fbpx
Haukar - FRAM vefur

Gangan mikla

Í októbermánuði árið 1934 neyddust sveitir kommúnista til að flýja frá Jiangxi héraði yfir hálendi Kína til Shanxi héraðs ári síðar. Göngumenn létust í stórum stíl á leiðinni en tæplega tíuþúsund komust þó á leiðarenda. Atburðurinn markaði þáttaskil í sögu kínverska borgarastríðsins og hefur öðlast goðsagnakenndan sess í vitund Kínverja.

Sú vegalengd hérlendis sem helst má jafna við gönguna miklu hefur verið þrammið frá bílastæðinu við íþróttahús Hauka um fjallabaksleið að miðasölu og inngangi á suðvesturhorni knattspyrnuvallarins á Ásvöllum. Gönguhrólfar verða móðir á þeirri leið, ýmsir verða frá að hverfa og oftar en ekki hefur leikurinn verið byrjaður þegar komið var á leiðarenda.

Hinir fordómalausu tímar faraldursins hafa breytt mörgu í tilveru okkar. Eitt af því er að nú er búið að taka í notkun nýjan inngang á Haukavöllinn. Hann er ekki í útjaðri Grindavíkur heldur nær nær siðmenningunni – með öll sín Fjarðakaup og Víkingakrár. Bílastæði eru rétt við nýja hliðið, en það uppgötvaði fréttaritari Framsíðunnar ekki fyrr en of seint. Það var lakara þar sem peysan sem tekin var með í öryggisskyni gleymdist í bílnum. Ljótt, ljótt.

Veðrið var reyndar fáránlega gott miðað við Vallahverfið. Vindurinn framkallaði bara nettan hroll en ekki kalsár á tám og fingrum. Einhversstaðar bak við skýin var sólin og um tíma í seinni hálfleik náði hún jafnvel að skína það skært í gegnum skýjahuluna að þarna varð nálega bærilegt. Bærilegt er hið nýja bongó.

Haukar féllu í fyrra úr hvítflibbahandrukkaradeildinni en þykja líklegir til að skjótast strax upp aftur. Lið þeirra eru alltaf líkamlega sterk. Kunna að nýta sér skraufþurrt gervigrasið og skora einatt á 90. mínútu gegn okkur. Sætið í Evrópudeildinni 2021 var því alls ekki öruggt.

Nokkrar breytingar voru gerðar á liðinu frá leiknum gegn Álftanesi. Uppstillingin var frekar sókndjörf sem fyrr. Þórir, Alexander og Fred voru í fremstu vígílnu með Hilmar og Albert á miðjunni, Unnar fyrir aftan þá og fjögurra manna varnarlínu með Hlyn og Arnór Daða sem hafsenta, Alex og Tuma Guðjónsson í bakvörðunum, en Tumi leysti Harald af hólmi sem tók út leikbann. Ólafur vitaskuld í markinu.

Leikurinn byrjaði með látum. Haukar fengu eitt ágætt færi eftir um fimm mínútur en Framarar áttu nokkur færi og hálffæri á fyrsta kortérinu. Haukar áttu í basli, einkum þegar Fred komst á skrið. Albert var sömuleiðis ógnandi og hann átti ásamt brasilíska undrinu stærstan þátt í að leggja upp fyrsta markið, þegar Hilmar afgreiddi boltann snyrtilega í markið með skoti lengst utan úr teig á 23. mínútu. 0:1 og undir venjulegum kringumstæðum hefði fréttaritarinn gætt sér á höfugum einmöltungi úr markafleygnum góða – en vei, vei og voði stór! Félagið Valur Norðri var hvergi nálægur. Ekki vegna kvefpestar eftir næðinginn á Álftanesi um fyrri helgi heldur er hann foreldri á fótboltamóti í Eyjum þar sem lögð eru drögin að fyrsta hópsmiti sumarsins.

Á næstu tíu mínútunum höfðu Framarar klára yfirburði og hefðu mátt auka forystu sína. Á 36. mínútu urðum við hins vegar fyrir áfalli þegar brotið var á Hlyni sem féll til jarðar og lenti illa á öxlinni. Hann þurfti þegar að fara af velli og í var kominn í fatla í leikslok. Vonandi ekkert sem snjall sjúkraþjálfari og vænn slurkur af hákarlalýsi ná ekki að laga, en hætt er við að fyrirliðinn okkar þurfi eitthvað að hvíla.

Tryggni leysti Hlyn af hólmi og var nærri búinn að skora undir lok hálfleiksins þegar einum rauðklæddum tókst að fleygja sér fyrir bylmingsskot hans. Á lokamínútunni átti Þórir svo skalla yfir úr góðu færi.

Þar sem fréttaritarinn er á góðri leið með að breytast í Henrý Birgi þeirra kynslóðar – sem oftar en ekki fjallaði meira um bakkelsi og annan viðurgjörning í íþróttalýsingum sínum en sjálfan kappleikinn – var nauðsynlegt að kaupa hamborgara og kaffibolla, lesendum til fróðleiks. Skemmst er frá því að segja að hamborgarinn var dágóður og með slíku magni grænmetis að öllum lýðheilsumarkmiðum var náð. Kaffið var líka ágætt, en það er kannski ekki að marka. Allir heitir drykkir eru sem guðsgjöf fyrir þann sem staddur er utandyra á Völlunum. Spurning hvort Haukarnir geti ekki fengið bæjarsjóð til að kaupa fyrir sig St. Bernharðshunda með koníakskúta um hálsinn næst þegar bærinn gefur hinu fótboltaliðinu íþróttahús?

Haukar virtust nýta leikhléið mun betur en okkar menn, í það minnsta komu þeir betur stemmdir til leiks á meðan sóknir Framara urðu bitminni. Á sextugustu mínútu hafði borgarfulltrúi fyrir Samfylkinguna (sem verður þó ekki nafngreindur hér vegna persónuverndarsjónarmiða) að honum litist illa á hvað heimamenn væru að komast inn í leikinn. Tveimur mínútum síðar lá boltinn í neti okkar manna eftir slælegan varnarleik.

Jón þjálfari sá að við svo búið mátti ekki standa og gerði þegar tvöfalda skiptingu. Alexander og Hilmar fóru af velli en Aron Snær og Magnús komu inn í staðinn. Sú breyting átti eftir að verða til bóta, einkum hvað Magnús varðar en hann átti eftir að verða mjög frískur eftir að hann komst í takt við leikinn.

Haukar drógu sig aftar á völlinn og Framarar reyndu að sækja, en alltof ómarkvisst og óskipulega. Sendingar virtust út í loftið og Hafnfirðingar áttu ekki í miklum vandræðum með að verjast. Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma virtist Fram þó ætla að stela sigrinum þegar Fred stakk varnarmenn Hauka af, komst einn í gegn en skaut framhjá á ótrúlegan hátt.

Í hléinu fyrir framlenginguna rifjuðu sagnfróðir Framarar upp niðurlægjandi ósigur gegn Haukum í vítakeppni sumarið 2007 þegar Haukar voru tveimur deildum neðar. Engum þótti ljóðin góð.

Jökull leysti Tuma af hólmi í byrjun framlengingarinnar og hann kom með mikinn kraft inn í liðið, hljóp og tæklaði. Hann státar af nýrri og framsækinni hárgreiðslu í ár, sem væntanlega mun skipta Frömurum í tvær fylkingar líkt og mulletið í fyrra.

Framarar komust í þrjú ágæt færi í fyrri hálfleiknum. Tvö þar sem Þórir kom við sögu og eitt dauðafæri hjá Magnúsi. Það var hins vegar Þórir sem opnaði markareikning sinn og kom okkur í 1:2 rétt fyrir hlé. Markið var ekki það tignarlegasta. Tekin var hornspyrna þar sem Þórir náði að beygja sig niður og láta boltann fleyta kerlingar af hnakkanum á sér og í netið. Á Facebook-síðu Fram var markið sagt „lúmskt skallamark“, lýsing sem hvaða sölumaður notaðra bíla gæti verið fullsæmdur af.

Um miðbik seinni hálfleiksins meiddist Þórir, að því er virtist á nára og þurfti að yfirgefa völlinn. Velta má því fyrir sér hvort rétt hefði verið að breyta reglum í ljósi hins stutta æfingatímabils á þann veg að fara beint í vítakeppni eftir venjulegan leiktíma í fyrstu umferðum bikarkeppninnar í stað þess að láta menn leika í 120 mínútur? Andri Þór kom inn í hans stað og færðist Jökull þá í framlínuna.

Fátt meira bar tilt íðinda, ef undan er skilið eitt ágætt skot frá Fred sem var varið. Sanngjarn sigur á Haukum sem var svo sem aldrei í mikilli hættu. Vonandi er meiðslalistinn ekki farinn að lengjast um of. Næsti bikarleikur er á móti ÍR og vandséð hvernig þetta á að geta endað öðruvísi en með bikarmeistaratitli í haust. En fyrst er það Leiknir Fáskrúðsfirði.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!