Viktor Gísli Hallgrímsson yfirgefur herbúðir Fram í sumar og heldur í atvinnumennsku en hann hefur gert samning við danska liðið GOG sem er eitt sigursælasta lið danskrar deildarkeppni.
Viktor spilaði sinn fyrsta leik fyrir Fram árið 2016 þá aðeins 16 ára gamall. Á sínu fyrsta tímabili í meistaraflokk Fram spilaði Viktor 29 mótsleiki og þá var flestum ljóst að hér var á ferðinni gríðarlegt efni.
Þau þrjú tímabil sem Viktor hefur spilað fyrir aðallið Fram, frá 16-19 ára aldri, á hann hvorki meira né minna en 79 leiki að baki fyrir liðið og hefur nýlega verið valinn í A-landslið karla ásamt því að eiga að baki mikinn fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands.
Við Framarar erum mjög stoltir af Viktori Gísla og því sem hann hefur lagt af mörkum til félagsins.
Við viljum þakka honum kærlega fyrir samstarfið og óskum honum góðs gengis og alls hins besta í vegferð sinni á komandi árum.
Mundu eitt drengur, þú ert alltaf velkominn heim!
Áfram Fram.