fbpx
markao gegn þrótti vefur

Stundvísi

Árið 1986 lék breski leikarinn John Cleese skólastjórann Brian Stimpson, einstakan reglumann sem fyrir röð óheppilegra tilviljanna lendir í endalausum vandræðum við að komast á réttum tíma milli tveggja staða. Á einum tímapunkti, eftir örvæntingarfullan eltingarleik við hópferðabifreið hnígur persóna Cleese til jarðar og segir við Lauru, samferðakonu sína: „Það er ekki örvæntingin sem bugar mig. Ég þoli örvæntinguna. En það er vonin sem drepur mann.“

Sannari orð hafa aldrei verið sögð. Af öllu því sem plagað getur fótboltaáhugamann er vonin verst.

Fyrir tæpri viku slökktu Mosfellingar vonarneistann um úrvalsdeildarsæti Fram að ári. Fréttaritari Framsíðunnar var fastur norður í landi á fótboltamóti barna í kulda og vosbúð og missti því af leiknum Það var víst heillaspor. Vonin er farin og örvæntingin er ein eftir. Það er ekkert vandamál. Við höndlum örvæntinguna vel.

Jón Sveinsson bauð upp á kunnuglegt byrjunarlið. Hlynur í markinu með Gunnar og Marcao í miðvörðunum. Haraldur og Jökull í bakvarðastöðunum. Unnar aftastur á miðjunni, Hilmar, Alex, Tiago og Fred á miðjunni og köntunum og Helgi á toppnum.

Enn eina ferðina ákvað dómari leiksins að blár og grænn væru ólíkir og aðskiljanlegir litir, svo í stað þess að reka annað liðið í varabúning máttu snemmmiðaldra fréttaritarar píra augun í allan tímann. Aðspurður sagðist Gylfi Orrason hafa reynt að sannfæra stjórnendur KSÍ um þessi einföldu sannindi frá 1970 án árangurs. Illa farið með góðan dreng.

Framarar komu ákveðnir til leiks og á fyrsta stundarfjórðungnum fengum við 3-4 þokkaleg færi, sem Njarðvíkurvörnin átti þó ekki í teljandi vandræðum með. Þessi fjörlega byrjun var þó ekki vísbending um það sem koma skyldi. Njarðvíkingar lágu langt til baka og biðu eftir að fá skyndisóknir, en Framarar héldu boltanum vel innan sinna raða en ógnuðu lítið.

Eins og stundum fyrr í sumar freistuðust leikmenn Fram til að fara með allt spil í gegnum Tiago beint fyrir framan vörn andstæðinganna. Þótt Portúgalinn sé flinkur með knöttinn er hann ekki góður í að koma honum hratt frá sér og nær allir sóknartilburðir Framara urðu fyrir vikið beint í gegnum miðja og þétta vörn gestanna.

Það segir sína sögu um gang mála fyrir hlé að Framarar héldu boltanum mestallan tímann en Njarðvíkingar áttu tvö hættulegustu færin. Í annað skiptið endaði boltinn meira að segja í Frammarkinu, en búið var að flagga rangstöðu.

Framarar voru nokkuð léttir í leikhléi þrátt fyrir markaleysið. Hamborgararnir voru sem fyrr í landsliðsflokki, enda framreiddir með kálblöndu og rauðlauk. Innvígðir vita að rauðlaukur er alltaf betri en venjulegur laukur. Hamborgarasósan frá Kjöthöllinni er svo punkturinn yfir i-ið. Ójá.

Seinni hálfleikur var nýhafinn þegar fréttaritari Framsíðunnar hafði sig loksins út á völl, enda dúnmjúkir hægindastólarnir freistandi. Fyrsta kortérið kaus undirritaður að standa við miðlínuna umkringdur hlutlausum áhorfendum og stöku Framara sem höndlaði ekki að sitja innan um okkar fólk á pöllunum. Dómur þeirra hlutlausu var á einn veg: að Framarar væru miklu betri en bitlitlir og að skynsamir Njarðvíkingar væru fantagóðir í að verjast.

Þegar leið á seinni hálfleikinn lifnaði verulega yfir Alex á kantinum sem tók að sækja kröftuglega á Suðurnesjaliðið sem lenti í stöðugum vandræðum með að verjast. Alex lagði upp 3-4 hálffæri og fórnaði sér loks í glæsilega tæklingu í vörninni á 65. mínútu sem varð til þess að hann þurfti að fara af velli fyrir Má.

Framarar héldu áfram að sækja, en þó með hálfgerðum göngubolta upp miðjan völlinn sem ógnaði ekki neitt af viti. Njarðvíkurvörnin hélt vel og virtist líkleg til að halda allt til loka.

Um það leyti sem fréttaritari Framsíðunnar var að komast að þeirri niðurstöðu að markalaust jafntefli yrði niðurstaðan og Framarar yrðu að láta sér nægja eitt stig gegn botnliðinu á heimavelli gekk lukkan óvænt í lið með heimamönnum. Afmælisbarnið Fred, sem hafði lítið náð að ógna Njarðvíkurvörninni, stóð óvaldaður í miðjum vítateignum þegar óheppinn suðurnesjabúi reyndi að hreinsa boltann frá á 77. mínútu, en sendi beint á Fred sem átti ekki í vandræðum með að skjóta í bláhornið, 1:0 og allir góðir menn vörpuðu öndinni léttar.

Strax í kjölfar marksins breytti Jón til og tók Hilmar af velli en setti Magnús inn í hans stað. Við tók erfiður kafli þar sem Njarðvíkingar drógu sig framar á völlinn og eins og venjulega lenti allt í voða í hvert sinn sem andstæðingarnir fengu hornspyrnu eða bara innkast uppi við endamörk.

Í uppbótartíma kom Stefán Ragnar inná fyrir Jökul, sem segja má að hafi verið maður leiksins. Sívinnandi og alltaf að atast í boltanum. Ekki ber þó að líta á þessi hrósyrði sem viðurkenningu á því skelfilega mulleti sem okkar maður skartar um þessar mundir. Hvílíkir timer, hvílíkir siðir!

Augnabliks andvaraleysi var næstum búið að leiða til jöfnunarmarks Njarðvíkur, en þegar komið var vel inn í uppbótartíma og allt Njarðvíkurliðið var farið að taka þátt í sóknaraðgerðum sköpuðust fri til skyndisókna. Tiago vann knöttinn aftast á vellinum, lék honum fram á við og sendi að lokum á Helga sem bætti við markareikninginn og tryggði 2:0 sigur.

Vonin er löngu liðin. Örvæntingin ein er eftir, en hvaða fábjáni sem er getur dílað við smá örvæntingu. Næsti áfangi verður Seltjarnarnes þar sem við ætlum endanlega að fokka upp öllum úrvalsdeildardraumum Gróttumanna.

Stefán Pálsson

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!