Á laugardagskvöld fór fram lokahóf knattspyrnudeildar Fram. Hófið var
vel sótt; um 120 manns í mat og fjölgaði eftir því sem leið á kvöldið.
Stemningin var eins og best verður á kosið. Létt yfir mannskapnum og
greinilegur hugur í fólki að gera enn betur á næsta keppnistímabili.
Veislustjórn var í höndum Þorsteins Joð og stýrði hann samkundunni af sinni alkunnu snilld.
Elín Þóra stýrði æsispennandi spurningakeppni og Fram TV frumsýndi myndband með markasúpu sumarsins. Myndbandið má sjá hér.
Hefð er fyrir því að veita viðurkenningar fyrir áfangaleiki en á þessu ári var einungis einn leikmaður sem lék áfangaleik. Markahrókurinn Helgi Guðjónsson var heiðraður fyrir að leika 100 meistaraflokks leiki fyrir félagið. Alls hefur hann nú leikið 109 leiki fyrir meistaraflokk Fram.
Helgi sem var annar af markahæstu leikmönnum Inkasso-deildarinnar í ár með 15 mörk hlaut einnig verðlaun sem markahæsti leikmaður Fram á keppnistímabilinu. Helgi lék 25 leiki í deild og bikar og skoraði 19 mörk. Alls lék Helgi 33 leiki og skoraði 25 mörk í öllum keppnum á tímabilinu. Vel af sér vikið.
Fyrirliðinn Hermann Björn Harðarson var valinn besti leikmaður 2.flokks karla og efnilegasti leikmaðurinn var valinn Tómas Stitelmann.
Leikmenn og þjálfarar meistaraflokks karla völdu besta og efnilegasta leikmanni liðsins.
Efnilegasti leikmaður Fram í mfl. karla var valinn
Már Ægisson.
Már lék 27 leiki fyrir Fram í sumar og gerði í þeim 3 mörk. Már lék á köflum virkilega vel með Framliðinu og er orðinn mikilvægur hlekkur í liðinu þó ungur sé að árum.
Besti leikmaður Fram í mfl. karla var valinn
Frederico Saraiva.
Fred var virkilega öflugur í sumar og í 23 deildar- og bikarleikjum skoraði hann 9 mörk. Alls lék Fred 27 leiki og skoraði 10 mörk í öllum keppnum.
Sú nýbreytni var tekin upp að þessu sinni að stuðningsmönnum gafst færi á að kjósa sinn leikmann ársins. Stuðningsmenn voru á sama máli og leikmenn og þjálfarar og kusu Fred þann besta. Það er mikið gleðiefni fyrir okkur Framara að náðst hefur samkomulag við Fred um að koma og leika með liðinu í Sambamýri á næsta tímabili.
Eftir verðlaunaafhendingu var opið hús, þá bættust stuðningsmenn í hópinn og skemmtu sér með strákunum og fögnuðu skemmtilegu tímabili.
Virkilega vel heppnað lokahóf og almenn ánægja á meðal Framara á laugardagskvöldið.