fbpx
Keflavík - Fram (2)

Og þá er það byrjað…

Fréttaritari Framsíðunnar og formaður húsfélagsins í Eskihlíð 10 og 10a tók daginn snemma og dröslaði garðhúsgögnunum úr hitakompunni og fram fyrir hús. Reyndar bara þremur stólum. Tveir fuku og brotnuðu í fyrstu haustlægðunum í fyrra og borðið er eiginlega morknað í sundur. Í fullkomnum heimi hefði húsfélagsformaðurinn sinnt því að pússa upp og olíuverja garðhúsgögnin, framlengt þannig líf þeirra og minnkað vistspor hússins. Í fullkomnum heimi færi húsfélagsformaðurinn líka fyrr að sofa á kvöldin, æti minna af kolvetnum og ætti börn sem hlustuðu á eitthvað annað en FM957 og K100.

Það var sól og blíða þegar fréttaritarinn lauk við að stilla upp síðasta stólnum og fór að búa sig til brottfarar. „Ekki dónalegt að byrja Íslandsmót í svona veðri“, hugsaði rúmlega 44 ára gamall maðurinn. „Ætli ég þurfi mikið meira en pólóbolinn…?“

Við hinn enda Reykjanesbrautarinnar leyndust nokkur aukavindstig í leynum. Sól skein í heiði á fallega grænan Keflavíkurvöll en sterkur hliðarvindur þvert á völlinn og í flasið á áhorfendum gerði rúmlega 300 heimamönnum og kannski 20 Frömurum á pöllunum lífið leitt. Jakkinn í aftursætinu kom í veg fyrir að einn allra efnilegasti húsfélagsformaður landsins yrði lungnabólgunni að bráð.

Fyrir tæpri viku duttu okkar menn úr leik í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar eftir afleitan leik á móti Njarðvík. Fréttaritari Framsíðunnar mætti á þá viðureign en hafði sig ekki í að skrifa leikskýrslu. Tökum fram áður en lengra er haldið að frammistaðan var ólíkt betri í dag en í þeirri viðureign.

Byrjunarliðið var á þá leið að Ólafur stóð í markinu með Hlyn og Marcao í miðvörðunum og Matthías Kroknes og Harald Einar í bakvörðunum. Unnar Steinn var aftastur á miðjunni með Jökul og Tiago fyrir framan sig, Má á hægri kantinum. Fred frammi leitandi út á hægri kant og Helgi á toppnum. Ætli þetta heiti ekki 433 á einhverjum bæjum? Eina breytingin frá Njarðvíkurhörmunginni var að Jökull kom inn í liðið fyrir Magnús Þórðarson. Þau sem bjuggust við að sjá Marcao í banni eftir fábjánalega rauða spjaldið sem hann nældi sér í á móti Njarðvíkingum kættust við að frétta að spjöld í bikarkeppninni telja bara til refsinga í þeirri sömu keppni – regla sem er svo vitlaus að HSÍ gæti hafa búið hana til.

Í leiknum gegn Njarðvík voru Framarar í þeirri stöðu að stýra leiknum gegn liði sem varðist og vissi vel sín takmörk. Það hentaði okkur ekki vel á þurru gervigrasinu, þar sem liðið tók alltaf aðeins of margar snertingar og lék fremur til baka en framávið þegar færi gafst – Njarðvík refsaði svo með skyndisóknum (við gætum lent í vandræðum gegn slíkum liðum í sumar). Gegn hinum dökkklæddari sonum Reykjanesbæjar var ljóst frá upphafi að annað yrði upp á teningnum. Keflvíkingar eru óðum að jafna sig eftir kjöldrátt síðustu leiktíðar í Pepsi-deildinni og ætla greinilega að spila sóknarbolta. Framarar mættu hins vegar staðráðnir í að liggja til baka og sækja svo hratt fram, enda eigum við nóg af skruggufljótum mönnum.

Bæði lið byrjuðu að krafti og fengu hvort sitt góða marktækifærið á fyrstu fimm mínútunum. Á áttundu mínútu náðum við svo forystu eftir flottan undirbúning frá Tiago sem lyfti boltanum glæsilega inn í teiginn á Helga sem vippaði yfir markvörð Keflvíkinga og í netið. Gott að sjá Helga komast á blað svo snemma. Gengi okkar í sumar mun standa og falla með því að hann nái sér á strik.

Fljótlega eftir markið tóku heimamenn að færa sig framar á völlinn, án þess að skapa sér mikið. Haraldur bjargaði vel um miðjan hálfleikinn og Marcao, sem átti prýðilegan leik, þurfti oft að grípa inn í. Framarar vörðust vel og voru í raun líklegri til að skora með skyndisóknum, þótt yfirleitt vantaði herslumuninn.

Flautað var til leikhlés og kuldaloppnir stuðningsmenn Knattspyrnufélagsins Fram flúðu í skjól undan næðingnum á bak við stúkuna – heimamenn, alvanir gjólunni, létu ekki sjá sig. Þegar nýi og fíni völlurinn í Úlfarsárdalnum verður tekinn í notkun 2022 legg ég til að Keflvíkingar verði fengnir til að halda námskeið í hvernig þola skuli norðargarra í sumarbyrjun. Þetta lið var allt á pólóbolum.

Í seinni hálfleik byrjuðu Framarar vel og litlu mátti muna að þeir Fred og Helgi næðu að auka muninn með mínútu millibili á 50.mínútu, en Keflvíkingar fengu svo sem sín færi og mátti Ólafur nokkrum sinnum grípa vel inní í Frammarkinu.

Við tók kaflaskiptur leikur þar sem liðin skiptust á að sækja. Keflvíkingar áttu nokkurra mínútna öflugan kafla þegar um tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum, sem Framarar svöruðu ágætlega frá 60. mínútu. Þegar 25 mínútur liðu af leiknum komst Tiago í dauðafæri eftir skyndisókn, þar sem hann prjónaði sig glæsilega í gegnum Keflavíkurvörnina og gerði allt hárrétt, þar til kom að lokaskotinu þar sem hann skaut framhjá úr dauðafæri. Þarna var færið til að klára leikinn og sigla þremur stigum í höfn.

Fimm mínútum síðar jöfnuðu heimamenn upp úr litlu. Helsta ógnin frá Keflavíkurliðinu kom úr föstum leikatriðum, hornspyrnum og aukaspyrnum, helst frá vinstri kanti – enda olli vindstrekkingurinn því að leikurinn fór að mestu fram þar. Eftir eitt slíkt færið barst bolti inn í Framteiginn sem óvaldaður Suðurnesjamaður skallaði vandræðalítið í netið á 70. mínútu.

Jón Sveinsson gerði tvöfalda skiptingu í kjölfar marksins. Magnús og Hilmar komu inn fyrir Jökul og Má. Skömmu síðar var augljóslega hrint á bakið á Fred inni í vítateig Keflvíkinga. Brasilíumaðurinn fór ansi auðveldlega niður en uppskar gult spjald, sem var ansi harður dómur. Á lokamínútunum opnaðist leikurinn mjög. Keflvíkingar fengu fleiri og betri færi og á 87. mínútu reið ógæfan aftur yfir – þar sem varnarmenn Fram skildu öðru sinni einn Keflvíkinginn eftir einan og óvaldaðan. Ólafur markvörður, sem öðru leyti stóð sig prýðilega í leiknum, virtist ekki nægilega vel á verði í markinu.

2:1 tap í Keflavík í fyrsta leik eru óneitanlega vonbrigði en ekkert stóráfall. Jafntefli hefði kannski verið sanngjarnari úrslit en það er dýrt að nýta ekki færin sín. Tiago, sem þó var besti maður okkar í leiknum hefði svo sannarlega mátt gera betur um miðjan seinni hálfleikinn. Sjáumst á pólóbolnum gegn Fjölni á föstudaginn.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!