fbpx
Alfreð 1 713x467 vefur

Alfreð Þorsteinsson, kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Alfreð Þorsteinsson F: 15. febrúar 1944. D: 28. maí 2020.

* Útför Alfreðs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, þriðjudag 16. júní 2020, kl. 15.

​​​​​Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Við fráfall Alfreðs Þorsteinssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir afar öflugum og litríkum félagsmanni sem setti  sterkan svip á félagslíf Fram. Alfreð, sem var gerður heiðursfélagi Fram á 90 ára afmælisárinu 1998, lagði til ófá handtökin til að efla félagið.

Það er erfitt að rekja sögu Fram án þess að minnast Alfreðs. Ungur snéri hann sér alfarið að þjálfun yngri flokka, varð síðan mikill leiðtogi, en fyrst og fremst félagsmaður, sem unni félagi sínu heitt. Alfreð sýndi fórnfýsi, dugnað, kraft og ódrepandi baráttuvilja í störfum fyrir Fram og Framarar gátu alltaf leitað til hans til að fá góð ráð.

Alfreð var fæddur og uppalinn Framari – svo mikill Framari að sagt var að blátt blóð hafi runnið um æðar hans. Hann lék knattspyrnu með yngri flokkum Fram og hóf síðan ungur, 18 ára 1962, að þjálfa yngri flokka félagsins með Guðmundi Jónssyni, „Mumma“ og áttu þeir mikinn þátt í öflugri uppbyggingu yngriflokkastarfi Fram, jafnt innan vallar sem utan. Starfi sem önnur félög öfunduðu Fram af. Alfreð var kjörinn í Unglinganefnd KSÍ 1963 og var formaður nefndarinnar í fjögur ár, 1964-1967.

 Alfreð, sem gengdi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Fram, sinnti félagsmálum mikið. Hann var formaður knattspyrnudeildar 1965-1966 og var tvisvar formaður Fram; 1972-1976 og 1989-1994. Á fyrra tímabilinu flutti félagið úr Skipholti í Safamýrina og á seinna tímabilinu var íþróttahúsið byggt með félagsaðstöðu. Alli var alltaf til staðar þegar mikið lá við.

Alfreð kom víða við með Framliðinu í knattspyrnu. Þegar Alfreð mætti á hinn glæsilega völl Real Madrid, Santiago Bernabéu 1974, er Fram lék þar í Evrópukeppni meistaraliða, var hann formaður Fram. Alfreð vakti mikla athygli í veislu hjá Real Madrid fyrir Evrópuleikinn, þegar hann var kynntur sem forseti Fram, fyrir forseta Real Madrid, sjálfum Santiago Bernabéu de Yesta, sem leit stórum undrunaraugum á Alfreð og sagði: „Hvað, er það stráklingur sem á Fram?“ Alfreð var þá 30 ára; 49 árum yngri en Santiago Bernabéu de Yesta, 79 ára – fæddur 1895. Hann var forseti og aðaleigandi Real Madrid í 35 ár, frá 1943 – ári áður en Alli fæddist, til 1978.

Alfreð, sem var kjörinn heiðursfélagi Íþróttasambands Íslands 2009, sat í stjórn sambandsins 1976-1986, lengst af sem ritari. Þá var hann í ýmsum nefndum innan ÍSÍ, var stjórnarformaður Íslenskrar Getspá 1993-1994 og m.a. formaður Lyfjanefndar ÍSÍ.

Þegar Alfreð hóf að þjálfa yngri flokka Fram, hóf hann einnig störf sem íþróttafréttamaður á Tímanum og varð þekktur blaðamaður og síðan stjórnmálamaður, en hann hætti íþróttaskrifum að staðaldri 1973. Alfreð var léttur í lund og spaugsamur. Hann hafði mjög gott vald á penna, var beittur í skrifum um ýmis málefni í íþróttum og stjórnmálum. Hann tamdi sér að vera stuttorður, en kjarnmikill. Alfreð (alf) var brautriðjandi í nútíma íþróttaskrifum og voru fastir þættir hans, þegar hann fjallaði um menn og málefni sem voru efst á baugi, „Á vítateig“ mikið lesnir og geysilega vinsælir í Tímanum.

Alfreð var, samhliða starfi sínu á Tímanum, ráðinn ritstjóri Íþróttablaðsins í nóvember 1969 og urðu þá miklar breytingar á blaðinu, sem kom þá út í nýjum og breyttum búningi, sem kallaði á fleiri lesendur. Alfreð ritstýrði blaðinu til loka árs 1971. Þegar Alfreð var í stjórn ÍSÍ gaf sambandið út Fréttabréf ÍSÍ (1983) undir hans stjórn.

Alfreð var sæmdur silfur- og gullmerki Fram, silfurkrossi Fram og Framkrossinum úr gulli, sem heiðursfélagar bera. Hann var sæmdur gullmerki Knattspyrnuráðs Reykjavíkur og einnig Íþróttabandalags Reykjavíkur, silfur og gullmerki Knattspyrnusambands Íslands og gullmerki og heiðurskross ÍSÍ, sem er æðsta viðurkenning sambandsins.

Framarar kveðja og minnast Alfreðs með þakklæti fyrir mikil störf í þágu félagsins.

Eiginkonu hans, Guðnýju Kristjánsdóttur, og fjölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

Sigmundur Ó. Steinarsson

Jóhann G. Kristinsson hefur tekið saman myndir af Alfreð í leik og störfum sínum fyrir Fram og hér er hægt að sjá þessar myndir http://frammyndir.123.is/photoalbums/293532/

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!