Ástþór Kristberg Óskarsson
F: 12. apríl 1945. D: 1. júlí 2018.
Þegar Framarar komu saman á nýjan leik í getraunakaffi í Safamýrina á laugardagsmorgnum í lok ágúst, söknuðu þeir nærveru Ástþórs Óskarssonar. Framarar sáu á eftir traustum félagsmanni við fráfall Ástþórs Kristbergs, sem var alltaf tilbúinn að svara kallinu og það var alltaf létt yfir þar sem Ástþór fór um. Útför Ástþórs fór fram í kyrrþey 10. júlí.
Ástþór helgaði Fram krafta sína í fjölmörg ár, eða síðan hann hóf störf innan knattspyrnudeildar upp úr 1980 og fljótlega tók hann að sér liðsstjórn hjá meistaraflokki og var samvinna hans og Vilhjálms Hjörleifssonar til fyrirmyndar. Þeir hófu samstarf þegar Andrzej Strejlau tók við Framliðinu 1982 og það má segja að þeir hafi leikið við hvurn sinn fingur á afar sigursælu tímabili Ásgeirs Elíassonar 1985-1991.
Ástþór hafði yfir góðri kímnigáfu að ráða, var glettinn og gat séð broslegar hliðar á málefnum. Hann var skyldurækinn og og vann verk sín afar vel – vildi hafa allt á sínum stað. Frestaði því ekki til morguns, sem hægt var að gera í dag. Ástþór sló ekki um sig, það var ekki hans lífsstíll. Hann var vinur vina sinna og ávallt tilbúinn að veita þá aðstoð sem hann gat. Það var gott að vita af honum á næstu grösum.
Ástþór var mikill keppnismaður og undirbjó sig vel fyrir hverja orrustu, ákveðinn í að láta sitt ekki eftir liggja. Þó var hann ekki alls kostar tilbúinn í sína síðustu baráttu, því að hann bjóst ekki við, frekar en aðrir, að árásin kæmi úr þessari átt. Á ótrúlega stuttum tíma varð Ástþór að játa sig sigraðan, eins og svo margir aðrir í baráttu við vágest sem læknavísindin standa oft ráðþrota gegn. Jafnvel sterkustu vígi falla í slíkum slag.
Það er sárt að horfa á eftir góðum félaga á þennan hátt. Framarar kveðja og minnast Ástþór með þakklæti fyrir störf í þágu félagsins.
Sigmundur Ó. Steinarsson