fbpx
markao gegn þrótti vefur

Fallega ljótt

Röddin er farin. Í fyrramálið mun fréttaritari Framsíðunnar hljóma eins og Tom Waits á þriðja degi í viskýkjallara. Það verður ekki fallegt. Það verður ekki virðulegt. En verður það þess virði? Heldur betur!

„Þið eruð að vinna, hvernig eruð þið eiginlega þegar þið eruð að tapa?“ – Spurði einn leikaramenntaði heimaliðsstuðningsmaðurinn forviða þegar öskurrokurnar frá Framhluta stúkunnar á Hallarflötinni sem í dag nefnist Þróttarvöllur, gengu gjörsamlega fram af honum. Svarið var einfalt: nokkurn veginn eins! Framarar mæta ekki á völlinn til að syngja ging-gang-gúlígúlí eða snúa slögurum úr Kardimommubænum upp á liðið sitt. Við úr Safamýrinni/Úlfarsárdalnum erum djúpsteikt á sálinni, hertri af margra ára vonbrigðum og mótlæti. Fyrir okkur eru fótboltaleikir ekki vettvangur til að rifja upp Söngvaborgarslagara heldur til að hvæsa á klaufska bakverði andstæðinganna, fattlausa línuverði og rauðhærða dómara.

Laugardalur í kvöld var reyndar lognið á undan storminum. Veðurstofan spáir úrhellisrigningu og fellibylnum Henríettu um það leyti sem Ísland hefur leik gegn Makedóníu, en í kvöld var milt veður, logn og ekki nema léttur úði. Raunar hefði að ósekju mátt rigna örlítið meira því plastteppi Hallarflatarinnar var skraufþurrt frá fyrstu mínútu, eins og glöggt mátti sjá á leik beggja liða.

Framarar gátu ekki teflt fram sínu allra sterkasta liði þar sem Fred var í banni. Tiago kom hins vegar inn í liðið á ný og munar um minna. Hlynur í marki, Marcao og Gunnar í miðvörðunum, Haraldur og Matthías bakverðir og Unnar Steinn aftastur á miðjunni. Hilmar fyrir framan hann og Alex úti á kanti. Már færði sig inn á miðsvæðið í stöðu Freds, sem var ágæt ráðstöfun. Helgi fremstur. Allt frekar fyrirsjáanlegt.

Þróttarar höfðu tapað fjórum leikjum í röð fyrir kvöldið og hljóðið var heldur dauft í röndóttum í bjórtjaldinu við austurenda vallarins fyrir leik. Þróttarbörnin höfðu fengið gasblöðrur og tappað þannig af ört þverrandi helíumbirgðum jarðar, en þeir fullorðnu mændu raunamæddir oní kókdósina og hamborgarann sem steiktur hafði verið á einu að átta King Broil-grillum heimamanna. Þróttur er að mörgu leyti atburðastjórnunarfélag frekar en fótboltaklúbbur. 4-5 Framarar mættu snemma og héldu bjórdælunni gangandi.

Þegar leikurinn hófst var hins vegar ekki að sjá hvort liðið væri í frjálsu falli og hvort sigldi lygnan sjó um miðja deild. Þróttarar áttu fyrstu fimmtán mínúturnar með húð og hári og náðu meðal annars stangarskoti þar sem Hlynur stóð sem negldur niður í miðjum teig. Á þessum upphafsmínútum missti markvörðurinn okkar, sem stóð sig svo vel í síðasta leik, boltann ítrekað frá sér – sem hefði getað skapað stórhættu. Marcao gerði líka heiðarlega tilraum til að gefa vítaspyrnu á þessum fyrsta stundarfjórðungi. Framarar reyttu hár og skegg en Þróttarar sungu gárungasöngva við lög úr Dýrunum í Hálsaskógi.

Eftir þessa afleitu byrjun, þar sem Frömurum virtist lífsins ómögulegt að byggja upp spil og koma boltanum fram á völlinn, virtist draga hratt af heimamönnum og Framarar tóku völdin á miðjunni. Klókur samleikur þar sem Tiago og Már voru í aðalhlutverki tók að einkenna leikinn, án þess þó að okkur tækist að skapa nein alvöru færi. Á 24. mínútu átti Tiago frábæra stungu í gegnum Þróttarvörnina þar sem Helgi skaust einn í gegn en var felldur af Þróttarmarkverðinum sem mátti þakka fyrir að sleppa með gult spjald. Illu heilli náði syndaselurinn að verja vel þokkalega spyrnu Helga og staðan því enn markalaus.

Eftir vítið tóku Framarar hins vegar öll völd og fimm mínútum síðar átti Tiago góða sending á Harald sem gerði vel í að brjóta sér leið upp að endamörkum, sendi fyrir á Hilmar sem skaut föstu skoti sem fór beint á markvörð andstæðinganna – en lak einhvern veginn í gegnum hann og í netið, 0:1.

Það sem eftir leið fyrri hálfleiks áttu Framarar fáein færi eða hálffæri en Þróttarar minntu þó á sig með skyndisóknum og fáeinum sekúndum áður en flautað var til leikhlés mátti Gunnar taka á honum stóra sínum í vörninni.

Framarar voru roggnir í bjórtjaldinu og heimamenn viðurkenndu fúslega að staðan væri ekki ósanngjörn. Öllum bar þó saman um að leikurinn væri lítið fyrir augað. Veigarnar voru Viking gylltur, sem eru sjaldnast góðar fréttir, en þó afgreiddur af dælu sem ber vott um fágun og forfrömun. Þróttur er kannski ekki félag sem þú myndir vilja styðja í íþróttum, en klárlega klúbbur sem þú myndir treysta til að skipuleggja brúðkaupsveisluna þína.

Eftir að hafa notið ljúffengra veitinga í tjaldinu snéru fréttaritari Framsíðunnar og tryggðartröllið Valur Norðri aftur til stúkusæta sinna, fullvissir um að fá að njóta fleiri sopa úr markapelanum góða, sem enn var fleytifullur af afbragðsgóðu Ardbeg, taðreyktum drjóla frá Islay. Það reyndist óþarfa bjartsýni.

Skemmst er frá því að segja að Framarar mættu ekki í seinni hálfleik. Tíu mínútur liðu áður en fréttaritarinn sá ástæðu til að hripa fyrstu orðin í minnisbókina: „við gerum ekki neitt!“ Góðu fréttirnar voru hins vegar þær að Þróttararnir voru álíka slappir. Við töfðum. Tókum góðan tíma í hverja einustu aukaspyrnu, innkast og útspark, en andstæðingarnir sköpuðu sér svo sem voðalega lítið þá sjaldan sem þeim tókst að koma 3-4 sendingum sín á milli.

Eftir um klukkutímaleik virtust Þróttarar vera að ná tökum á spilinu og náðu nokkrum sóknum sem enduðu með hálffærum. Framarar voru heillum horfnir og komust varla yfir miðju. Helvítis skátasöngvarnir frá lífsglöðu Kötturunum voru síst til að bæta á sálarangistina okkar megin í stúkunni.

Sjálfseyðingarhvötin reyndist þó yfirsterkari hjá Þrótturum um það leyti sem lið þeirra virtist ætla að taka leikinn yfir. Enski framherjinn ákvað að framkvæma glórulausa tæklingu lengst úti á kanti og uppskar sitt annað gula spjald. Framarar orðnir manni fleiri og útlitið orðið nokkuð bjart.

Rauða spjaldið var kjaftshögg fyrir Þróttara sem dróu sig þegar aftur á völlinn. Beint í kjölfarið ákvað Jón þjálfari að fara loksins í löngu tímabæra skiptingu. Jökull leysti Hilmar af hólmi og sú skipting átti svo sannarlega eftir að reynast afdrifarík.

Fyrsta tæpa hálftímann af seinni hálfleik náðu Framarar ekki skoti á mark Þróttar. Fyrsta skotið var slappur æfingabolti á 72. mínútu. Fimm mínútur áttu enn eftir að líða áður en Fram náði alvöru skoti. Það gerði Jökull eftir sending frá Helga, en þrumaði yfir. Örskömmu síðar virtist boltinn fara í hönd eins Þróttarans í miðjum eigin vítateig, en dómari leiksins var ekki á þeim buxunum að dæma neitt slíkt.

Beint í kjölfarið lagði Jökull upp prýðilegt færi fyrir Alex, sem náði ekki að nýta það sem skyldi. Framarar á pöllunum voru kátir. Manni fleiri virtust Framarar hafa fulla stjórn á hlutunum og það hlaut bara að vera tímaspursmál hvenær næsta mark lyti dagsins ljós.

En á 79. mínútu reið ógæfan yfir. Framarar hófu leik með aukaspyrnu á eigin vallarhelmingi án þess að vera undir nokkurri pressu. Með því að gaufa með boltann og missa hann loks á versta stað tókst einum Þróttaranum að stinga sér í gegn og jafna gjörsamlega gegn gangi leiksins. Við þetta hrundi leikur okkar gjörsamlega til grunna og liðið minnti helst á höfuðlausar hænur. Hlynur varði stórkostlega tveimur mínútum síðar þegar einn Þróttarinn komst einn í gegn.

Alex fór af velli fyrir Magnús en Framarar virtust slegnir og óskipulagðir. Kom þá að Jökulsþætti Steins Ólafssonar…

Á 85. mínútu fékk Jökull boltann á miðjum vallarhelmingi Þróttar. Hann lék í áttina að vítateignum og komst lengra og lengra, þar sem varnarmenn andstæðinganna biðu alltaf eftir hliðarsendingunni. Laust fyrir utan vítateig sá hann skotfæri og lét vaða í fallegum boga í markhornið, glæsimark og Fram komið yfir 1:2.

Heimamenn áttu ekkert svar við þessu og ellefu Framarar sigldu sigrinum í höfn. Hetja kvöldsins var Jökull Steinn sem breytti leiknum með innkomu sinni, enda hárrétta týpan í svona viðureign. Sigurinn var ljótur. Jafnvel verulega ljótur. En það er nú bara þannig að stundum eru ljótustu sigrarnir þeir fallegustu.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!