Í kvöld heldur meistaraflokkur kvenna Fram í æfingaferð út fyrir landsteinana. Í þetta sinn skal haldið í víking til Póllands. Áfangastaðurinn er Mielno sem er á norðurströnd Póllands. Ferðalagið gæti verið meira spennandi en flogið verður til Gdansk og lent þar um kl. 2 að pólskum tíma aðfararnótt miðvikudags. Þá tekur við akstur í 3 – 4 klukkustundir næstu nótt og komið á áfangastað undir morgun á miðvikudegi.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem tekist hefur að afla um þennan bæ, Mielno, þá er þetta bær með um það bil 3.000 íbúum. Þetta mun vera strandbær sem er vinsæll hjá heimamönnum til að fara í frí og komast á ströndina.
Þarna mun meistaraflokkurinn dveljast fram á laugardag þegar haldið verður heim á leið aftur.
Stefán þjálfari hefur sett upp stífa dagskrá þessa daga og verður æft og spilaðir æfingaleikir alla daganna ef áætlunin gengur eftir.
Leikið verður við tvö pólsk lið, sem heita Energa Koszalin og Szczecin, sem ekki er vitað mikið um. En síðan verður einnig leikið við norska liðið Tertnes. Fram lék einmitt við Tertnes í EHF Cup veturinn 2012 – 2013, en þá hafði Tertnes betur.
Eftir að liðið hætti að taka þátt í evrópukeppnum fyrir nokkrum árum, þar sem kostnaðinn við slíka þátttöku var orðin svo mikill, þá hefur meistaraflokkurinn farið undanfarin ár í vel heppnaðar æfingaferðir á haustin, tvisvar til Tékklands og einu sinni til Noregs.
Þó að kostnaðurinn sé mikill við slíka æfingaferð þá er hann þó þannig að hann liggur fyrir þegar ferðin er skipulögð og ákveðin. Kostnaður vegna þátttöku í evrópukeppnum er hins vegar happdrætti sem mjög erfitt getur verið að fjármagna ef þú ert óheppin með mótherja og eins ef liðið tekur upp á því að komast eitthvað áfram í slíkri keppni.
Reynt verður að upplýsa um gang mála í þessari ferð á síðum Fram.
Áfram FRAM