fbpx
Haukar - FRAM vefur

Undir ljósboganum

Þann 26. apríl árið 1986 varð slys í kjarnakljúfi fjögur í Chernobyl-orkuverinu nærri úkraínsku borginni Pripyat. Þetta var eitt versta kjarnorkuslys sögunnar, þótt sérfræðingum beri ekki saman um hversu mörg dauðsföll rekja megi til atburðanna. Frá þessu segir í vinsællir sjónvarpsþáttaröð sem annar hver maður er að glápa á um þessar mundir.

Eitt af því sem gerir Chernobyl-þættina svo magnaða er lágstemmd hljóðmyndin, sem notast að miklu leyti við hljóðupptökur úr orkuverum. Einfaldir smellir sírita eða geislamæla skapa þrúgandi andrúmsloft. Ógnvaldurinn í sögunni, sprunginn kjarnakljúfurinn, er svo þögull en banvænn. Hættan er ósýnileg en alltumlykjandi. Inn á milli birtast svo á skjánum nær alvitrir kjarneðlisfræðingar sem slá um sig með tölfræði um helmingunartíma, mæligildi á Röntgenskala og lífslíkur þess sem verður fyrir geislun í fáeinar mínútur.

Það var ekki ósvipuð tilfinning að ganga leiðina löngu frá bílastæði Íþróttafélagsins Hauka og að fótboltavellinum. Að baki lá álverið þögult en ögrandi með óvirkan kerskála eftir að ljósbogi myndaðist í bræðslukeri. Sögur segja að súrálinu hafi verið um að kenna. Upplýsingafulltrúinn er flúinn, en á öðrum degi kom Rannveig Rist og lýsti því yfir að ekki hefði komið til greina að fórna lífi verkamannanna í verinu. Hún hefði ekki enst lengi í Chernobyl.

Ljósbogar eru magnað fyrirbæri og efnafræðiundur. Áhrif ljósbogans í kerskála númer fjögur (ég veit reyndar ekkert hvort kerskálinn var númer fjögur, það rammar bara frásögnina betur inn) eru mikil og augljós. Það var nánast skaplegt veður á Ásvöllum í kvöld. Auðvitað ekki hlýtt, en ekki manndrápskuldi. Engar úlpur hnepptar upp í háls. Engir sultardropar á nefi. Engar örvæntingarfullar tilraunir til að kaupa sér örlítinn yl með kaffinu í sjoppunni. Nei, bara venjulegur íslenskur fótboltaleikur með mannlegri reisn.

En þótt veðuraðstæðurnar væru afbrigðilegar, var allt annað eins. Timburstúkan sem hefði sómað sér vel í Úkraínu árið 1986, var á sínum stað bara örlítið fúnari. Plaststólarnir örlítið trosnaðri en síðast og talsvert upplitaðri. Það eru ekki bara tennur fólksins sem hvítna undan flúornum frá Rio Tinto. Með tímanum verður allt hvítt og matt.

Og úrslitin voru eins og alltaf. Fréttaritari Framsíðunnar nennir ekki að slá því upp í Íslenskri knattspyrnu hvernig úrslitin hjá okkur hafa verið að Ásvöllum síðustu árin. Það er óþarfi. Við töpum eiginlega alltaf. Erum yfirleitt betri aðilinn en töpum samt. Og oftar en ekki seint.

Meiðsli og vond frammistaða í síðasta leik setti Jón þjálfara í þá stöðu að þurfa að hræra talsvert í leikskipulaginu. Fred, sem undir venjulegum kringumstæðum er fyrsti maður í byrjunarlið varð fyrir hnjaski á móti Keflavík og byrjaði á bekknum.

Hlynur stóð í markinu með Marcao og Gunnar fyrir framan sig. Haraldur og Matthías hófu leik í bakvarðastöðunum, en fljótlega skipti Matthías við Heiðar Geir sem byrjaði á miðjunni. Unnar Steinn fyrir framan vörnina, Tiago á miðsvæðinu, Alex og Magnús á köntunum og Helgi frammi. Þessi leikskipulagsgreining er sett fram með þeim fyrirvara að fréttaritarinn var lafmóður eftir maraþongönguna og lafhræddur vegna kurrandi hláturs ljósbogans í fjarskanum.

Haukar fengu fyrsta færið í leiknum eftir fát í Framvörninni. Ekki fyrsta slíka uppákoman í sumar og ekki sú síðasta í þessum leik. En eftir taugaveiklaða byrjun tókst Frömurum fljótlega að ná völdum á miðjunni. Tiago var þar í lykilhlutverki, en saknaði hins portúgalska félaga síns og vantaði meiri stuðning.

Ef frá eru talin nokkur hálffæri bar lítið til tíðinda fyrr en á 27. mínútu þegar varnarmaður Hauka átti sjálfsmark ársins. Góð sókn Framara virtist ætla að fjara út þegar Magnús lyfti boltanum inn í miðjan teig, þar sem enginn annar var staddur en einn rauðklæddur sem ákvað að stanga boltann í bláhornið. Fallegra sjálfsmark hefur Knattspyrnufélagið Fram ekki fengið gefins frá því að Sigurvin Ólafsson negldi upp í samskeytin í Eyjum fyrir margt löngu.

Framarar á pöllunum voru enn að slá sér á lær yfir markinu þegar Gunnar jafnaði metin hinu megin á vellinum, þar sem hornspyrna hrökk af mjöðminni á honum og í markhornið. Það er verulegt áhyggjuefni að allar hornspyrnur og jafnvel bara innköst upp við hornfána valda uppnámi í vörn okkar.

Það sem eftir leið hálfleiks héldu Framarar boltanum ágætlega, spiluðu þokkalega saman en ógnuðu lítið.

Á meðan hljóðrásin í Chernobyl er lágvær og þunglyndisleg, er boðið upp á gangsterarapp á Haukavellinum. Engum þótti ljóðin góð.

Jón Sveinsson ákvað að hrista upp í leiknum og hóf seinni hálfleik á tvöfaldri skiptingu. Haraldur og Matthías fóru af velli en Sigurður Þráinn og Jökull komu inná. Í leiðinni var skipt yfir í þriggja manna vörn. Sú túlkun er þó sett fram með þeim fyrirvara að fréttaritarinn var illilega rappskaddaður eftir leikhléið. Það er líka erfitt að einbeita sér í miðju flúorskýi.

Skiptingin reyndist bráðsnjöll, því Jökull kom inn í leikinn eins og stormsveipur. Hann réðst ítrekað á Haukavörnina og sýndi þá aðgangshörku og ákefð sem flesta liðsfélaganna skorti nokkuð uppá. Eftir fimm mínútna leik lá boltinn í netinu eftir snotra afgreiðslu Helga og frábæran undirbúning Jökuls, en búið var að flagga rangstöðu. Tæpt hefur það verið.

Skömmu síðar lagði Helgi vel upp fyrir Tiago sem skaut framhjá úr dauðafæri. Á þessum leikkafla átti Helgi líka bylmingsskot yfir markið. Heimamenn fengu þó sín færi og þurfti Hlynur í tvígang að taka á honum stóra sínum til að verjast skotum þeirra. Hann kom hins vegar engum vörnum við á sextugustu mínútu þegar Haukar komust nokkuð óvænt yfir. Minna óvænt var þó að markið kom úr horni. Fréttaritari hefur ákveðnar hugmyndir um hvað mætti taka fyrir á næstu æfingu…

Eftir markið missti dómarinn öll tök á leiknum. Hvers kyns bakhrindingar voru látnar óátaldar og lítið samræmi sjáanlegt. Steininn tók úr þegar Jökull var jarðaður í vítateignum og uppskar gult spjald að launum.

Það sem eftir leið leiks héldu Framarar áfram að sækja. Heiðar Geir og Tiago áttu báðir bylmingsskot rétt yfir. Fred kom inn á fyrir Heiðar Geir síðustu tíu mínúturnar og hefði átt að jafna metin í uppbótartíma, en enn og aftur fór boltinn yfir.

Þriðja tapið í röð og öll toppbarátta er endanlega úr sögunni. Góðu fréttirnar eru þó þær að Framliðið og stór stuðningsmannasveit horfðist í augu við ljósbogann og komst lifandi frá því. Magni á miðvikudaginn kemur klukkan sex. Nú hlýtur þetta að fara að smella!

Stefán Pálsson

 

 

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!