Við botn Grafarvogs gefur að líta Síldarmannagarða. Það eru grjóthleðslur sem skaga út í voginn með þröngu opi sem unnt var að loka með einföldum hætti. Þetta var klókindaleg en frumstæð aðferð til að fanga síldargöngur í botni fjarðarins. Síldargildrur þessar voru nýttar löngu áður en síld taldist almennt mannamatur á Íslandi. Hún þótti þó nothæf til beitu.
Nú kynni einhver að spyrja, hvaða tilgangi þessar upplýsingar þjóni í umfjöllun um leik Fram og Víkinga í kvöld? Það er málefnaleg spurning. Svarið er hins vegar á þá leið að fréttaritari Framsíðunnar tók að sér leiðsögumannsverkefni í dag. Arkað var með starfsmenn ónefnds stórfyrirtækis um miðbæjarsvæðið og að lokum ekið með alla hersinguna upp að Lambhaga, hinnar kunnu gróðrarstöðvar í Paradísargarðinum sem Úlfarsárdalurinn er . Tímaáætlanir stóðust ekki og fréttaritarinn var því fastur í grennd við Grafarvog að segja frá Síldarmannagörðum um það leyti sem fyrri hálfleikur stóð sem hæst. Bömmer.
Rútubílstjórinn var snar í snúningum. Hafði raunar lítið náð að kitla bensíngjöfina allan daginn, en stytt sér stundir við að lesa bók um hvað illir múslimar séu að taka yfir Evrópu. Til að finna fjölmenningarlega málamiðlun ákváðum við að sniðganga útlendingamál að mestu í samskiptum dagsins. Og hvað sem Útvarps Sögublætinu leið tókst Bjössa á rútubílnum (hann hét samt augljóslega ekki Bjössi) að skila fréttaritaranum niður í Safamýri rétt áður en flautað var til seinni hálfleiks.
Fyrsti maðurinn sem fréttaritarinn mætti var Gunnar Sigurðarson, kunnasti stuðningsmaður Ólafsvíkurliðsins og laumuframari. Hann viðurkenndi fúslega að fyrri hálfleikur hefði verið með eindæmum bragðdaufur og gaf sterklega í skyn að söguferð um Síldarmannagötur hefði verið betri valkostur en þessi þrjú kortér leiðinda. Tökum orð hans fyrir því og dembum okkur í frásögnina af þeim seinni.
Tvær breytingar frá síðasta leik. Hvorki Tiago né Jökull voru með og reyndist það skarð fyrir skildi. Hlynur stóð í markinu með Gunnar og Marcao fyrir framan sig og Matthías Kroknes og Harald í bakvörðunum. Unnar aftastur á miðjunni, Hilmar og Fred þar fyrir framan, Már og Magnús á köntunum og Helgi fremstur. Fátt óvænt ef undan er skilið að Alex sat á bekknum allan tímann.
Af lýsingu fótboltapunktsnets af fyrri hálfleiknum mátti ráða að Hlynur hefði staðið sig vel. Ekki liðu margar mínútur af þeim seinni uns hann þurfti að taka á honum stóra sínum. Framarar voru bitlitlir. Augljóst að án Tiago erum við höfuðlaus her á miðjunni. Seinni hálfleikur var nálega hálfnaður þegar fyrsta alvöru marktilraun okkar manna rataði í stílabókina góðu. Þá skaut Fred hátt yfir eftir fínan undirbúning frá Hilmari og Helga.
Orri kom inná á þegar tuttugu mínútur voru eftir fyrir Magnús og átti góða spretti. Óheppnin hefur elt Orra síðustu misserin þegar kemur að meiðslum sem er mikil synd, því þegar hann getur spilað munar alltaf um hann.
Víkingar stjórnuðu miðjunni og voru stöðugt ógnandi. Flestar sóknir þeirra miðuðust að því að finna Guðmund Magnússon sem var eitilharður en gleymdi blessunarlega að reima skotskóna í dag. Hann skapaði sér allnokkur færi, en varnarmönnum Fram – og oftar þó Hlyni í markinu – tókst alltaf að sjá við honum.
Færi Framara voru sárafá og flest lítilvæg. Þó voru einhver skemmtilegustu tilþrif leiksins á 80. mínútu þegar Már spændi í sig Ólafsvíkurvörnina, sendi fyrir markið en Orri skallaði rétt yfir. Hefðum við getað stolið sigrinum? Jú, mögulega – en sanngjarnt hefði það ekki verið.
Síðustu tíu mínúturnar tók við blá nauðvörn. Stefán kom inná fyrir Gunnar og gaf sú skipting velþegna nokkurra sekúndna frí frá sóknarlotum Víkinga sem flestar enduðu á því að Guðmundur skallaði eða skaut framhjá – eða Hlynur hljóp ú tog varði glæsilega. Langbesti leikur Hlyns í Framtreyjunni og á hann heiður skilinn fyrir stigið og fyrsta hreina markið okkar á heimavelli í sumar.
Markalaust jafntefli var niðurstaðan í leik sem flestir þátttakendur og áhorfendur munu gleyma ansi fljótt. Þessi pistil mun tæplega vinna Pullitzerverðlaunin, en það var svo sem ekki úr miklu að moða. Við skulum heldur ekki gera lítið úr sögu síldveiða á Íslandi. Þær eru mikilvægur þáttur okkar atvinnu- og efnahagssögu. Næsti leikur verður slagurinn um Hallarmúlann á Þróttarvellinum. Tiago verður mættur aftur og Þróttarar hleypa inn mörkum hægri vinstri. Spái 7:4 sigri annars hvort liðsins, en bjórnum í Köttaratjaldinu verða gerð góð skil.
Stefán Pálsson