Knattspyrnufélagið Fram gerði í vikunni samning við tvo sterka leikmenn sem hafa reynslu úr efstu deild. Þórir Guðjónsson sem leikið hefur með Breiðabliki undanfarin ár snýr aftur heim en hann lék með Fram upp alla yngri flokka. Auk Breiðabliks hefur Þórir spilað með Fjölni og Val í meistaraflokki. Hann á alls 147 leiki í meistaraflokki og í þeim hefur hann skorað 47 mörk. Þórir Guðjónsson er 28 ára og er samningur hans við Fram til tveggja ára.
„Ég er glaður að vera búinn að skrifa undir hjá Fram og hlakka til að takast á við nýjar áskoranir. Ég vil nýta tækifærið og þakka Breiðablik fyrir samstarfið og óska þeim góðs gengis næsta sumar. Mér finnst heillandi að snúa aftur til uppeldisfélagsins og hjálpa til við að koma félaginu á þann stað sem það á að vera. Nonni þjálfaði mig í 2. flokki á sínum tíma og ég er spenntur að vinna aftur með honum. Mér líst vel á liðið. Ég þekki nokkur andlit í hópnum en svo eru þarna líka ungir og efnilegir strákar sem ég hlakka til að spila með.“
Albert Hafsteinsson er 23 ára miðjumaður sem kom við sögu í 15 leikjum með ÍA í Pepsi Max deildinni í sumar. Albert hefur leikið 101 meistarflokks leik með skagaliðinu og býr yfir gæðum sem munu nýtast Fram vel á komandi árum. Samningur Alberts er til þriggja ára.
„Ég er mjög ánægður með að vera kominn í Fram. Fram er félag með mikla sögu og það eru mjög jákvæðir og skemmtilegir hlutir í kringum klúbbinn núna og mikil uppbygging, bæði innan vallar sem utan. Það er frábært tækifæri fyrir mig að fá að taka þátt í því. Þjálfararnir eru reynslumiklir og vilja spila skemmtilegan fótbolta og vonandi nýtast mínir styrkleikar vel í þá hugmyndafræði. Ég þekki nokkra í leikmannahópnum og hópurinn er á góðum aldri. Ég tel að þetta sé rétt skref á þessum tímapunkti á mínum ferli.“
Fyrr í haust samdi Fram við þrjá sterka leikmenn þá Ólaf Íshólm Ólafsson markvörð, sóknarmanninn Alexander Má Þorláksson og varnarmanninn Gunnar Gunnarsson en allir koma þeir með gæði og reynslu inn í hópinn.
„Gríðarlega ánægður með þennan liðsstyrk,“ segir Jón Sveinsson þjálfari
„Það var ljóst þegar að Helgi Guðjónsson fór frá okkur í haust að við þyrftum að styrkja okkur framarlega á vellinum. Þá er orðið ljóst að Tiago verður ekki með okkur næsta sumar en þeir tveir, Helgi og Tiago, voru lykilmenn sem spiluðu nánast alla leiki Fram síðasta sumar. Við brotthvarf þeirra var ljóst að við þyrftum að styrkja okkur á miðsvæðinu og fram á við. Þessir leikmenn sem nú hafa komið til okkar eru allt leikmenn á besta aldri með töluverða reynslu og flottir karakterar. Ég tel að þeir henti Fram vel og þeim leikstíl sem við spilum.“
Fram hefur leikið í Inkasso deildinni undanfarin 5 sumur eða síðan liðið féll úr efstu deild 2014. Í haust tók ný stjórn við knattspyrnudeildinni og fjölmennur hópur Framara kemur í dag að starfinu. Einhugur eru um að byggja ofan á jákvæða spilamennsku síðasta tímabils og stefnan er skýr. Félagið flytur í glæsilega íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal árið 2022 og markmiðið er að Knattspyrnufélagið Fram leiki þá í deild þeirra bestu.