
Það kom svo góður kafli þar sem við nýttum færin og þá breyttum við stöðunni strax í fjögur mörk.
Staðan eftir 50 mín. 21-25.
Við tókum svo aðra góða syrpu og kláruðum þennan leik, 22-28 eftir 53 mín. Leikurinn fjaraði svo bara út, formsatriði að klára leikinn en við gáfum þeim svo sem lítil færi á okkur. Lokatölur í leiknum 24-30.
Flottur sigur gegn mjög spræku liði Selfoss. Sóknarleikur okkar góður, þannig að við áttum auðvelt með að koma okkur í færi en þurfum að nýta færin og velja þau mun betur. Varnarlega þurfum við að klára hann til enda, stöndum vel en slökum svo á og gefum stundum mörk að mér finnst. Markvarslan var alveg þokkaleg og þurfum að gefa nýjum leikmanni tíma.
Elva og Steinunn traustar, leikurinn var veisla fyrir bæði Ragnheiði og Hildi sem fengu endalaust pláss en ég vill fara sjá Þórey Rósu nýta færin betur.
Næsti leikur er heima gegn Val á laugardagskvöld kl. 20:00, hreint magnaður tími og tvíhöfðapartý í FRAMhúsi.
Hvet FRAMara til að fjölmenna í Safamýrina á tvo dúndur leiki.
ÁFRAM FRAM