Alfreð Þorsteinsson, heiðursfélagi Knattspyrnufélagsins Fram, lést aðfaranótt fimmtudagsins 28. maí 2020, 76 ára að aldri.
Alfreð, sem fæddist 15. febrúar 1944, var fæddur og uppalinn Framari. Hann lék knattspyrnu með yngri flokkum Fram og hóf síðan ungur að þjálfa yngri flokka félagsins með Guðmundi Jónssyni, “Mumma” og áttu þeir mikinn þátt í öflugri uppbyggingu Fram í Skipholti og í Safamýrinni.
Alfreð, sem gengdi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Fram, sinnti félagsmálum mikið. Hann var formaður knattspyrnudeildar 1965-1966 og sat í aðalstjórn Fram í fjölmörg ár. Var tvisvar formaður Fram; 1972-1976 og 1989-1994. Á fyrra tímabilinu í formannatíð Alfreðs flutti félagið í Safamýrina og á seinna tímabilinu var íþróttahúsið byggt með félagsaðstöðu.
Alfreð var gerður heiðursfélagi Knattspyrnufélagsins Fram á 90 ára afmælishátíð félagsins 1998.
Fram þakkar Alfreð fyrir vináttu og mikil og góð störf fyrir félagið.
Eiginkonu hans, Guðnýju Kristjánsdóttur, og fjölskyldu eru sendar innilegar samúðarkveðjur.
Knattspyrnufélagið FRAM