fbpx
Sigurbergur vefur

Sigurbergur Sigsteinsson, kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Sigurbergur Sigsteinsson
F: 10. febrúar 1948. D: 29. janúar 2020.

* Útför Sigurbergs fer fram frá Grafarvogskirkju á fæðingardegi hans; í dag, mánudag 10. febrúar 2020, kl. 13.

​​​​​Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Við fráfall Sigurbergs Sigsteinssonar sér Fram á bak góðum, traustum og litríkum félaga. Sigurbergur, sem ólst upp á Njálsgötunni; við Frakkastíg, varð margfaldur meistari með yngri flokkum félagsins bæði í knattspyrnu og handknattleik. Hann varð unglingalandsliðsmaður og síðan landsliðsmaður í báðum greinum. Sigurbergur lék 352 leiki með Framliðinu í handknattleik, 1966-1980, og 225 leiki í knattspyrnu, 1966-1979. Hann lék með Fram í Meistarakeppni Evrópu  í báðum greinum.

Sigurbergur var einn af bestu handknattleiksmönnum Íslands og fastamaður í landsliðinu, fjölhæfur leikmaður í sókn og öflugur í vörn; einn besti varnarleikmaður landsins. Sigurbergur lék 88 landsleiki á árunum 1967-1978. Hann var kallaður, 19 ára, frá Laugarvatni, þar sem hann var við nám í íþróttakennaraskólanum, til að leika sína fyrstu landsleiki gegn Tékkóslóvakíu í byrjun desember 1967. Þegar Ísland vann hinn frækna sigur á Dönum í apríl 1968, 15:10, stjórnaði Sigurbergur varnarleiknum; í sínum þriðja landsleik.

 Hann varð Íslandsmeistari í handknattleik með meistaraflokki 1967, 1968, 1970 og 1972, Íslandsmeistari í knattspyrnu 1972 og bikarmeistari 1970.

 Sigurbergur lék sinn eina landsleik í knattspyrnu gegn áhugamannalandsliði Englands á Laugardalsvellinum 1971.

Ísland – England (áh.) 1-3 (1-1), VL – Reykjavík, Laugardalsvöllur 4. ágúst 1971. Þorbergur Atlason, Jóhannes Atlason fyrirliði, Sigurbergur Sigsteinsson,

Sigurbergur tók þátt í heimsmeistarakeppninni í handknattleik í Frakklandi 1970 og HM í Austur-Þýskalandi 1974. Þá lék hann með landsliðinu á Ólympíuleikunum í München 1972. Fyrir leikana var hann lykilmaður í knattspyrnuliði Fram sem barðist um Íslandsmeistaratitilinn. Þá setti HSÍ „knattspyrnubann“ á Sigurberg til að hann gæti tekið af fullum krafti þátt í undirbúningu fyrir ÓL. Sigurbergur kom síðan tvíefldur frá München til að leika á ný með Framliðinu og fagna meistaratitli með félögum sínum.

  Sigurbergur, sem var einn besti skallamaður landsins – hafði yfir að ráða mikilli skallatækni, varð bikarmeistari í knattspyrnu 1970, eftir að hafa skallað Víking út úr bikarkeppninni á Melavellinum, 3:2. Tíminn sagði þannig frá: „Áhorfendur fengu að sjá eitt glæsilegasta skallamark, sem lengi hefur sést. Eftir hornspyrnu lyfti Sigurbergur sér upp á réttu augnarbliki, og skallaði knöttinn, undir þverslánna og þaðan í netið.  Sigurbergur skapaði glundroða í Víkingsvörninni er hann kom þangað, og lítið höfðu Víkingar að gera í hann, er þeir sóttu hann heim í Framvörnina, þar sem hann bar höfuð og herðar yfir alla.“

Sigurbergur fékk oft það hlutverk að hafa gætur á hættulegasta sóknarmanni andstæðinganna. Og gerði það vel.

Jóhannes Atlason sagði að Sigurbergur hafi verið svakalegur skallamaður. „Mér fannst hann alltaf höfðinu hærri en ég í leikjum, en við læknisskoðun kom eitt sinn í ljós, að hann var sentimetra minni en ég!“

 Sigurbergur, sem skoraði 18 mörk, flest með skalla, fyrir Fram í knattspyrnu árunum 1966-1979, skoraði einnig eftirminnilegt mark í handknattleik í Laugardalshöllinni, þegar hann kastaði sér fram og skallaði knöttinn í netið í  hraðaupphlaupi.

 Sigurbergur var drengur góður og leit yfirleitt á björtu hliðarnar og þá var oftar en hitt stutt í spaugið. Það var ávallt mikil músik í kringum hann, en Sigurbergur átti eitt glæsilegasta plötusafn landsins. Uppáhaldshljómsveit hans var enska gítarsveitin The Shadows og Cliff Richard. Þar var átrúnaðargoðið Hank Marvin. Hann og Sigurbergur áttu það sameiginlegt að leika af fingrum fram, þegar þeir voru í  essinu sínu. Marvin upp á sviði með gítarinn, Sigurbergur inni á vellinum, með knöttinn!

 Sigurbergur var mikill keppnismaður, öflugur varnarmaður bæði í handknattleik og knattspyrnu. Hann undirbjó sig vel fyrir hverja orrustu – lagði alla krafta sína í verkefnin, ákveðinn að láta sitt ekki eftir liggja. Hann var þó ekki alls kostar tilbúinn í sína síðustu baráttu, Alzheimersjúkdóminn, sem svo margir standa berskjaldaðir frammi fyrir. Jafnvel sterkustu vígi falla í slíkum slag. Það er sárt að horfa á eftir góðum félaga á þennan hátt.

 Það munaði eitt sinn ekki miklu að Sigurbergur missti af Evrópuleik gegn Partizan Bjelovar frá Júgóslavíu í Laugardalshöllinni. Hann hafði farið í ljós, til að fá á sig smá lit. Svo óheppilega vildi til, að Sigurbergur sofnaði, þannig að bakið á honum brann og varð eins og glóandi hnöttur. Sigurbergur gaf sig ekki; mætti í átökin, 16:16. Hann var sárþjáður eftir átökin og þegar hann klæddi sig úr keppnisbolnum, fylgdi skinnið af baki Sigurbergs, peysunni.
 Sigurbergur sýndi einnig mikla keppnishörku þegar hann skoraði jöfnunarmark Þróttar Nes. gegn Selfossi í knattspyrnuleik 1979.  Morgunblaðið sagði þannig frá: „Sigurbergur lék með skurð á höfði og þurrkaði af og til blóðið af höfði sér með grisju, sem hann hélt á.“ Jöfnunarmarkinu, sem kom eftir hornspyrnu, var lýst þannig: Sigurbergur skallaði knöttinn yfir markmann Selfoss. „Hafnaði blóðugur boltinn í netinu.“
​​​​Sigurbergur óskaði eftir því við samherja sína og lærisveina, að þeir legðu allt sitt fram í leiki. Handknattleikskappinni Dagur Sigurðsson, Val, sem var fyrirliði 4. flokksliðs Vals í knattspyrnu, sem Sigurbergur þjálfaði, sagði frá því í Valsblaðinu þegar hann rifjaði upp eftirminnilegustu þjálfara, að Sigurbergur hefði sagt fyrir einn leikinn, sem fór ekki fram við bestu aðstæður. „Strákar, það er hægt að berjast endalaust í þessu veðri!“

 Það má segja að Sigurbergur hafi alltaf verið á ferð og flugi. Hann var í mörg ár afkastamesti þjálfari landsins og þjálfaði meira en eitt kapplið í einu í handknattleik og knattspyrnu, auk þess að vera leikfimiskennari í Verslunarskólanum og Árbæjarskólanum.

Eftir að Sigurbergur útskrifaðist sem íþróttakennari frá Laugarvatni 1968 var hann ráðinn, 20 ára, þjálfari unglingalandsliðsins í handknattleik. Unglingaliðið varð í þriðja sæti á NM í Noregi 1969, undir stjórn Sigurbergs.

 Síðan átti hann eftir að verða landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik 1974-1975, aftur 1980-1983 og stjórna landsliðinu í 32 landsleikjum.

Þegar Sigurbergur þjálfaði kvennalandsliðið tímabilið 1980-1981, þjálfaði hann einnig kvennalið Fram (1. deild) og ÍR (2. deild). Þegar liðin mættust í úrslitaleik um Reykjavíkurmeistaratitilinn, ákvað hann að halda sig til hlés; sýna hlutleysi með því að horfa á liðin leika, frá áhorfendapöllum! Fram vann.

Sigurbergur er eini þjálfarinn sem hefur þjálfað bæði kvennalandslið Íslands í handknattleik og knattspyrnu. Hann þjálfaði og stjórnaði kvennaliðinu í knattspyrnu í 8 leikjum 1985-1986. Með liðinu léku þá fjórar stúlkur, sem höfðu leikið undir hans stjórn með handknattleikslandsliðinu.

Sigurbergur var á stöðugri ferð á milli íþróttahúsa og valla, til að kenna og þjálfa. Í Safamýrinni (Fram – þjálfaði meistaraflokk karla og kvenna í handknattleik og yngri flokka í handknattleik og knattspyrnu. Hann var í mörg ár skólastjóri hins vinsæla Knattspyrnuskóla Fram), að Hlíðarenda (Valur – þjálfaði bæði meistaraflokk kvenna í handknattleik og knattspyrnu, og yngri flokka í knattspyrnu), í Árbæ (leikfimiskennari) og Breiðholti (ÍR – þjálfaði meistaraflokk kvenna í handknattleik), í Hafnarfirði (Haukar – þjálfaði meistaraflokk karla í handknattleik), í Garðabæ (Stjarnan – þjálfaði meistaraflokk kvenna í handknattleik), hjá Ármanni – þjálfaði meistaraflokk karla í knattspyrnu, hjá HK í Kópavogi, liðsstjóri, leikmaður og þjálfari í handknattleik. Tvö sumur fór hann austur á firði, til að þjálfa og leika með knattspyrnuliðum Leikni á Fáskrúðsfirði (1975) og Þrótt Neskaupstað (1979).

Sigurbergur var ráðinn þjálfari kvennaliðs Gróttu í handknattleik 1995, en starf hans var ekki lengi, þar sem Grótta náði ekki fá nægilega margar stúlkur til að halda út keppnisliði.

 Þess má geta að Sigurbergur fór til Freiburg í Þýskalandi sumarið 1982, þar sem hann tók þátt í þjálfaraskóla í handknattleik á vegum þýska handknattleikssambandsins.Sigurbergur lenti oft í kapphlaupi við tímann, er hann geystist um á milli íþróttahúsa og valla. Hann fékk oft hraðasektir, í Ártúnsbrekkunni, á leið í bæinn eða upp í Árbæ. Lét það ekkert á sig fá; hélt ró sinni og yfirvegun er hann mætti á æfingar. Ferðir á milli staða tók lengri tíma þegar Sigurbergur var bíllaus og ferðaðist á milli staða með strægisvögnum, eða jafnvel hlaupandi.

 Þá átti Sigurbergur heima í Garðabæ. Hann hljóp þaðan til að stjórna æfingum hjá Fram í Safamýrinni og síðan heim á eftir æfingar. Já, Sigurbergur var svo sannarlega alltaf á ferð og flugi – lagði sig alltaf allan fram til að sinna sínum verkefnum eins vel og hann gat; og gerði.

Knattspyrnufélagið Fram kveður Sigurberg Sigsteinssonn með hlýju. Eiginkonu hans og fjölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

 Sigmundur Ó. Steinarsson

Jóhann G. Kristinsson hefur tekið saman myndir af löngum ferli Sigurbergs og hér er hægt að sjá þessar myndir http://frammyndir.123.is/photoalbums/292938/

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!