fbpx
Stefán Darri í fyrsta leik með alcobendas vefur

Stefán Darri Þórsson genginn til liðs við spænska félagið Alcobendas

Stefán Darri Þórsson gekk í síðustu viku til liðs við spænska félagið  SECIN GROUP BM ALCOBENDAS frá FRAM. Stefán Darri sem er uppalinn FRAMari hafði undanfarin tvö ár leikið með Stjörnunni en skipti aftur yfir í FRAM í sumar og gerði tveggja ára samning við sitt uppeldisfélag FRAM.
Það var samt ljóst að Stefán myndi ekki spila fyrir FRAM fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót þar sem hann var skráður til náms í Madríd fram að áramótum.

En málin eru oft fljót að breytast og þegar til Madrídar var komið óskaði Stefán eftir því við Alcobendas sem er staðsett í Madrid að fá að æfa með félaginu.  Þeir samþykktu að leyfa honum að koma til prufu á æfingar og það leiddi svo til þess að félagið bauð Stefáni Darra samning út þetta keppnisár.

BM Alcobendas er frá samnefndum bæ í útjaðri Madrídar, félagið komst upp í efstu deild á Spáni í vor og eru því nýliðar í spænsku deildinn.  Félagið hefur nú þegar leikið fjóra leiki í spænsku deildinn og hafa tapað þeim öllum.  Það má til gamans geta að fyrsti leikurinn var gegn Aroni Pálma og félögum í Barcelona og tapaðist sá leikur nokkuð örugglega 24-50.  Það er því ljóst að Stefán og félagar eiga erfiðan vetur fyrir höndum. 

Stefán Darri lék svo sinn fyrsta leik fyrir félgið um helgina þegar félagið mætti Blendio Sinfín á útivelli. Stefán lék töluvert í leiknum og náði að gera eitt mark.

Við FRAMarar óskum Stefáni Darra alls hins besta og vonum að hann nái að setja mark sitt á spænsku úrvalsdeildina í vetur.

Þeir sem vilja fylgjast með geta kynnt sér heimasíðu félagsins http://www.balonmanoalcobendas.org/

Gangi þér vel Stefán Darri

ÁFRAM FRAM

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email