Strákarnir okkar í handboltnum mættu Haukum að Ásvöllum í dag. Ljóst að við yrðum að spila mjög vel, Haukar með mjög vel mannað lið.
Leikurinn byrjaði ágætlega en í stöðunni 3-3 misstum við þá frá okkur og við náðum ekkert í skottið á þeim fyrr en í stöðunni 9-8, eftir ágæta rispu. Við náðum að halda aðeins í við þá en áttum svo vondan kafla undir lokin og staðan í hálfleik 18-14. Vont að ná ekki að klára hálfleikinn betur.
Það er mikið að fá á sig 18 mörk og ljóst að við þyrftum að gera betur sérstaklega varnarlega.
Síðari hálfleikur byrjaði svo ágætlega, stóðum betur varnarlega og fengum auðveld mörk, staðan eftir 40 mín. 21-20. Við náðum ekki að fylgja þessu eftir, misstum þá jafnt og þétt fram úr okkur og áður en við vissum af var munurinn kominn í 6 mörk. Okkur gekk illa að skora og þeir keyrðu yfir okkur.
Við náðum að minnka muninn í 3 mörk þegar um 5 mín. voru eftir en þá þurfa menn að taka smá áhættu og það gekk ekki upp í dag. Lokatölur 34 -28.
Við vorum ekki að spila nógu vel í dag, varnarlega vorum við ekki að ráða við verkefnið og fengum á okkur mikið af mörkum úr opnum færum. Sóknarlega vorum við á löngum köflum hægir að mér fannst og Haukarnir náðu að lesa okkur vel. Mér fannst vanta meiri vilja og kraft í okkur í dag, pínu flatt allt hjá okkur. Það vantaði bara meiri trú á verkefnið að mér fannst, veit að við getum gert mun betur.
Næsti leikur verður á heimavelli gegn Akureyri um næstu helgi, fylgist með.
ÁFRAM FRAM