Kristófer Jacobson Reyes hefur verið valinn í æfingahóp Filippseyja. Kristófer lék fyrri hálfleik með Fram í 6-3 sigri á HK í Lengjubikarnum á laugardag en hélt svo af stað til móts við landsliðið sem kom saman í Bangkok í Tælandi í gær, mánudaginn 18. mars.
Æfingabúðirnar í Bangkok standa yfir í rúman vikutíma í hinu alþjóðlega landsleikjahléi. Landsliðið leikur enga leiki í þessu landsleikjahléi en mun þess í stað nota tímann vel til æfinga. Standi Kristófer sig vel má búast við því að hann fái að spreyta sig í leikjum með landsliðinu í júní.
Það verður spennandi að fylgjast með framvindu mála hjá Kristófer sem hefur samið við tælenska félagið Ratchaburi. Kristófer mun leika með Fram í Inkasso-deildinni þar til í júní er hann fær leikheimild í tælensku deildinni.