Í dag var gengið frá samningum við þrjá uppalda Framara, þá Má Ægisson, Harald Einar Ásgrímsson og Magnús Inga Þórðarson. Skrifuðu þeir allir undir 3ja ára samning.
Már Ægisson er fæddur árið 2000. Hann hefur aðallega spilað sem kantmaður en getur leyst fleiri stöður á vellinum. Hann hefur verið einn af burðarásum liðsins þrátt fyrir ungan aldur og spilaði 19 leiki með Fram í deild og bikar í fyrra.
Haraldur Einar er vinstri bakvörður, fæddur árið 2000. Hann var fastamaður í liði Fram í fyrra, spilaði 18 leiki í deild og bikar. Hann hefur einnig spilað sem kanttengiliður.
Magnús Ingi er fæddur árið 1999 og spilar sem vinstri kantmaður. Hann kom við sögu í 16 leikjum Fram í deild og bikar í fyrra. Hann getur einnig leyst fleiri stöður sem sóknarmaður.
Knattspyrnudeild Fram er sérstaklega ánægð með að hafa gengið frá 3ja ára samningi við þessa uppöldu leikmenn sem með undirskrift sinni sína félaginu tryggð og hollustu og sýna það í verki að þeir ætla að aðstoða Fram við að ná markmiðum sínum.
Stjórn Fram og aðstandendur knattspyrnudeildar Fram líta björtum augum til næstu ára þar sem margir ungir og efnilegir leikmenn hafa sýnt miklar framfarir auk þess sem Fram hefur verið að styrkja sig með reyndum leikmönnum að undanförnu eins og áður hefur komið fram.
Knattspyrnudeild FRAM