fbpx
70021775_10221109510546395_6787192841975103488_o

Súldarsamba

„I see you baby, shakin´ that ass. Shakin´ that ass. Shakin´ that ass.“ – Það var mikið stuð í snemmmiðaldranostalgíuþætti Bigga í Maus á Rás 2 sem drundi í metanknúnum fjölskyldubíl fréttaritara Framsíðunnar á leiðinni í Safamýri. Breski dúetinn Groove Amanda var kunnur fyrir djúpar textasmíðar með harðri samfélagsádeilu og hikaði ekki við að taka á stóru málunum. „I see you baby, shakin´ that ass. Shakin´ that ass…“Árið var 1999 og heil deild skildi að Fram og Þór. Framarar vörðu drjúgum tíma í þriðja og fjórða sætinu í efstu deild en drógust að lokum oní harða fallbaráttu og enduðu á að senda Valsmenn niður um deild þegar Anton Björn Markússon skoraði einu mörk sín á leiktíðinni þegar mest á reyndi, í lokaleik gegn Víkingum. Þórsarar höfnuðu hins vegar í fjórða sæti í þriðju efstu deild og enduðu sumarið á tapi gegn bumbuboltaliðinu Létti. „I see you baby, shakin´ that ass.“Spólum fram um þrjátíu ár. Groove Armada er ennþá starfandi. Stóru hittararnir hafa látið bíða eftir sér en sveitin hefur þó sent frá sér nokkra hringitóna sem notið hafa vinsælda. Fram og Þór eru núna í sömu deild. Þórsurum var raunar spáð mikilli velgengni og vísu úrvalsdeildarsæti í upphafi keppnistímabils. Allt hefur það endað í tárum og liðin á svipuðu róli fyrir leikinn, þótt Akureyrarliðið ætti enn tölfræðilegan möguleika á að komast upp.
Það rigndi og blés í Reykjavík svo fréttaritarinn, kunnur af fyrirhyggju og skynsemi, ákvað að skella sér í þunna peysu utan yfir pólóbolinn. Eftir á að hyggja hefði sjóstakkur verið betri hugmynd.Framarar tefldu fram breyttu liði frá sigrinum gegn Þrótti. Hvorki Hilmar né Már voru sjáanlegir á leikskýrslu en þeirra í stað komu Jökull og Fred inn í byrjunarliðið á ný. Byrjunarliðið var því: Hlynur í marki, Marcao og Gunnar miðverðir, Matthías og Haraldur bakverðir. Unnar, Jökull og Tiago á miðjunni. Alex á kantinum. Fred og Helgi fremstir.Stuðningsmenn Akureyrar Þórs eru kunnir fyrir slagorðið „deyja fyrir klúbbinn“. Í dag gafst prýðilegt tækifæri til að deyja fyrir klúbbinn – úr bronkítis! Það var blautt og það blés. Veðurhamurinn var slíkur að auglýsingaskilti svignuðu, vallarverðir óttuðust um afdrif hljóðkerfisins og Unnar Steinn neyddist til að skipta úr stuttermatreyju í síðermabol í leikhléi. Á næsta stórafmæli Knattspyrnufélagsins Fram hlýtur að koma fastlega til greina að veita öllum viðstöddum áhorfendum einhvers konar viðurkenningu. Í þeim hópi verður a.m.k. ekki amlóðinn Valur Norðri sem skrópaði á leikinn og því var enginn markaviskýfleygur innan seilingar.
Því hefur áður verið lýst á þessum vettvangi hversu ógnarskjótt fréttaritari Framsíðunnar getur dregið fram skrifblokkina í rigningu, párað minnispunkta og stungið pappírunum aftur í vasann áður en blöðin blotna. Í dag var enginn möguleiki á slíku. Engir minnispunktar voru teknir og öll umfjöllunin byggist því á brotakenndu minni pistlahöfundar. Því má búast við að af því sem hér fer á eftir sé helmingurinn skrök og afgangurinn skreytni.Eftir frekar óstyrkar upphafsmínútur tóku Framarar völdin á vellinum eftir um tíu mínútna leik og sóttu vel að marki gestanna. Nýttum við okkur þar vel kröftugan meðvind og komum Þórsvörninni nokkrum sinnum í vandræði. Eftir hornspyrnu á 25. mínútu náði Fram svo forystu þegar Helgi potaði knettinum í netið af stuttu færi, 1:0. – Ónefndur Framari, Liverpool-maður og starfsmaður norræns sendiráðs hér í borg, spáði því þá þegar að Helgi myndi setja þrennu í leiknum…Mark Framara bætti ekki geð gestanna sem höfðu allt frá upphafi verið duglegir við að kveinka sér og tuða í dómaranum, sem lét allt slíkt þó sem vind um eyru þjóta. Harkan í leiknum var talsverð á þessum tíma, þar sem leiðindaveðrið virtist fara illa í skapið á fjölmörgum leikmönnum.Þórsurum tókst að koma sér betur inn í leikinn síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiksins þar sem Framarar bökkuðu alltof mikið. Á þessum kafla hélt Hlynur okkur inn í leiknum með 3-4 frábærum vörslum. Flautað var til leikhlés og allir vörpuðu öndinni léttar að komast í tebollur og snúða niður í tækvondósalnum eða það sem betra er í öðrum enda hússins.Krókloppnir áhorfendur voru rétt búnir að ná fullum líkamshita þegar komið var að því að klæða sig aftur í gegnblautar yfirhafnirnar fyrir seinni hálfleikinn. Eftir áratugi verða sungnar hetjukviður um þessa hugdjörfu stuðningsmenn sem horfðust hlæjandi í augu við mögulega lungnabólgu og fljúgandi bárujárnsplötur.
Þórsarar létu mótlætið fara í taugarnar á sér og náðu lítið að skapa í upphafi seinni hálfleiks. Framarar reyndu að drepa leikinn niður og varð nokkuð ágengt. Helsta hættan sem skapaðist var þegar leikmenn Fram, Tiago þó öðrum fremur, voru að gaufa með boltann í öftustu línu í stað þess að leika honum hratt fram á við. Hornspyrnur andstæðinganna ollu sömuleiðis uppnámi og stórhættu að venju.Eftir um klukkutíma leik færðist fjör í leikinn þegar sauð uppúr milli Fred og hins skapstygga Nachos, sem hefði auðveldlega getað nælt sér í rautt spjald eftir að sparka til Brasilíumannsins þar sem hann lá í gervigrasinu. Flestallir leikmenn hlupu að atvikinu með tilheyrandi stimpingum. „Slagur, slagur!“ – hrópuðu áhorfendur. Kannski ekki mjög þroskað viðhorf, en leikurinn hafði klárlega gott af því að blóð leikmanna kæmist aðeins á hreyfingu!Í kjölfar áfloganna tóku Framarar á ný völdin á vellinum og sóttu að krafti. Nokkrum mínútum síðar tók Alex Freyr á rás inn í vítateig Þórsara, þar sem okkar gamli miðvörður Dino renndi sér í kjánalega tæklingu. Alex sótti snertinguna og fór niður. Ekki grófasta brotið en víti dæmt engu að síður. Helgi stillti boltanum upp á punktinn, tók afleitt víti sem Þórsarinn varði, en frákastið féll beint fyrir fætur Helga sem átti ekki í vandræðum með að skora, 2:0. Fréttaritarinn kættist, en hugsaði þó félaga Val Norðra þegjandi þörfina að vera hvergi nálægur með Ardbeg-fleyginn góða.
Gestirnir voru gjörsamlega slegnir út af laginu með öðru markinu. Beint í kjölfarið braut einn Þórsarinn augljóslega á Helga inni á vítateig, en dómarinn ákvað að jafna út hið umdeilanlega fyrra víti og dæmdi ekkert.Framarar héldu áfram að sækja og sköpuðu sér nokkur góð færi. Mótlætið fór í taugarnar á gestunum en enginn varð þó pirraðri en fyrrnefndur Nacho. Honum var skipt útaf, væntanlega áður en honum tækist að næla sér í rautt spjald. Á hliðarlínunni sá hann ástæðu til að veitast að einum boltastráknum með skömmum fyrir engar sakir. Fátt er ómerkilegra en fullorðnir menn sem koma illa fram við boltastráka og hefði aðstoðardómarinn að ósekju mátt vekja athygli á atvikinu. Skálkurinn átti þó eftir að fá makleg málagjöld síðar meir.Jón þjálfari gerði þrjár breytingar á síðasta stundarfjórðungnum. Fyrst fór Alex af velli fyrir Magnús. Þá Fred fyrir Orra og loks Jökull fyrir Heiðar Geir undir blálokin.
Þegar komið var í uppbótartíma rættist spádómur sendiráðsstarfsmannsins þegar Helgi fullkomnaði þrennuna eftir góðan undirbúning Magnúsar í frábærri skyndisókn, 3:0! Framarar á pöllunum fögnuðu vel, en kátínan var minni á varamannabekknum hjá Þór, þar sem títtnefndur Nacho nældi sér í rauða spjaldið og braut í kjölfarið í vatnsbrúsastand Framara. Ekki varð það til að draga úr kátínu hundblautra Framara.Ágætur dómari leiksins flautaði til leiksloka og 3:0 sigurinn var staðreynd. Framarar skriðu þar með upp fyrir Þórsara á markatölu og eiga möguleika á að tryggja sér fjórða sætið í lokaumferðinni í Breiðholti. Sjáumst þar.Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!