fbpx
Helgi gegn Magna vefur

Ping-pong

Stundum gerist það að einstök sveitarfélög taka ástfóstri við íþróttagreinar. Frægt dæmi er badminton, sem íbúar Stykkishólms kunnu öllum öðrum betur um miðja síðustu öld. Stykkishólmur var vagga badmintonþróttarinnar og efnt var til kappleikja milli Reykjavíkur og Stykkishólms sem vöktu þjóðarathygli.

Miklu síðar tók fólkið í Neskaupstað blakið upp á arma sína. Norðfirðingar hömpuðu Íslandsmeistaratitlum og brottfluttir Nobbarar báru uppi kapplið á suðvesturhorninu í blakíþróttinni. Og svo var það Grenivík.

Grenvíkingar urðu um skamma hríð á níunda áratugnum mekka borðtennis á Íslandi. Annar hver Grenvíkingur hefur keppt í borðtennis fyrir Íslandshönd í unglingalandsliðum. Grenivík er borðtennishöfuðborg Íslands og það er ekki haldlaust geip.

Framarar mættu borðtennisprinsunum í KR-búningunum í Safamýri í kvöld í blíðviðri. Hamborgaragrillið var skrúfað í botn og Framara dreif að í hrönnum, þrátt fyrir að fréttaritari Framsíðunnar hafi formlega afskrifað alla toppbaráttu og lýst yfir dýrðlegu miðjumoði eftir síðasta leik. Grenvíkingar voru nokkrir í stúkunni og þekktust á þykkum norðlenskum hreim.

Nokkrar breytingar voru á Framliðinu. Brasilíska tröllið Marcao tók út leikbann og þeir Magnús og Matthías settust á bekkinn. Hlynur stóð á milli stanganna og miðvarðaparið var skipað þeim Gunnari og nýja manninum, Stefáni Ragnari, sem áður var í herbúðum Selfoss. Saman mynduðu þeir harðsnúið og öflugt tvíeyki og því alls óljóst hvernig Jón þjálfari stillir upp vörninni næst. Bakverðirnir voru þeir Haraldur og Jökull, sem fór á kostum í Hafnarfirði í síðasta leik. Heiðar Geir og Unnar lágu aftarlega á miðjunni með Tiago og Fred þar fyrir framan, Alex úti á kannti og Helga á toppnum.

Magnaliðið lék Fram grátt í síðasta leik og hefði hæglega getað hirt öll stigin fyrir norðan. Það var því ekki neitt vanmat í boði.

Leikurinn var aðeins tveggja mínútna gamall þegar fyrsta færið leit dagsins ljós. Fred skaut yfir eftir ágæta sókn. Mínútu síðar söng boltinn í slá Frammarksins, en búið var að flagga rangstöðu. Það reyndist síðasta alvöru færi gestanna næstu 85 mínúturnar…

Fram tók öll völdin á miðjunni, sem hentaði gestunum ekki illa. Þeir lágu langt til baka eins og velflest lið gera raunar á móti Fram um þessar mundir. Framarar reyndu sitt besta til að koma sér í færi, en sóttu ekki nægilega hratt eða ákveðið. Eftir nokkur hálffæri koms Helgi í dauðafæri eftir rúmar 20 mínútur en skaut framhjá þar sem auðveldara virtist að setja boltann í netið. Á næstu fimm mínútum var Helgi flaggaður rangstæður í dauðafæri (virtist tæpt), Fred tók misheppnaða hjólhestaspyrnu að marki og Tiago klúðraði því að sækja augljóst víti með því að standa af sér tæklingu og reyna að markskot.

Áður en flautað var til leikhlés náðu Framarar að klúðra fáeinum hálffærum og einu dauðafæri þar sem Alex slapp einn í gegn ásamt Helga, en náði hvorki almennilegu skoti né sendingu á félaga sinn. Markalaust í hálfleik en yfirburðir Framara algjörir.

Fyrst eftir hlé virtust mál ætla að þróast með sama hætti. Fred skaut rétt yfir Magnamarkið úr góðu færi og skömmu síðar komst Alex einn á móti markverði, en lét verja hjá sér úr dauðafæri. Fóru nú tvær grímur að renna á suma áhorfendur sem hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar séð liðum refsað fyrir að sólunda slíkum færum.

En á 54. mínútu var ísinn loksins brotinn. Tiago náði glæsilegri sending inn fyrir Magnavörnina þar sem Fred stakk alla af og skoraði af öryggi. Framarar létu hné fylgja kviði og hver sóknin fylgdi annarri. Fimm mínútum síðar var munurinn orðinn tvö mörk. Magnamenn brutu á Helga en ágætur dómari leiksins leyfði Framsókninni að klárast þar sem Jökull og Alex hefðu hæglega átt að geta skorað. Helgi tók sjálfur aukaspyrnuna, rétt fyrir utan vítateig, skaut í markmannshornið og í netið. Flott afgreiðsla en markvörður Magnamanna leit ekki vel út í þessu atviki.

Tiago og Jökull voru báðir nærri því að auka muninn enn frekar áður en Alex breytti stöðunni í 3:0 á 71. mín. Eftir góðan undirbúning Tiago og Helga. Strax í kjölfarið gerði Jón Sveinsson sína fyrstu breytingu þegar Hilmar og Már komu inn á fyrir Alex og Heiðar Geir. Ástæða er til að hrósa þeim síðarnefnda, því þótt Heiðar Geir sé ekki unglambið í hópnum og varla 90 mínútna maður, þá er reynsla hans gríðarlega dýrmæt og skapar meiri ró í spilamennskunni í vörninni.

Á 77. mínútu skoraði Fram enn og aftur. Jökull spólaði sig upp að endamörkum, sendi fyrr og Helgi afgreiddi boltann af öryggi. Glæsimark og nákvæmlega það sem við viljum sjá. Framliðið er best þegar okkur tekst að nota hraðann upp kantana með mönnum eins og Má, Jökli o.fl. Mínútu síðar kom Orri inná fyrir Tiago.

Annað marktækifæri Magna í leiknum leit dagsins ljós á 86. mínútu, sem segir sitt um góða frammistöðu varnarmanna Fram. Sparkvitrir menn tveimur sætaröðum fyrir ofan fréttaritarann vildu jafnvel útnefna Harald bakvörð mann leiksins! Hann bar amk enga ábyrgð á því þegar Magni fékk ódýrt víti á 88. mínútu og minnkaði muninn í 4:1.

Frábær sigur og nú er gaman í Sambamýri eins og Kristján hinn kankvísi Ísfirðingur kýs að kalla heimavöll okkar um þessar mundir. Næst er sjálfur slagurinn um Úlfarsfellið við okkar verðandi nágranna í Aftureldingu. Fréttaritari Framsíðunnar verður illu heilli fjarri góðu gamni á fótboltamóti á Sauðárkróki, en vonandi verður bein útsending á Fram Tv.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!