fbpx
FRAM Grótta vefur

Matlock á fimmtudagskvöldi

Árið 1962 tóku yfirvöld í Seoul ákvörðun sem átti eftir að reynast afdrifarík. Sett voru lög sem bönnuðu erlendum bílaframleiðendum að starfa í landinu nema þá í samvinnu við innlenda framleiðendur. Bílaiðnaðurinn í Suður-Kóreu var rétt að stíga sín fyrstu skref, en í ljósi þessarar verndar óx hann hröðum skrefum. Fyrirtæki sem haslað höfðu sér völl á öðrum sviðum tóku til við að framleiða bíla og nutu skjótt mikillar velgengni. Reiðhjólaverksmiðja nokkur varð fyrirtækið KIA og byggingarverktakafyrirtækið Hyundai  fór sömu leið.

Til hvers að rekja þessa sögu hér í pistli sem að nafninu til á að fjalla um viðureign Fram og Gróttu? Jú, tengingin er augljós: Fram og Grótta leika með auglýsingar fyrir KIA og Hyundai framan á vömbinni. Og sannast sagna er mun skemmtilegra að skrifa um iðnsögu Austur-Asíu en svekkelsið sem okkur var boðið upp á í kvöld.

Veðrið var yndislegt og andinn góður meðal áhorfenda í Safamýrinni í kvöld. Byrjunarliðið það sama og í Njarðvík: Ólafur í marki, Marcao og Sigurður Þráinn miðverðir, Matthías og Arnór Daði bakverðir, Hlynur aftastur á miðjunni með þá Hilmar, Tiago og Má fyrir framan sig og á köntunum. Fred og Helgi fremstir.

Eftir rétt tæpar fimm mínútur lá boltinn í neti Fram eftir hálfgert klafs. Markið var augljós rangstaða að sjá og dómarinn virtist alvarlega íhuga að taka fram fyrir hendurnar á aðstoðardómara sínum, sem var úti á þekju allan fyrri hálfleikinn, en markið fékk að standa, 0:1.

Framarar tóku miðju og varla voru liðnar meira en tuttugu sekúndur áður en Helgi átt bylmingsskot í slánna. Framarar blésu til sóknar en gestirnir lágu langt til baka og freistuðu þess að verja fenginn hlut.

Eftir fimmtán mínútna leik varð Hlynur fyrir hnjaski eftir skallaeinvígi, lenti illa á bakinu og lá eftir sárkvalinn. Hann reyndi að halda áfram en varð nánast strax að játa sig sigraðan. Jökull kom inná í bakvarðarstöðu, Arnór Daði færði sig í miðvörðinn og Sigurður tók stöðu Hlyns. Vonandi verður fyrirliðinn ekki lengi frá vegna þessara meiðsla.

Eftir þetta tóku Framarar jafnt og þétt öll völdin á miðjunni og voru duglegir að prjóna sér leið í gegnum Gróttuvörnina. Þar létu Már og Fred mest að sér kveða en Hilmar var einnig seigur. Framarar á áhorfendapöllunum voru býsna rólegir þegar hér var komið sögu, enda virtist mark eða mörk liggja í loftinu.

Það var Fred sem braut ísinn á 33. mínútu, þegar hann fékk boltann rétt fyrir utan vítateig, með bakið í markið og miðvarðapar Seltirninga andandi oní hálsmálið. Engu að síður tókst honum að snúa á punktinum og skjóta bylmingsskoti í markhornið, 1:1.

Tveimur mínútum síðar var staðan orðin 2:1. Gróttumenn leitast við að spila boltanum alltaf útfrá marki. Fred nýtti sér það þegar markvörður Gróttu var of lengi að ákveða hvert hann ætti að senda. Brasilíumaðurinn klóki kom aðvífandi með þeim afleiðingum að markvörðurinn skaut í hann, þaðan fór boltinn í þverslánna, þaðan sem Fred náði að skalla í tómt netið. Ekki virðulegasta mark sumarsins, en telur eins og hin.

Litlu mátti muna að Fred næði að fullkomna þrennuna á rúmum fimm mínútum þegar taugaveiklaður Gróttumarkvörðurinn var næstum búinn að missa knöttinn fyrir fætur hans örfáum augnablikum síðar. Það hefði orðið saga til næsta bæjar!

Yfirburðirnir héldu áfram og það sem eftir leið fyrri hálfleiks fengu Framarar þrjú góð marktækifæri. Már þó það sýnu besta en gott skot hans söng í stönginni. Gróttumenn minntu þó á sig með skyndisóknum og voru nærri búnir að jafna rétt áður en flautað var til leikhlés.

Eflaust hafa kátir Framarar skemmt sér vel í hléi og gúffað í sig dýrindishamborgara sem matráðar knattspyrnudeildar höfðu undirbúið í allan dag. Fréttaritarinn veit minnst um það, enda ákvað rellinn sonurinn að nóg væri komið af fótboltaglápi og heimtaði að vera skutlað til vina sinna að sparka í bolta. Reyndist hann ófáanlegur til að hlusta á þau rök föður síns að skynsamlegt væri fyrir ungan Valsara að horfa á sem flesta leiki í Inkasso-deildinni til að búa sig undir næstu leiktíð.

Seinni hálfleikur var nýbyrjaður þegar lafmóður fréttaritarinn sneri aftur úr bílferðinni og allt var við það sama. Eftir tæplega tíu mínútur af seinni hálfleik prjónaði Fred sig upp að endamörkum, sendi fyrir en á óskiljanlegan hátt mistókst Helga að pota boltanum í netið. Þetta var sannast sagna ekki dagurinn hans. Við aðrar kringumstæður hefði Helgi hæglega getað skorað fjögur mörk í kvöld.

Á 62. mínútu skallaði Helgi rétt framhjá eftir góða aukaspyrnu frá Fred og tveimur mínútum síðar átti Helgi sláarskot. Rétt í kjölfarið tók Marcao aukaspyrnu af löngu færi og þrumaði á markið þar sem Hákon markvörður Gróttu bætti fyrir fyrri mistök með því að slá knöttinn í slánna. Fjórða skot Framara á tréverkið í leiknum. (Fréttaritara er fullkunnugt um að markstangir eru ekki lengur framleiddar úr tré heldur einhvers konar málmblöndu eða áli. Það væri hins vegar mjög tilgerðarlegt að tala um álverkið í þessu samhengi og gegn almennri málvenju.)

Sú var tíðin að Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöldum þættina um Matlock lögmann í Atlanta í Georgíu. Þættirnir settu ný viðmið í endurvinnslu handrita, því í raun má segja að sama handrit hafi verið notað í hverjum einasta þætti: hrekklaus vinur eða ættingi lögmannsins er handtekinn saklaus fyrir morð, þar sem traust sönnunargögn virðast sýna fram á sekt hans. Hinn raunverulegi morðingi reynist vera önnur persóna úr þættinum, sem þekkist af önuglyndu fasi og því að hafa sýnt hinum spaugsama Matlock dónaskap. Óvænt tilviljun leiðir lausn glæpagátunnar í ljós og morðinginn er afhjúpaður í vitnastúkunni.

Fyrirsjáanleiki er hvimleiður í sjónvarpi og ekki síður í fótbolta. Hversu oft höfum við ekki séð þetta sama handrit raungerast á fótboltavellinum, þar sem lið 1 er marki yfir og veður í færum, en tekst ekki að klára leikinn með marki í viðbót og er fyrir vikið refsað í blálokin? Eftir því sem sláar- og stangarskotunum fjölgaði fór þessi nagandi ótti að grafa um sig.

„Það er skrifað í skýin að þetta endar 2:2“, sagði maðurinn fyrir aftan fréttaritarann sem neyddist til að kinka samþykkjandi kolli. Í sömu andrá gerðu Gróttumenn þrefalda skipingu og skömmu síðar fór Fred af velli fyrir Alex. Eflaust munu einhver setja spurningamerki við þá skiptingu í ljósi úrslitanna, þar sem Fred hafði verið besti maður vallarins – en á hitt ber að líta að það er undantekningarlaust mjög af honum dregið undir lok allra leikja og yfirleitt hverfur hann síðustu fimmtán mínúturnar.

En skiptingarnar virtust breyta jafnvæginu í leiknum. Þegar um sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma hefðu Gróttumenn hæglega getað fengið vítaspyrnu vegna hendi, en í staðinn fengu þeir horn og einhvern veginn náðu þeir að þvæla því inn. Aðstoðardómarinn lyfti flaggi sínu, en lét það falla strax aftur og markið stóð. Einhver mótmæli heyrðust frá varnarmönnum Framara, mögulega út af stimpingum í teignum, en líklega voru menn bara sjálfum sér reiðir fyrir að missa gjörunninn leik niður í jafntefli, 2:2.

Sigurður fór af velli fyrir Magnús og Framarar freistuðu þess að komast yfir á ný. Helgi komst í tvö færi með skömmu millibili, annað sannkallað dauðafæri en markvörðurinn varði vel. Hinu megin á vellinum átti Matthías frábæra tæklingu til að varna því að Grótta kæmist yfir. En það var nákvæmlega það sem gerðist í uppbótartímanum, þegar gamli Framarinn Axel Freyr Harðarson negldi í fjærhornið og stal öllum stigunum á Seltjarnarnesið. Hugmynd Jóns Gnarr um tollhliðið hljómar sífellt betur.

Gríðarleg vonbrigði og töpuð stig sem gætu reynst okkur dýrkeypt. En við þessu er ekkert að gera. Grótta á hrós skilið fyrir að spila vel úr sínum mannskap og þjálfarinn gerði greinilega breytingar á hárréttum tíma. Næsti leikur í Ólafsvík. Fréttaritarinn á enn eftir að kynna þá hugmynd á fjölskyldufundi að Neshreppur utan ennis verði heimsóttur um aðra helgi. Sjáum hvernig það fer.

Stefán Pálsson

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0