fbpx
Fyrsta mark ársins 2020 vefur

Puttinn

FRAM treyjan 2020

Rómverjinn Gaius Cornelius Tacitius, sem uppi var á fyrstu öld okkar tímatals, er einn mikilvægasti sagnaritari fornaldar. Hann er grundvallarheimild um menningu og samfélag germanskra þjóða á sinni tíð. Þar er trúarbrögðum og þjóðfélagsskipan Germana lýst nákvæmlega en einnig sagt frá ýmsum smáatriðum í þeirra háttum. Þannig segir Tacitius frá því að þegar germanskir hermenn stóðu andspænis rómverskum óvinum sínum fyrir orrustu áttu þeir til að sýna óvirðingu sína með því að haldar höndinni út frá líkamanum alla fingur kreppta nema löngutöng. Þessi siður, að sýna puttann í móðgunarskyni, mun þó að mati mannfræðinga vera enn eldri. Langatöng er þá augljóst reðurtákn en vísifingur og baugfingur í beygðri stöðu tákna hvort sitt eista. Meira um það síðar.

GG-Verk styrkir FRAM

Það væri synd að segja veðráttan hafi sýnt Frömurum puttann (of sjoppuleg tenging?) á fyrsta heimaleik Íslandsmótsins. Rigning í morgunsárið hefði átt að duga til að bleyta almennilega upp í vellinum, en hann reyndist þó með þurrara móti þegar til kastanna kom. Stúkan var þéttskipuð og gaman að sjá marga Fáskrúðsfirðinga búsetta á mölinni mæta og styðja sína menn. Framúrskarandi fólk Austfirðingar og ættu allir að vera kvæntir einum slíkum.

FRAMherja-kaffi

Inni í Framheimili var allt morandi í lífi. Það er þá eitthvað annað en í Mordor – eða þjóðarleikvanginum í Laugardal eins og sumir vilja kalla þann stað. Ég er strax farinn að kvíða fyrir að þurfa að fara þangað til að taka á móti þessum bikarmeistaratitli í haust. – En í félagsheimilinu voru framreiddir hamborgarar, ársmiðum útbýtt og örlátustu stuðningsaðilarnir fengu sérstaka forkynnngu á kappliði dagsins ásamt útskýringum Jóns þjálfara. Svona eiga heimaleikjadagar að vera!

Tvær breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu frá Haukaleiknum um fyrri helgi. Haraldur sneri aftur úr leikbanni en Hlynur er frá eftir axlarbyltuna sem hann fékk síðast. Ólafur var því í marki og með fyrirliðabandið. Gunnar og Arnór Daði í miðvörðunum með Unnar fyrir framan sig. Haraldur og Alex í bakvörðunum. Albert, Hilmar og Fred allir hreyfanlegir á miðjunni og út til kantanna og Þórir fremstur. Í fyrirlestrinum til innherjanna var upplýst að ætlunin væri að sækja stíft á hægri kantinn og gekk það rækilega eftir.

Heimavöllurinn

Eins og áður hefur komið fram ætla Framarar að koma andstæðingum sínum í opna skjöldu í ár með því að tileinka sér jákvæðni og bjartsýni. Það mun pottþétt fokka verulega í þeim liðum sem eru vön okkur lífsleiðum og bitrum. Hitt leynivopnið er hinn fáránlega flotti nýi Frambúningur sem frumsýndur var í dag og fer á top-5 listann yfir svalar Framtreyjur.

„Hannes sigraði mig á glæismennskunni“, sagði stjórnmálamaðurinn Valtýr Guðmundsson þegar hann var beðinn um að skýra hvers vegna Hannes Hafstein varð fyrir valinu sem fyrsti Ráðherra Íslands en ekki Valtýr sjálfur. Rúðustrikaðri sagnfræðingur en sá sem þetta ritar myndi kannski benda á ýmsar stjórnmálalegar skýringar á ráðherravalinu aðrar en þær að Hannes hafi skítlúkkað með straujaðan flibba – en punkturinn heldur: það er erfitt að keppa við menn sem eru flottir í tauinu. Og það er líklega það sem gerðist í dag. Rauðklæddir Leiknismenn lyppuðust niður þegar þeir sáu klæðaburðinn á okkar mönnum.

Framarar tóku leikinn í sínar hendur strax í upphafi með lipru spili auk þess sem einstaka menn gerðu áhlaup á Leiknisvörnina og ollu miklum usla. Eina svar gestanna var að brjóta af sér og uppskáru þeir fyrsta spjaldið strax eftir fimm mínútna leik. Upp úr því smájókst þunginn í sóknarleiknum. Þórir skallaði yfir úr þokkalegu færi og Albert átti ágætt skot sem frábær markvörður Leiknismanna varði vel.

Maður leiksins Fred.

Eftir rétt rúmlega stundarfjórðung kom fyrsta markið. Fred fékk boltann lengst úti á velli nærri endalínu (á hægri kanti, hvað annað!) og lék sér af því að sóla varnarmann Leiknis, brunaði inn í teiginn og sendi knöttinn milli fóta markvarðarins. Tók dansspor í kjölfarið beint af æfingasvæðinu.

Útsalan á hægri kantinum hélt áfram og um miðjan hálfleikinn braust Alex í gegn og en skaut framhjá úr upplögðu færi. Á síðasta leik kvartaði sessunautur fréttaritara Framsíðunnar yfir því að leikmenn liðsins væru óþarflega svipaðir í útliti á velli, hávaxnir og ljóshærðir. Alex hefur fengið minnisblaðið og státar nú af bláum móhíkanakambi. Svona verða menn að gæta þess hvað þeir biðja um…

Undir lok fyrri hálfleiks braut sólin sér leið milli skýja og það snögghlýnaði á vellinum. Fréttaritarinn – sem enn hafði ekki fengið að gera markafleygnum góða skil, þar sem félagi Valur Norðri hélt að leikurinn væri klukkan tvö og kom ekki fyrr en í hléi – snaraði sér úr jakkanum. En Leiknismenn sáu ekki til sólar. Lið þeirra komst varla yfir miðju, en Framarar á pöllunum heyrðust tauta e-ð um að mönnum gæti verið refsað fyrir að nýta ekki svona mörg fín færi.

Skömmu áður en flautað var til leikhlés náði Fred að tvöfalda forystuna og í raun drepa leikinn. Aðdragandi marksins var sérlega glæsilegur. Þórir tók boltann á lofti inni í vítateig Leiknismanna á glæsilegan hátt og lét vaða. Afgreiðslan var frábær og hefði verðskuldað að liggja í netinu, en markvörðurinn varði. Boltinn hraut út úr teignum þar sem Fred kom aðvífandi og skoraði fallega í markhornið, 2:0.

Það voru sáttir Framstuðningsmenn sem mauluðu kaffibrauð í hátíðarsalnum í hléi – þótt óneitanlega eigi sumir erfitt með þessa skrítnu samfélagslegu tilraun að vera í stöðugu JC-skapi eins og Atli í laginu um Kötlu köldu. Fréttaritarinn féll þó á Henrýs Birgis-prófinu með því að gleyma að gera vínarbrauðunum skil og nennti ekki að bíða eftir nýrri uppáhellingu af kaffinu, enda voru þeir Valur og markafleygurinn komnir og tímabært að gera upp bókhaldið.

Seinni hálfleikur var frá fyrstu stundu mun dauflegri en sá fyrri. Nokkur góð færi litu þó dagsins ljós sem flest innihéldu Fred, Þóri, Albert eða alla framannefnda. Þriðja og síðasta markið kom hins vegar á 56. mínútu eftir farsakenndan varnarleik þar sem boltinn endaði á að berast til Alexanders uppúr þvögu sem afgreiddi hann í netið.

Um miðjan seinni hálfleikinn var Alexander hvíldur og Alfreð skipt útaf eftir smá hnjask en Más og Aron Kári komu inná. Skömmu síðar fór Alex útaf eftir byltu en Matthías kom í staðinn í vörnina. Fáeinum sekúndum síðar fækkaði Leiknismönnum á vellinum um einn. Svo virðist sem annar aðstoðardómarinn hafi talið einn Spánverjinn í liði Fáskrúðsfjarðar hefði rifjað upp hina ævagömlu germönsku svívirðingu og sýnt sér phallusartákn til að mótmæla innkastsdómi. Ljósmyndir netmiðla leiða þó í ljós að sá spænski var með vísifingurinn á lofti. Hann er því annað hvort mjög lélegur í að senda puttann eða hér var framið skelfilegt réttarmorð.

Brottvísunin hafði þó engin áhrif á úrslitin sem voru löngu ráðin. Bæði lið fengu fáein hálffæri, en fátt sem tekur sig að telja upp. Fred fékk heiðursskiptinguna undir lokin auk þess sem varamaðurinn Már þurfti að fara meiddur af velli, sem eru ekki góð tíðindi. Í þeirra stað komu Magnús og Aron Snær.

Hætt er við að Leiknir Fáskrúðsfirði ríði ekki feitum hesti frá Lengjudeildinni í sumar, en það er bráðnauðsynlegt að klára svona leiki fumlaust og gleðilegt að hafa haldið hreinu. Síðast þegar Fram byrjaði Íslandsmót á 3:0 sigri var árið 2008 og þá komumst við líka í Evrópudeildina eins og núna. Þetta er skrifað í skýin! Næst er það stórleikur í bikarnum á móti ÍR á einhverjum furðutíma til að þóknast sjónvarpsstöðvunum.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!