Aðalsteinn Aðalsteinsson hefur verið ráðinn þjálfari 2. flokks FRAM og Úlfanna.
Aðalsteinn er Frömurum að góðu kunnur en hann þjálfaði yngri flokka félagsins við góðan orðstír um nokkurra ára skeið og kom hann þar m.a. að þjálfun nokkurra leikmanna sem nú skipa meistaraflokkslið FRAM. Hann kemur nú inn í þjálfarateymi 2. flokks FRAM ásamt Heiðari Geir Júlíussyni og mun auk þess taka við þjálfun 4. deildarliðs Úlfanna.
Úlfarnir eru félag sem byggt er upp á leikmönnum sem flestir hafa komið upp í gegnum yngri flokka FRAM.
2. flokkur FRAM er ansi fjölmennur þetta árið og markmiðið er að sem flestir leikmanna fái verkefni við hæfi og verður samstarfið við Úlfana eflt til muna og leikmenn 2. flokks FRAM koma til með að fá þar reynslu af því að spila meistaraflokks fótbolta.
Aðalsteinn sem hefur UEFA-A þjálfaragráðu er gríðarlega reyndur þjálfari. Hann hefur starfað við þjálfun í hartnær 30 ár, bæði í yngri flokkum og meistaraflokki. Hann hefur þjálfað meistaraflokka Víkings R, Völusungs, Leifturs, Sindra og Skallagríms.
Aðalsteinn þjálfaði lengi yngri flokka Fylkis eða í 10 ár. Hann þjálfaði yngri flokka FRAM í 8 ár og var síðast þjálfari 3.flokks karla hjá Víkingi R. Hann hefur þjálfað fjöldann allan af fyrrverandi og núverandi Pepsi-deildar og Inkasso-deildar leikmönnum og m.a. tvo af núverandi landsliðsmönnum Íslands, þá Ragnar Sigurðsson og Albert Guðmundsson.
Aðalsteinn var einnig farsæll leikmaður. Hann lék samtals 404 meistaraflokksleiki. Lengst af lék hann með Víkingi R. og varð tvívegis Íslandsmeistari með félaginu. Þá lék hann einnig í norsku 1 .deildinni og á auk þess að baki 4 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
Við FRAMarar bjóðum Aðalstein velkominn og væntum mikils af hans störfum á næstu árum.