Miðvörðurinn öflugi Gunnar Gunnarsson hefur endurnýjað samning sinn við knattspyrnudeild Fram. Samningurinn gildir til tveggja ára eða út keppnistímabilið 2022.
Gunnar gekk til liðs við Fram frá Þrótti í júlí og lék 12 leiki með liðinu í Inkasso-deildinni. Mikil ánægja var með frammistöðu Gunnars í Frambúningnum og því mikið gleðiefni að hann hafi ákveðið að taka slaginn með liðinu næstu tvö árin.
Gunnar sem er 26 ára gamall er uppalinn Stjörnumaður en hefur á ferli sínum einnig leikið með Víkingi, Hamri, Gróttu, Val, Haukum og Þrótti. Alls á hann að baki 96 deildar- og bikarleiki á sínum ferli og hefur skorað í þeim 7 mörk.
Knattspyrnudeild Fram er ánægð með að hafa tryggt sér áframhaldandi þjónustu Gunnars og væntir mikils af honum á komandi árum.