Handknattleiksdeild Fram og Ragnheiður Júlíusdóttir hafa gert með sér samning um að Ragnheiður spili áfram í Safamýrinni í herbúðum Fram næsta vetur.
Ragnheiður er fædd 1997 og því ekki nema 22 ára á þessu ári. Hún er uppalin Framari og hefur alla sína handboltatíð leikið með Fram.
Það þarf ekki að kynna Ragnheiði fyrir Frömurum. Hún hefur nú þrátt fyrir ungan aldur verið einn af burðarásum í liði Fram undanfarin ár. Hún lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki haustið 2013, þá einungis 16 ára gömul. Þessi vetur sem er liðinn var því hennar sjötti vetur með meistaraflokki Fram. Á þessum tíma eru meistaraflokksleikirnir á Íslandsmóti orðnir yfir 200, og mörkin í þeim leikjum orðin yfir 1.000.
Ragnheiður hefur nánast ekki misst úr leik með meistaraflokki á þessum sex keppnistímabilum.
Ragnheiður hefur verið valinn besti leikmaður Fram tvisvar, fyrst veturinn 2015 – 2016 og síðan aftur 2017 – 2018
Ragnheiður var markahæsti leikmaður Íslandsmótsins 2017 – 2018 og í öðru sæti síðastliðinn vetur.
Ragnheiður hefur átt sæti í A landsliði kvenna og samkvæmt upplýsingum HSÍ hefur hún leikið 25 landsleiki og skorað í þeim 24 mörk. Hún var valin nú í byrjun maí í landsliðshóp sem býr sig undir umspilsleiki við Spán nú um mánaðarmótin.
Það er Fram sérstök ánægja að geta tilkynnt það að Ragnheiður verði áfram í herbúðum Fram næsta vetur.
ÁFRAM FRAM