Kæru félagar.
Við viljum minna alla Framara á Framherja en það er stuðningsmannaklúbbur knattspyrnudeildar Fram.
Á þessum tímum leita íþróttafélögin um land allt allra leiða til að halda starfsemi gangandi. Verið er að selja miða á leiki sem aldrei fara fram ásamt veitingum sem aldrei verða bornar fram.
Við Framarar viljum styrkja stoðir stuðningsmannaklúbbsins sem stendur þétt við bakið á rekstri meistaraflokka knattspyrnudeildar. Því biðlum við til ykkar að ganga í Framherja og aðstoða okkur þannig við að reyna að hámarka árangur okkar í sumar og á næstu árum. Nú er búið að bæta við klúbbinn og boðið upp á Demantakort.
Demantakort er félagsskapur skemmtilegra Framara sem vilja vera sterkir stuðningsaðilar knattspyrnudeildar Fram. Innifalið í árgjaldinu er 2 miðar á alla leiki Fram í knattspyrnu og getur því hver og einn boðið einum aðila með sér á völlinn. Demantakorthafar hittast fyrir leik þar sem boðið er upp á léttar veitingar og aðili úr þjálfarateymi liðsins mætir og fer yfir leik dagsins, uppstillingu og áherslur. Einnig stendur félagsskapurinn fyrir ýmsum öðrum uppákomum, allt eftir vilja félagsmanna. Þessi leið hefur verið farin hjá nokkrum félögum og gengið vel, úr hefur orðið skemmtilegur hópur sem hittist fyrir leik og býr til góða og skemmtilega stemningu á leikjum og í kringum meistaraflokkana.
Við vonum að þið sjáið ykkur fært að ganga í Framherja. Hægt er að skrá sig á skráningarsíðu Fram eða með því að senda tölvupóst á Daða rekstrarstjóra knattspyrnudeildar, dadi@fram.is. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Fram undir FRAMHERJAR.
Á þessum tímum þörfnumst við þess að við Framarar snúum bökum saman og stöndum vörð um félagið okkar.
Áfram Fram,
Stjórn knattspyrnudeildar.