fbpx
Helgi gegn Gróttu vefur

Hálsrígur

Þann 2. júlí árið 1995 mættust Íslendingar og Færeyingar í vináttulandsleik. Íslendingar unnu 2:0 með mörkum Ólafs Þórðarsonar og Gunnars Oddssonar. Framarar áttu tvo menn í liðinu, þá Birki Kristinsson og Kristján Jónsson – og raunar þann þriðja ef varamarkvörðurinn Friðrik Friðriksson er talinn með. Þetta var fyrsti landsleikur Rúts Snorrasonar og Lárusar Orra Sigurðssonar, en landsleikjaferill þeirra átti eftir að verða mislangur.

Viðureignin fer einkum í sögubækur fyrir þá staðreynd að vera eini fótboltaleikurinn sem eiginkona fréttaritara Framsíðunnar hefur horft á á Íslandi. Þetta var nefnilega fyrsti og eini A-landsleikurinn í knattspyrnu sem spilaður hefur verið í blakbænum Neskaupstað og það var nánast borgaraleg skylda bæjarbúa að mæta.

Litlu mátti muna að 100% aukning hefði átt sér stað í dag. Fréttaritarinn náði að vela fjölskylduna í laugardagsbíltúr um Snæfellsnes, en þegar til Ólafsvíkur var komið kvöddu mæðgurnar – fóru á kaffihús til að skilja eftir peninga í raunhagkerfinu á meðan við feðgarnir skelltum okkur á völlinn.

Veðrið var frábært og reytingur af fólki, þótt Framarar á pöllunum væru varla nema svona tuttugu talsins – allt þó valmenni og ljúflingar. Vallarstæðið í Ólafsvík er eitthvað það skemmtilegasta á landinu. Nýlegt gervigras er komið á völlinn, með þeim ófyriréðu aukaafleiðingum að Víkingar eru hættir að vera landsins besta lið í fótbolta á parketi, sem er nokkur synd. Undirlagið átti raunar eftir að hafa talsverð áhrif á þróun leiksins, því vegna sterks sólskinsins var grasið skaufþurrt mestallan tímann og olli leikmönnum oft vandræðum.

Hlynur fór meiddur af velli í tapinu herfilega gegn Gróttu og var því þegar spáð að hann kynni að verða frá í nokkurn tíma. Það gekk eftir og kom Jökull inn í hans stöðu. Uppstillingin var að öðru leyti hin sama: Ólafur í markinu, Matthías, Marcao, Sigurður Þráinn og Arnór Daði í varnarlínunni. Jökull aftastur á miðjunni með Má, Hilmar og Tiago fyrir framan sig og til hliðanna. Helgi fremstur með Fred skammt þar fyrir aftan. Okkar besta lið um þessar mundir ef tekið er tillit til meiðsla.

Ólsarar eru ólíkindatól (nokkuð sem raunar má segja um flestöll lið Inkasso-deildarinnar í ár). Þeir leika stundum eins og besta lið deildarinnar, en geta líka dottið niður á milli. Víkingsliðið sem kom upp úr pokanum í dag reyndist svifaseina og smeyka útgáfan eftir tvo tapleiki í röð.

Bæði lið byrjuðu raunar af krafti og á fyrstu tíu mínútunum höfðu varnarmenn Fram í tvígang þurft að hreinsa af marklínu, en í millitíðinni náðu okkar menn að skora. Einn heimamanna var eitthvað að gaufa með boltann utan vítateigs, Már hirti hann og sendi inn í teiginn á Tiago sem virtist ætla að klúðra því að skjóta úr dauðafæri. Aðvífandi varnarmaður braut hins vegar á honum og víti dæmt. Helgi fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Heimamenn virtust slegnir út af laginu og Framarar reyndu að láta hné fylgja kviði. Á tuttugustu mínútu gafst dauðafæri til þess, þegar Fred lék sér að Víkingsvörninni, sólaði tvo mótherja inni í vítateig og rúllaði svo knettinum fyrir tómt markið þar sem Már stóð aleinn en skaut á óskiljanlegan hátt beint í stöngina. Enn er júnímánuður en brennsla sumarsins er líklega fundin.

Upp úr miðjum hálfleiknum var eins og Framliðið þokaðist sífellt aftar á völlinn og heimamenn náðu tökum á miðjunni. Hinni fámenni Framarahópur í stúkunni er eldri en tvævetur og vissi að þetta kynni ekki góðri lukku að stýra og eftir því sem tíminn leið fóru áhorfendur að líta æ oftar á vallarklukkuna. Meira um það síðar.

Á 35. mínútu virtist Fram ætla að fá makleg málagjöld fyrir skort á sókndirfsku. Víkingar sóttu en höfðu svo sem ekki skapað neina stórhættu, fyrr en leikmönnum Fram mistókst að hreinsa frá marki og Tiago, sem hefur átt margra betri leiki en í dag, ákvað að spreyta sig á varnarmennsku með því að klifra upp á bak eins andstæðingsins. Víti dæmt og bölsýnn fréttaritarinn skrifaði 1:1 í minnisbókina.

Nema hvað, Ólafur markvörður gerði sér lítið fyrir og varði vítið. Tveimur mínútum síðar bjargaði hann aftur vel og taugatrekktir Framarar vörpuðu öndinni léttar þegar flautað var til leikhlés og færi gafst til að endurskipuleggja spilið.

Jón Sveinsson nýtti hléið greinilega vel því að Framarar komu mun frískari til leiks í seinni hálfleik og voru í það minnsta nærri því að skapa sér eitt verulega gott færi þegar þurr völlurinn sveik Tiago í stungusendingu inn á Helga. Þjálfara og liðsstjórum Ólafsvíkur var ekki skemmt á þessum hluta leiksins og neyddist dómarinn til að raðspjalda bekkinn með þremur gulum kortum í einu. Geri aðrir betur.

Þegar tæpur hálftími var eftir, virtist sagan úr fyrri hálfleiknum endurtaka sig. Framarar bökkuðu um of án sérstaks tilefnis og sóknaraðgerðir urðu ómarkvissar, ekki hvað síst vegna þess hversu margar sendingar rötuðu aftur á bak og jafnvel alla leið til markvarðarins. Skömmu síðar var Hilmari skipt útaf fyrir Unnar, sem er blessunarlega að snúa aftur úr meiðslum.

Fáránleg uppákoma átti sér stað á 75. mínútu þegar dómari leiksins lyfti gula og því næst rauða spjaldinu á einn Víkinginn. Örskömmu síðar virtist dómarinn átta sig á að viðkomandi leikmaður hefði ekki fengið gula spjaldið fyrr í leiknum og var rauða spjaldið því látið niður falla. Í millitíðinni höfðum við hentistefnufólkið í stúkunni talað okkur upp í að um hárréttan úrskurð hefði verið að ræða og að dómarinn væri Salómon sinnar kynslóðar.

Tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma gafst annað gullið tækifæri til að auka muninn þegar Már sprengdi sér leið í gegnum Ólafsvíkurvörnina og sendi á Helga sem átti ágætt skot sem hafnaði í stönginni. Urðu Framstuðningsmenn nú ærið stressaðir, minnugir þess hvað liðinu hefndist fyrir öll sláar- og stangarskotin gegn Gróttu í síðasta leik. Tóku þeir nú að líta ótt og títt á vallarklukkuna.

Svo ber hins vegar við á Ólafsvíkurvelli að vallarklukkan hangir uppi á þeim hluta vallarins þar sem áhorfendurnir halda til. Þetta kann að líta mjög vel út í beinum sjónvarpsútsendingum en afleiðingin er sú að áherfendur á efri svölum sjá ekki klukkuna og við í neðri stúkunni ekki nema með því að líta um öxl. Að horfa á fótboltaleik undinn í hálfhring er erfitt fyrir sagnfræðinga og annað kyrrsetufólk – einkum ef það er búið að standa í stífri málningarvinnu á heimili sínu síðustu daga af kappi frekar en forsjá. Við hverja bolvindu jókst hálsrígurinn en helvítis klukkan hafði ekki þokast nema um fáeinar sekúndur.

En lengra komust Víkingar ekki og raunar voru Framararnir ívið nær því að bæta við en heimamenn að jafna. Helgi átti þokkalegt færi áður en hann skipti við Magnús á lokamínútunni og Fred átti fína tilraun sem var varin. Uppbótartíminn reyndist fimm mínútur og hefði ekki mátt mikið lengri vera. Tvöfalt lengri uppbótartími og þá hefði fréttaritarinn þurft að bakka alla leið til Reykjavíkur!

Frábær útivallarsigur og rétt að halda því til haga að þetta var í annað sinn í sumar sem við sóttum sigur á þennan fallega völl, því Úlfarnir slógu Ólsara vitaskuld úr bikarnum á þessum velli fyrr á árinu. Stöðutaflan lítur ágætlega út og næsti leikur er á móti Þrótti. Þá verður fréttaritarinn hins vegar fastur á strákafótboltamóti í Eyjum og mun sömuleiðis missa af Þórsleiknum nyrðra og heimaleiknum gegn Leikni vegna sumarfría. Að maður hafi ekki verið rekinn úr þessu djobbi fyrir lifandis löngu er með öllu óskiljanlegt.

Stefán Pálsson

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!