fbpx
Gummi setur

Kóngurinn er dauður, lengi lifi kóngurinn!

Lokaumferðir eru skrítið fyrirbæri. Hjá sumum liðum eru þær formleg staðfesting á löngu ráðnum örlögum: falli niður um deild eða meistaratitli sem þegar var í höfn. Stundum kemur fyrir að úrslit ráðast í lokaumferðum með tilheyrandi tilfinningarússíbana, sem endar í ofsakæti eða sárum harmi – líkt og gerðist í leik ÍR og Magna í Breiðholtinu í dag.

Algengast er þó að lokaleikurinn sé merkingarlaus viðureign tveggja liða í miðjumoði, sem breytir litlu nema um töfluröð sem fáir leiða hugann að aðrir en sagnfræðinirðirnir. Þetta eru tregablandnir leikir, þar sem hrærast saman mótsagnakenndar tilfinningar: eftirsjá þar sem fótboltatímabili er að ljúka og feiginleiki yfir að ákveðnum áfanga sé lokið og nú taki við nýr kafli.

Íslandsmótið byrjaði í fáránlegu veðri í vetrarhríð með glampandi sumarsólarköflum á milli á móti Selfossi. Framarar gáfu gestunum tvö mörk í forskot en náðu að jafna 2:2. Á þeim tíma virtust það bara þokkaleg úrslit. Stigataflan núna í mótslok sýnir að það voru tvö töpuð stig.

Fréttaritari Framsíðunnar skrópaði í getraunakaffið í Safamýrinni í morgun. Að því leyti byrjaði þessi laugardagur eins og allir aðrir laugardagar. Fréttaritarinn er vissulega snemmmiðaldra, en þó það unglamb að hann sefur frameftir á laugardögum og situr svo við morgunverðarborðið og þambar kaffi til hádegis. Hann er síst af öllu til útflutnings á laugardagsmorgnum, hvað þá til að setja sig í spekingslegar stellingar um hvort Huddersfiled muni vinna Aldershot.

Nema hvað, í getraunakaffinu var víst viðruð sú hugmynd að hefja leikinn í dag ekki á því að þylja upp leikmenn liðanna fyrir áhorfendum, heldur að telja upp alla áhorfendurna leikmönnum til upplýsingar. Þessi snjalla hugmynd hefði í það minnsta verið auðframkvæmanleg í dag. Þegar flautað var til leiks voru áhorfendur litlu fleiri en leikmenn og liðstjórar.

Byrjunarliðið tók mið af því að Alex var í banni og Hlynur meiddur. Atli var í markinu með Kristófer, Dino og Karl í öftustu varnarlínu. Unnar og Mihaljo í stöðum bakvarða/kantmanna. Jökull var aftastur á miðjunni með Thiago og Orra fyrir framan sig. Fred þar fyrir framan og svo Guðmundur á toppnum. Már og Helgi byrjuðu á bekknum.

Fyrr í sumar virtust Ólsarar hafa á að skipa besta liði deildarinnar, auk Skagamanna og um tíma virtist liðið ætla að gera atlögu að Pepsi-deildarsæti. Svo virðist þó sem bikarævintýrið hafi orðið þeim að falli. Víkingar voru grátlega nærri því að komast í úrslitin, en blóðugt tap í undanúrslitunum virðist hafa slegið lið þeirra gjörsamlega út af laginu og það hefur ekki verið nema skugginn af sjálfu sér síðustu vikur.

Miðað við hvað liðið frá Snæfellsnesi lagði mikið á sig til að reyna að komast á Laugardalsvöll í bikarnum, virtust leikmenn þeirra lítt upprifnir að fá að spila við Fram á þjóðarleikvangnum og Framarar byrjuðu ívið betur. Strax á áttundu mínútu slap Jökull einn í gegnum Víkingasvörnina en náði ekki almennilegu skoti að marki. Upp úr miðjum fyrri hálfleiknum komust Framarar hins vegar yfir, þegar gestirnir steinsofnuðu á verðinum og skildu Guðmund einan eftir. Okkar maður lætur ekki bjóða sér slík færi tvisvar og skoraði auðveldlega, 1:0, með öruggu skoti. Silfurskórinn í höfn. Iðnari sagnfræðingur en sá sem hér stýrir lyklaborði myndi vafalítið nenna að slá því upp hvenær Framari komst síðast á top 3-listann yfir markaskorara. Var það kannski bara fjörkálfurinn og sjarmatröllið Bubalo?

Litlu mátti muna að Guðmundur bætti enn við markareikninginn á 33. mínútu með góðum skalla framhjá. 2:0 forysta hefði þó ekki verið í samræmi við gang leiksins, sem var í jafnvægi þótt Framarar sköpuðu sér ívið betri færi. Í stúkunni fylgdust áhorfendur lítt með leiknum en voru þeim mun uppteknari af því að rýna í snjallsímana sína til að fylgjast með gangi mála í öðrum leikjum handrukkaradeildarinnar og í deildinni sem segist vera önnur deild en er samt bara þriðja deild. Það er mikið kot Hákot.

Um það leyti sem Framarar virtust vera að ná völdum á leiknum, reið ógæfan yfir. Framari og Ólsari voru að kýta um boltann úti á miðjum velli án þess að nein hætta virtist vera á ferðum, Framarinn lá eftir – taldi sig hafa fengið högg – en ekkert dæmt, heldur náðu gestirnir að prjóna sig í gegnum vörnina og skora eftir runu af kauðskum varnarleik, lélegum dekkingum og einbetingarleysi. Stefið úr hinum alvondu Benny Hill-gamanþáttum söng í höfðum viðstaddra. 1:1.

Leikhlé í heldrimannastúkunni, þar sem boðið var upp á tvær fleytifullar pressukönnur af úrvals baunakaffi og nokkra poka af kleinum frá Bónus.

Hippólító hóf seinni hálfleikinn með skiptingu. Helgi kom inná fyrir Jökul. Örlítið skringileg breyting í ljósi þess að Jökull hafði verið einna líflegastur okkar manna. Lakara var þó að Framliðið virtist ekki snúa aftur úr hléinu. Víkingar tóku öll völd á miðjunni og júku sóknarþunga sinn jafnt og þétt. Þrátt fyrir það sköpuðu Framarar sér eitt og eitt væri – það besta á 56. mínútu þar sem gestirnir máttu hafa sig alla við að verja á marklínu eftir góðan skalla frá Guðmundi. Eftir rúmlega klukkutíma leik virtist Helga hrint í vítateignum en ekkert dæmt. Um það leyti var raunar allnokkur harka farin að hlaupa í leikinn, sem birtist í seinum tæklingum og því að menn voru farnir að nota olnbogana ótæpilega í uppstökkum á báða bóga.

Atli þurfti í tvígang að taka á honum stóra sínum með góðri markvörslu á 65. og 70. mínútu, en ljóst mátti vera að sókn Víkinga var farin að þyngjast allverulega.

Már kom inná fyrir Mihaljo og fimm mínútum síðar mátti litlu muna að Framarar kæmust yfir, þar sem Fred kom sér óvænt í gott færi en þrumaði yfir markið. Það var síðasta spyrna hans í leiknum, því honum var skipt útaf fyrir Magnús Þórðarson sem fékk að spreyta sig síðustu mínúturnar.

Sigurmark Víkinga kom á 80. mínútu úr vítaspyrnu eftir klaufalegt brot hjá Má. 1:2. Undir lokin lifnaði örlítið yfir okkar mönnum sem reyndu að jafna metin, en allt kom fyrir ekki. Þriðja tapið í röð og Framliðið hefur sigið niður töfluna jafnt og þétt.

Kóngurinn er dauður, lengi lifi kóngurinn! – var hrópað þegar einvaldar fyrri alda hrukku upp af standinum og þótti fyndið. Hugsunin í þessari upphrópun er þó rökrétt. Kóngurinn deyr en konungdæmið lifir. Um leið og einni leiktíðinni lýkur má segja að sú næsta hefjist. Árangur Framliðsins í sumar olli um margt vonbrigðum. Hægt er að ylja sig við nokkur ágæt úrslit og einstaka fínan leik – sigurinn á Þrótturunum á útivelli kemur upp í hugann. Eins raðaði fyrirliðinn inn mörkum, markvörðurinn okkar var einhver sá besti í deildinni og margir ungu strákanna fengu eldskírn. Það er þó margt að og margt sem þarf að laga. Nú er bara að einbeita sér að parketglímunni og útlenska fótboltanum í fáeinar vikur – og þá verður aftur komið Reykjavíkurmót og hringekjan heldur áfram að snúast.
Takk fyrir samfylgdina.

Stefán Pálsson

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!