Knattspyrnudeild FRAM hefur samið við þrjá unga leikmenn til næstu tveggja ára.
Um er að ræða þá Alex Bergmann Arnarsson, Magnús Inga Þórðarson og Óla Anton Bieltvedt. Þeir eru fæddir árið 1999 og gengu upp úr 2.flokki FRAM nú í haust.
Allir voru þeir viðloðandi leikmannahóp meistaraflokks á síðasta tímabili ásamt því að leika með 2.flokki.
Alex Bergmann var fyrirliði 2.flokks á síðasta tímabili og var á lokahófi knattspyrnudeildar valinn besti leikmaður flokksins. Hann hefur að mestu leikið sem miðju- og varnarmaður.
Magnús Ingi er sóknarmaður, snöggur og leikinn með knöttinn. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með FRAM gegn Víkingi Ólafsvík í síðasta leik Inkasso-deildarinnar í sumar.
Óli Anton hefur í seinni tíð leikið mest sem miðvörður eða hægri bakvörður eftir að hafa á yngri árum leikið framar á vellinum. Hann var nokkrum sinnum í leikmannahópi meistaraflokks í Inkasso-deildinni án þess að koma við sögu.
Knattspyrnudeild FRAM bindur miklar vonir við þessa ungu og efnilegu leikmenn og það verður gaman að fylgjast með þeim halda áfram að vaxa og dafna í Frambúningnum á næstu árum.