Árið 2006 upplýsti fræðiritið Science Magazine að tekist hefði að kortleggja genamengi fyrstu trjátegundarinnar. Um var að ræða ösp. Aspir eru mikilvægustu lauftré á norðurslóðum og skýrist útbreiðsla þeirra ekki hvað síst af hinum mikla vaxtarhraða. Aspir ná á skömmum tíma talsverðri hæð og trjákróna þeirra veitir gott skjól. Fyrir vikið er asparbeltum víða komið fyrir þar sem markmiðið er að verjast sterkum vindi. Segja má að þjóðarsamstaða ríki um kosti asparinnar í þessu skyni. En svo er það Njarðvík…
Njarðvíkingar trúa ekki á skjólbelti. Og almennt séð eru þeir skeptískir á tré. Þetta er harðgert fólk sem er vant því að hafa vindinn í fangið. Stormurinn er vinur þeirra og það ekki bara þegar kemur að því að blása burt stóriðjufnyk. – Það var sem sagt ekki logn á Njarðvíkurvelli í kvöld.
En þrátt fyrir vindinn voru aðstæður til fótboltaiðkunar ágætar. Veðrið var fallegt, heiðskírt og vinaleg kvöldsól. Völlurinn snöggsleginn (þessi fréttaritari ætlar sko ekki að stökkva á Arnars Gunnlaugssonarvagninn með því að ata vallarverði þessa lands auri, þeir eru salt jarðar!) Njarðvíkingar eru höfðingjar heim að sækja. Fréttaritarinn fékk ómælt kaffi og gat fóðrað sig og soninn, Valsarann, með úrvalshamborgurum þverhandarþykkum.
Byrjunarlið Fram var eins skipað og í Aftureldingarleiknum með þeirri undantekningu að Sigurður Þráinn kom inn fyrir Harald. Ólafur var í markinu, Matthías, Marcao, Sigurður Þráinn og Arnór Daði í vörninni, með Hlyn fyrir framan sig. Már, Tiago og Hilmar á miðjunni með Fred þar fyrir framan og Helga á toppnum.
Njarðvíkingar eru gott varnarlið sem treystir á skyndisóknir. Þeir lágu því langt til baka og leyfðu okkar mönnum að stjórna miðjunni. Sú leikaðferð gekk fullkomlega upp í fyrri hálfleik, þar sem Frömurum tókst illa að skapa sér færi úr opnum leik. Engu að síður mátti sjá marga góða spretti, þar sem Már og Fred voru oftar en ekki í aðalhlutverki. Segja má að Njarðvíkingar hafi farið næst því að skora í sínu eina færi undir blálokin.
Krókloppnir fingur vöknuðu aftur til lífsins í félagsheimili Njarðvíkinga í leikhléi og var fullum líkamshita náð um það leyti sem flautað var til seinni hálfleiks. Þar var allt við það sama. Framarar sóttu en heimamenn vörðust fimlega en tóku þó að þreytast þegar á leið.
Eftir rúmlega klukkutíma leik var ísinn loksins brotinn. Hlynur komst upp að vítateigshorni og sendi fyrir markið, boltinn flaug fram hjá öllum, hraut af Arnóri Daða og þaðan fyrir fæturnar á Helga sem skoraði auðveldlega. 0:1 og um það bil tuttugu Framarar í stúkunni kættust mjög.
Markið gerði það að verkum að heimamenn þruftu að færa sig framar á völlinn og komust í dauðafæri þegar fimmtán mínútur lifðu af leik. Fréttaritari fótbolta.net sá stangarskot en þeim er hér stýrir lyklaborði sýndist Marcao verja á línu. Þessi mismunandi upplifun skýrist væntanlega af rifu í Matrixinu eða að annar hvor fréttaritarinn eða báðir séu flón. Útilokum ekki síðastnefnda möguleikann.
Framarar héldu sínu það sem eftir leið leiks og Njarðvíkingar náðu ekki að ógna að þeinu marki. Jón þjálfari notaði allar skiptingarnar sínar. Már fór út af fyrir Alex, Fred fór af velli fyrir Magnús og í blálokin kom Jökull inná fyrir Helga.
Undir blálokin virtist dómarinn ætla að missa tökin á leiknum með því að láta pirringsleg hefndarbrot grænklæddra óátalin. (Hvað er annars málið með að láta lið í bláu og grænu spila saman – hví ekki að nota varabúninga?) Að lokum kom klukkan honum til bjargar og leiknum lauk 0:1. Gríðarlega góður sigur á erfiðum útivelli. Næsta tæpa sólarhringinn getum við Framarar skemmt okkur við að horfa á stigatöfluna. Grótta í næstu viku. Gaman verður að sjá hvernig hamborgarateyminu tekst að trompa Suðurnesjakrásirnar.
Stefán Pálsson