fbpx
Fred I

Árstíðir


Ítalska barrok-tónskáldið og fiðluhetjan Antonio Lucio Vivaldi er almennt álitinn einn af fremstu listamönnum sautjándu aldar, þótt örlög hans hafi orðið þau að deyja í sárri fátækt í Vínarborg. Langfrægasta verk Vivaldis eru nokkrir fiðlukonsertar sem saman eru þekktir undir heitinu Árstíðirnar eða Árstíðirnar fjórar.

Fótboltavöllur Íþróttafélagsins Gróttu nefnist Vivaldi-völlurinn. Það er kaldhæðnisleg nafngift í ljósi þess að á Gróttuvellinum er bara ein árstíð. Haust. Endalaust haust. Og ekki rómantíska milda haustið þegar maður upplifir fallega liti og getur hafst við utandyra með því að hneppa upp pólóbolnum, heldur andstyggilega haustið. Þetta sem nístir og er grátt.

Að því sögðu var veðrið fínt á Vivaldi-vellinum í kvöld. Tiltölulega milt og ekki nema lítilsháttar úði sem engan truflaði, nema helst fréttaritara Framsíðunnar sem þurfti leiftursnöggt að stinga minnisblokk sinni aftur oní vasa í hvert sinn sem búið var að hripa niður athugasemd. Klaufar hefðu endað með blautar og ólæsilegar blekklessur á velktu bókfellinu, en fréttaritarinn er skjótur eins og Lukku-Láki að draga. – Nei, það var ekkert að veðrinu. Haustið var í fótboltanum. Í úrslitunum. Í sálartetrinu.

Ein breyting var gerð frá síðasta leik. Már kom inn í liðið fyrir Alex sem fékk ljóta byltu og náði ekki að ljúka leik síðast. Byrjunarliðið var því á þá leið að Hlynur stóð í markinu. Marcao og Gunnar voru miðverðir og Jökull og Haraldur bakverðir. Unnar aftastur á miðjunni með Hilmar, Tiago, Fred og Má fyrir framan sig og á köntunum og Helga fremstan.

Fréttaritarinn mætti seint á svæðið, þar sem hinn trúfasti fylgisveinn Valur Norðri var með seinni skipunum. Að sjálfsögðu var tvímennt í bílinn til að minnka sótspor ferðarinnar. Þrátt fyrir allt viljum við nú ekki að Seltjarnarnes sökkvi í sæ vegna hamfarahlýnunar. Fylgisveinninn var frekar framlágur enda búinn að láta plata sig í að hlaupa hálfmaraþon í fyrramálið. Meiri vitleysan sem fólk lætur plata sig útí! (Annars er Reykjavíkurmaraþonið ekki það versta í þessum bransa – mér skilst að það styttist ár frá ári.)

Vallarklukkan sýndi sjö mínútur þegar búið var að finna bílastæði og greiða aðgangseyrinn. Stundvísari Framarar upplýstu að heimamenn hefðu átt eina færi leiksins og skotið í slá.

Fyrsti hluti leiksins einkenndist af hröðu spili vallarhelminga á milli þar sem bæði lið voru dugleg að vinna knöttinn en tapa honum jafnharðan. Eftir um tuttugu mínútna leik hneig Hlynur markvörður niður og þurfti aðhlynningu. Rafal fór þegar að hita upp og útlitið virtist heldur dökkt með framhaldið hjá okkar manni, sem stakk við. Hann var ennþá draghaltur þegar leikur hófst á ný og tveimur mínútum síðar lá boltinn í framnetinu eftir enn eina hornspyrnuna. Knötturinn hraut fyrir fætur eins Gróttumannsins sem hafði allan tímann í heiminum til að þruma í netið og óljóst hvort nokkuð hefði verið við þessu að gera þótt Hlynur hefði verið heill.

Þremur mínútum síðar átti Hlynur skalla sumarsins þegar hann stökk út fyrir eigin vítateig og skallaði glæsilega frá marki, láréttur í loftinu. Höfðu menn á orði í leikhléi að þessir tilburðir hefðu helst minnt á fræga vörslu Kólumbíumannsins Rene Higuita í leik gegn Englendingum þegar völvan var ung og sæt. Sporðdrekaspark fátæka mannsins, höfðu menn jafnvel að orði. (Menn í þessu sambandi vísar augljóslega bara til fréttaritarans sjálfs. Góð líking samt.)

Framarar náðu völdum á miðjunni þegar um halftími var liðinn og tóku að skapa sér færi með vaxandi þunga. Eftir um 35. mínútur fékk Fred aukaspyrnu rétt við vítateigshornið. Hann skaut hátt og boltinn virtist stefna á turn Stjörnuskoðunarfélagsins, en náði þó fyrst að snerta varnarvegg Gróttumanna. Augljóst virtist að þar hefði verið um upprétta hönd eins Seltirningsins að ræða. Dómarinn ákvað hins vegar að dæma hornspyrnu en ekki víti, sem hefði mögulega verið rökrétt ef Gróttumaðurinn væri þriggja metra hár… Ekki þar fyrir að hálft Gróttuliðið virðist vel á þriðja metra – og hefur allt fengið lýsi að borða heima hjá sér. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að höfundur þessa pistils var nemandi í Hagaskóla. Þá voru Seltirningar upp til hópa litlir, ljótir og væskilslegir.

Markvörður Seltirninga (líka stór og tekur lýsi) varði glæsilega skot Framara í kjölfar hornspyrnunnar. Sóknarþunginn virtist aukast í sífellu. En Gróttumenn áttu sín færi líka og beittu grimmt skyndisóknum. Í einni slíkri ákvað Marcao að renna sér hægt og rólega fyrir fætur aðvífandi Seltirnings sem þáði gott boð og hnaut um brasilíska tröllið. Víti og útlitið dökkt. Blessunarlega skaut vítaskytta heimamanna framhjá. Fátt er vandræðalegra en að skjóta framhjá í vítaspyrnu. Það vitum við sem munum eftir stórmyndinni Foxtrott. Mögulega meira um hana í seinni pistlum.

Áður en flautar var til leiksloka mátti litlu muna að Marcao tækist að kvitta fyrir mistökin í vítinu með góðum skalla, en hann fór yfir Gróttumarkið.

Stuðningsmenn Fram voru nokkuð brattir í hléi þrátt fyrir plötusnúður vallarins kysi að kvelja mannskapinn með Rammstein-lögum. Ef til vill var þýska fasistaþungarokkið sem leiddi til hugrenningatengsla. Þegar vel er að gáð reynist Gróttumerkið nefnilega vera mjög sérkennileg blanda af fasískum fálka að ofan en klósettbursta að neðan. Þið munið aldrei aftur geta horft á Gróttumerkið án þess að sjá fyrir ykkur þetta mikilvæga heimilisamboð.

Bæði lið byrjuðu seinni hálfleik að krafti. Grótta átti góðan skalla rétt yfir mark  Framara og fáeinum sekúndum síðar átti Hilmar skot upp úr engu sem small í markstöng Gróttu. Framarar hertu tökin þegar leið á hálfleikinn og áttu fleiri og betri sóknir. Eftir um klukkutíma leik ákvað Gróttumarkvörðurinn að taka upp sending frá samherja. Hann og félagar hans upplifðu gríðarlegt réttarmorð þegar hikandi dómarinn ákvað að lokum að dæma óbeina aukaspyrnu eins og reglur kveða á um. Aukaspyrnan söng að lokum í varnarveggnum sem fékk að standa alltof nærri og hefði auðveldlega mátt dæma hendi. Þessi atvik hleyptu illu blóði í leikmenn beggja liða og harkan í leiknum fór vaxandi. Birtingarmyndirnar voru þó ólíkar: Framarar brutu af sér og uppskáru gul spjöld en Gróttumenn boluðust og tudduðust, en þó sjaldnast svo mikið að það uppskæri áminningar.

Helgi fór af velli fyrir Alex á 64. mínútu og hressti það nokkuð upp á sóknarleikinn. Strax í sinni fyrstu snertingu var Alex nærri búinn að taka þátt í marki ársins, þegar hann átti hörkusendingu yfir á Jökul sem náði boltanum uppi við endamörk og sendi beint fyrir markið þar sem Fred kom fljúgandi, sneiddi boltann á lofti en rétt framhjá. – Jöfnunarmarkið virtist óumflýjanlegt!

„Við hljótum að jafna þetta!“, sagði fábjáninn sem á að heita fréttaritari Framsíðunnar. Herra Jinx lét aftur til skarar skríða, því mínútu síðar lá boltinn á ný í netinu hjá Fram. Einbeitingaleysi Framvarnarinnar gaf Gróttu mark upp úr engu og algjörlega gegn gangi leiksins.

Framarar héldu áfram að sækja og á 72. mínútu komst Alex í dauðafæri, en skaut beint á Gróttumarkmanninn. Spurning hvort lýsisremman hafi tekið hann úr jafnvægi? Fimm mínútum síðar var Már tekinn niður í vítateignum. Dómarinn virtist ekkert ætla að dæma, en hefur væntanlega fengið bendingu frá aðstoðardómara sínum – víti og allt í einu var þetta orðið leikur á ný! Fred skoraði úr vítinu með bylmingsskoti, 2:1, þótt markvörður andstæðinganna hefði sjö fingur á knettinum.

En Adam var ekki lengi í paradís. Fáeinum sekúndum eftir markið var munurinn orðinn tvö mörk á ný. Klaufaskapur hjá Unnari og fát hjá öðrum í vörninni gáfu heimamönnum einfalt mark, staðan orðin 3:1 og Framarar aftur á byrjunarreit.

Fari svo að Íþróttafélaginu Gróttu takist í haust að fara upp í aspartam ropvatnsdeildina er það algjört lágmark að Seltirningar sendi blóma- og ostakörfu í Safamýri fyrir veitta aðstoð. Í sumar hafa þeir fengið sex stig úr leikjunum tveimur með markatöluna 6:3, þrátt fyrir að Framliðið hafi átt svona fimm sinnum fleiri dauðafæri í leikjunum samanlagt. Síðustu tíu mínúturnar óðu Framarar í færum til að minnka muninn, en öllum voru mislagðar fætur þótt Már og Alex fengju dauðafæri. Undir lokin kom Stefán inná fyrir Unnar og tók við fyrirliðabandinu, sem var áhugavert.

Jæja, dauði og djöfull. Góðu fréttirnar voru þó að fréttaritarinn náði einum sjússi af ágætasta Ardbeg úr markapelanum og hann er ekki að fara að hlaupa 20,95 km. í fyrramálið eins og sumir. Næsta verkefni Víkingur.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!