Knattspyrnudeild Fram hefur samið við framherjann Alexander Má Þorláksson til næstu tveggja ára. Samningurinn gildir út keppnistímabilið 2021.
Alexander sem er 24 ára gamall gengur til liðs við Fram frá KF þar sem hann lék á síðustu leiktíð og varð markahæsti leikmaður 3. deildar með 28 mörk í 21 leik.
Alexander er Frömurum að góðu kunnur en hann lék með liðinu árið 2014 og skoraði þá 5 mörk í 16 deildar- og bikarleikjum. Hann hefur síðan leikið með Hetti, Kára og KF og raðað inn mörkum með öllum þessum félögum. Hann sneri á heimaslóðir sumarið 2018 og lék nokkra leiki með uppeldisfélagi sínu ÍA í Inkasso-deildinni sumarið 2018 en lauk tímabilinu með Kára. Eins og áður segir lék hann með KF á síðasta tímbili og fór hamförum í markaskorun.
Alls hefur Alexander leikið 121 deildar- og bikarleik og skorað 90 mörk.
Knattspyrnudeild Fram er mjög ánægð með að hafa tryggt sér starfskrafta Alexanders Más næstu tvö árin hið minnsta og það verður gaman að fylgjast með honum hrella varnarmenn og markverði andstæðinganna.
Velkominn Alexander!