Handknattleiksdeild Fram hefur gengið frá samningi við Roland Eradze um að hann taki að sér að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Fram. Hann verður þar Guðmundi Helga Pálssyni til aðstoðar ásamt því að þjálfa og stjórna U liði karla.
Roland mun einnig sjá um þjálfun markamanna meistaraflokka karla og kvenna hjá félaginu.
Það þarf ekki að kynna Roland fyrir nokkrum handboltaáhugamanni. Margreindur leikmaður hér á landi ásamt því að hafa leikið yfir 50 landsleiki með landsliði Íslands á sínum tíma.
Roland hefur áður komið að starfinu hjá Fram en hann var meðal annars aðstoðarþjálfari Halldórs Jóhanns Sigfússonar þegar hann var þjálfari meistaraflokks kvenna veturinn 2013 – 2014.
Handknattleiksdeild Fram er sérstaklega ánægð með að hafa tryggt sér starfskrafta Roland næstu tvö árin og væntir mikils af komu hans til félagsins.
Velkominn til Fram Roland.