fbpx
Eftir leik

Svona gerir maður!

Hvenær er Reykjavík fallegust? Mögulega á vorkvöldunum þegar sólin skín og maður þarf að píra augun til að horfa á leikinn, því allar stúkur á Íslandi snúa til móts við kvöldsólina. Auðvitað kólnar þegar líður á kvöldið og undir lokin er maður orðinn aðeins of kaldur. Veðrið er samt milt og fallegt. Þá er Reykjavík best… í það minnsta þegar þrjú stig fylgja í kaupbæti.

Það var vel mætt í Safamýrina í kvöld. Kempurnar á gasgrillunum punduðu út ljúffengum hamborgurum og allir glöddust yfir að við værum að spila á heimavelli en ekki í Mordor. Sú ákvörðun að sniðganga Laugardalsvöll í sumar var hárrétt, þótt ef til vill hafi verið aðeins of langt gengið að tapa fyrir Njarðvík í bikarnum í því skyni.

Fjölnismenn eru með góðan mannskap og því ekki undarlegt að þeim sé spáð góðu gengi, þótt tal um yfirburði þeirra í deildinni sé fullvel í í lagt. Framarar mættu með óbreytt lið frá Keflavíkurleiknum: Ólafur í marki, Haraldur, Hlynur, Marcao og Matthías í fjögurra manna varnarlínu með Unnar og Jökul fyrir framan sig. Tiago, Már og Fred á miðjunni og köntunum og Helgi fremstur. Þetta er líklega okkar sterkasta uppstilling um þessar mundir, en fljótlega má búast við að þeir Arnór Daði og Sigurður Þráinn snúi aftur heim frá Bandaríkjunum og geri tilkall til sætis.

Framarar byrjuðu nokkuð líflega, létu boltann ganga hratt og vel á milli sín og sýndu ágæta tilburði til að skapa sér færi. Einkum var Fred líflegur á þessum upphafskafla. Fjölnismenn virtust þungir og lítt einbeittir. Það voru þó gestirnir sem skoruðu fyrsta markið eftir kortér og það í sinni fyrstu alvöru sókn. Einbeitingarleysi í vörninni gaf Fjölnismanni frítt skot frá vítateigslínu sem rataði í markhornið.

„Jæja, verður þetta svona leikur?“, spurðu beiskur fréttaritarinn og félagar hans sig á áhorfendapöllunum – með andlitin rist rúnum vonbrigða, svika og höfnunar. Næsta hugsun þess er hér stýrir lyklaborði var vitaskuld hvernig í fjáranum ætti að spinna þennan pistil þannig að nokkur maður fengist til að lesa hann til enda. – En angist pistlahöfundarins náði ekki að skjóta djúpum rótum, því aðeins tveimur mínútum síðar lá boltinn í neti Fjölnismarksins. Unnar Steinn fékk boltann á miðjum vellinum, lék honum í átt að marki án þess að neinn Grafarvogsbúi reyndi að stöðva hann. Rétt fyrir utan teig lét hann svo skot ríða af sem söng í netinu. Glæsileg afgreiðsla!

Rétt er að ljóstra því upp nú þegar að Unnar Steinn Ingvarsson var maður leiksins. Ekki bara að mati fréttaritara Framsíðunnar, heldur einnig Fótbolta.net og vallarþular. Síðastnefnda viðurkenningin er þó sú eina sem gefur efnisleg verðlaun. Nú um stundir fá menn leiksins pítsur frá Dómínós. Af er það sem áður var að verðlaunin fælust í því að fá út að borða á Laugaási og geisladisk frá Spori! (Og nei, ég skrifa almennt ekki pítsur á þennan hátt. Það er stílbragð til að skapa ákveðin hughrif við lestur pistilsins.)

Mörk breyta fótboltaleikjum. Það er þó klisja sem er óneitanlega sönn. Eftir jöfnunarmarkið hresstust bæðu lið, Framarar þó öllu meira. Við höfðum mun meiri völd á miðjunni og náðum oft að byggja upp gott spil. Unnari hefur áður verið hrósað, en ástæða er til að nefna Jökul líka. Hann er eiginlega nýi uppáhaldsleikmaður fréttaritarans, sem ólst upp við Pétur Arnþórsson á miðjunni og kann því vel að meta harðduglega nagga sem gefa aldrei tommu eftir.

Á 39. mínútu átti Helgi líklega að fá víti (mistækur dómari leiksins jafnaði það út í seinni hálfleik með því að sleppa líklegri vítaspyrnu á Framara) en uppskar bara horn. Það kom ekki að sök því Már átti hárnákvæma sendingu utarlega í teiginn þar sem engum Fjölnismanni hugkvæmdist að valda Hlyn sem kom á fluginu og stangaði boltann af ógnarkrafti í netið, 2:1. Stórgott mark frá fyrirliðanum.

Almenn kátína ríkti í leikhléi þar sem áhorfendur skunduðu inn í félagsheimilið og fengu yl í kroppinn. Hefur komið nægilega skýrt fram hversu kátur greinarhöfundur er með að spila ekki á leikvangi Satans nú í sumar? Gamlar kempur með leiki að baki í færeysku deildinni og glænýjan gervilið í hné sögðust ekki hafa séð betri frammistöðu hjá liðinu í ár og það eru nú ekki dónaleg meðmæli.

Síðari hálfleikur var tilþrifalítill í byrjun. Aukin harka færðist í leikinn og dómarinn missti nokkuð tökin á honum. Lét tuð í leikmönnum og áhorfendum hafa of mikil áhrif á sig og gætti ekki alveg samræmis. Fjölnismenn sem höfðu verið mjög daufir í fyrri hálfleiknum hresstust aðeins en samt kom jöfnunarmarkið á 54. mínútu nánast ekki upp úr neinu. Allir varnarmenn Framara og Ólafur í markinu heimtuðu rangstöðu og vissulega virtist rangstöðufnykur af því þegar einn Fjölnismaðurinn komst einn í gegn og skoraði auðveldlega. Hvað sem því líður hefðu Hlynur og markvörðurinn báðir mátt gera betur, 2:2.

Ætla hefði mátt að jöfnunarmarkið gæti Fjölni byr í seglin, en raunin varð þveröfug. Mínúturnar eftir markið blés Fram til stórsóknar og hafði öll völd á miðjunni, þar sem Tiago og Fred voru báðir í essinu sínu. Það var hins vegar Unnar sem lagði upp markið á sextugustu mínútu með góðri stungusendingu á Helga sem stakk af varnarmenn Fjölnis og lagði boltann vel í fjærhornið af löngu færi. Frábært mark hjá framherjanum okkar sem miklar vonir eru bundnar við í sumar.

Næstu fimm til tíu mínúturnar héldu Framarar áfram að sækja. Það var raunar skynsamleg ráðstöfun því vörnin okkar virkar sannast sagna ansi brothætt. Að pakka í vörn er því aldrei góður kostur hjá Framliðinu um þessar mundir.

Síðustu tuttugu mínúturnar sóttu Fjölnismenn hins vegar með vaxandi þunga og Framarar tóku að færa sig jafnt og þétt aftar á völlinn. Við tóku taugatrekkjandi mínútur. Fjölnismenn sköpuðu þó lítið og Framarar voru alltaf tilbúnir að ógna með skyndisóknum – þær verða okkar skæðasta vopn í ár.

Jón Sveinsson er af Ásgeirs Elíassonar-skólanum þegar kemur að skiptingum. Ásgeir heitinn taldi það alltaf misráðna breytingu á fótboltareglunum að leyfa þessa þriðju skiptingu. Hann taldi yfirleitt nóg að gera fyrstu breytingu þegar 10-15 mínútur væru eftir og henda svo inn kjúklingi í uppbótartíma. Jón beið fram á 85. mínútu með að setja Hilmar Freyr inn á fyrir Tiago – og það líklega helst vegna þess að Tiago virtist pirraður og var nýbúinn að næla sér í gult spjald. Alex Bergmann kom svo inn á þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma og nældi sér þannig í dýrmæt sekúndubrot í reynslubankann.

Fjölnir puðaði og streðaði en skapaði lítið sem ekkert. Dómarinn flautaði til leiksloka, Fram vann 3:2. Kátína á pöllunum og siggisaggi sunginn af innlifun. Vitiði hvað krakkar? Við eigum bara ansi gott fótboltalið og það er að fara að vinna allnokkra fótboltaleiki í sumar, sem er betra en hitt.

Framtíðin er björt og blá og næsti leikur er heima gegn Haukum á fimmtudagskvöld. Flónið sem fréttaritarinn er, álpaðist hann til að bóka sig í vinnu þetta sama fimmtudagskvöld. Það verður því enginn pistil og þið neyðist til að mæta sjálf á völlinn til að verða vitni að hinum óumflýjanlega sigri.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0