fbpx
'' gegn Leikni F

Heimavöllur blíðunnar

Árið 1962 fór HM í fótbolta fram í Síle. Heimaþjóðin, sem hafði svo sem ekki verið kunn af stórafrekum á fótboltasviðinu kom mjög á óvart og fór alla leið í undanúrslit. Heimavöllurinn skipti þar vafalítið miklu máli, en mögulega líka afar óhefðbundin nálgun þjálfara síleanska liðsins…

Þjálfarinn taldi að fyrir hverja viðureign væri gott að láta leikmenn sína borða einhverja þá afurð sem teljast mætti einkennandi fyrir mótherjana. Óljóst er hvort þetta átti að tryggja einhverja andlega yfirhönd gegn andstæðingunum eða hjálpa leikmönnum að skilja hugsunarhátt þeirra. Í það minnsta voru leikmenn Síle látnir maula ostbita fyrir leikinn gegn Sviss, pylsur áður en leikið var við Vestur-Þjóðverja og pasta áður en röðin kom að Ítölum. Eftir það urðu leikar æsilegri. Fyrir leikinn gegn Sovétríkjunum í fjórðungsúrslitum fengu leikmennirnir vodkastaup og kaffibolla áður en keppt var við Brasilíu í undanúrslitum.

Minnugur þessarar snjöllu tækni Sílemanna ákvað fréttaritarinn að maula harðfisk yfir leik Magna og Fram. Grenivík er fræg fyrir harðfisk sinn Og svo er harðfiskur líka svo góður.

Eyjafjörður er yndislegur staður – einkum þó á tölvuskjá. Þriðja árið í röð léku Framarar deildarleik á Grenivík og enn og aftur átti fréttaritari Framsíðunnar ekki heimangengt, þrátt fyrir miklar heitstrengingar um að í ár skyldi takast að mæta á Grenivíkurvöll. Þetta dáðleysi er vissulega illt afspurnar, en afsakast þó af því að fréttaritarinn þarf að fara til Akureyrar á þriðjudaginn og það eru takmörk fyrir því hvað leggjandi er á gamla menn að keyra oft um Húnavatnssýslurnar í einu og sömu vikunni.

En þá bar vel í veiði að Grenvíkingar halda úti öflugu netsjónvarpi: Magna TV, þar sem sýnt er frá leikjum með einni myndatökuvél og vöskum lýsanda. Fréttaritarinn gat því komið sér fyrir í eldhúsinu sínu eins og fínn maður, drukkið kaffi úr pressukönnunni góðu og – eins og áður hefur komið fram – maulað úrvalsharðfisk sem eldri borgari af Suðurnesjum auglýsir á samfélagsmiðlum og selur á bílaplönum fyrir reiðufé. Afar þjóðlegt fótboltasnarl, hvað allir athugi.

Sannast sagna hefði þurft arnarsjón til að fylgjast með smáatriðum í leiknum með þessu móti, en lýsandi leiksins bjargaði miklu með fjörlegri frásögn og kjarnyrtri norðlensku. Að hætti heimamanna nýtti hann hvert tækifæri til að dásama veðráttuna og gaf vellinum það háfleyga nafn „heimavöllur blíðunnar“, sem er nú ekki dónalegt.

Helst var að sjá að Framliðið byrjaði með þriggja manna varnarlínu fyrir framan Ólaf, þá Aron Kára, Unnar og Arnór Daða. Már og Magnús skeiðuðu upp og niður kantana, Albert og Hilmar voru á miðjunni, með Fred rétt fyrir framan sig og Alexander og Aron Snæ fremsta. Þórir var utan hóps, væntanlega vegna meiðsla. Allt er þetta þó sagt með miklum fyrirvörum, enda norðlenski hreimur þularins dáleiðandi.

Framarar byrjuðu af krafti, þótt heimamenn fengju raunar fyrsta góða færið eftir aðeins fáeinar sekúndur. Okkar mönnum reyndist auðvelt að komast upp kantana og krossa fyrir, en heimamenn voru fastir fyrir og vörðust mel. Eftir innan við tíu mínútna leik lá þó boltinn í netinu. Góð sending inn í teiginn rataði beint á kollinn á Alexander sem skallaði örugglega í efra hornið, 0:1.

Fimm mínútum síðar mátti litlu muna að Alexander tvöfaldaði forystuna, þegar hann fékk knöttinn í dauðafæri í teignum frá Má, en markvörður Magna varði glæsilega. Sókn Fram var þung á þessum tíma og því kom jöfnunarmark Grenvíkinga býsna óvænt á fimmtándu mínútu þegar framherji Magna komst einn í gegn og vippaði snyrtilega yfir Ólaf sem reyndi að verjast með því að hlaupa langt út úr marki sínu, 1:1.

Markaveislan hélt áfram á tuttugustu mínútu þegar Fred nýtti sér mistök í Magnavörninni, lagði boltann á Arnar Snæ sem átti laflaust skot af löngu færi sem virtist ekki ætla að valda neinni hættu. Einhvern veginn lak boltinn hins vegar inn, 1:2 og fréttaritarinn gat með góðri samvisku fengið sér meiri harðfisk.

Það sem eftir leið hálfleiks virtist Framliðið mun líklegra til að auka forystuna en heimamenn að jafna. Albert lét mikið til sín taka á miðjunni og framherjarnir voru góðir í að koma sér í færi. Í einni slíkri sókn sendi Albert boltann á Fred sem lét skot ríða af sem söng í stönginni.

Fréttaritaranum var létt í skapi í leikhléi, þar sem hann dundaði sér við að raða gömlum pappírskiljun í Benno-geisladiskahillu úr IKEA. Minnugur þess hvernig vinyl-plöturnar sneru aftur, ætlar fréttaritarinn að vera undir allt búinn þegar geisladiskarnir munu slá í gegn á ný. Þá verður hann með sína Benno-hillu tilbúna á besta stað í borðstofunni og getur hæðst að flónunum sem eiga engar geisladiskahillur!

Það er auðvelt að gleyma sér við bókaröðun og seinni hálfleikur var hafinn þegar fréttaritarinn hafði rænu á að hækka aftur í tölvunni. „Djöfullur er þetta!“ – hrópaði sá norðlenski hátt og snjallt þegar Magnamaður þrumaði í stöngina úr galopnu færi. Greinilegt var að heimamenn komu ákveðnir til leiks og sköpuðu sér nokkur hálffæri á upphafsmínútum seinni hálfleiks.

Eftir tíu mínútna leik fór Már af velli fyrir Tryggva Snæ. Var sá fyrrnefndi orðinn þreyttur eftir linnulítil hlaup og auk þess á gulu spjaldi.

Eftir um klukkutíma leik náðu Framarar yfirhöndinni á ný í spilinu, þótt Magni héldi áfram að ógna með skyndisóknum. Greinilegt var að Jón þjálfari lagði meira upp úr að halda fengnum hlut en að freista þess að drepa leikinn með þriðja markinu og var fremur varnarsinnuð skipting þar sem Haraldur kom inn á fyrir Mgnús til marks um það.

Fred vildi fá víti fyrir hringingu á 65. mínútu, en ágætur dómari gerði líklega harett í að leiða það hjá sér. Framsóknin var þung á þessum tíma en þó án þess að skapa neina raunverulega hættu. Lokaskiptining kom svo á 83. mínútu þegar Andri Þór leysti Aron Snæ af hólmi. Ekki varð sú breyting til að létta mikið líf lýsandans líflega sem kveinkaði sér í sífellu yfir að leikmenn Fram hétu nánast allir sama nafninu eða í það minnsta byrjuðu nöfn þeirra allra á A.

„Ansans óréttlæti“ – hrópaði sá grenvíski hátt og snjallt í uppbótartíma þegar dómarinn vildi ekkert hlusta á ákall Magnamanna um vítaspyrnu og í blálokin fór Ólafur langt út úr markinu til að slá knöttinn frá, sem fór þó ekki betur en svo að einn svart- og hvítröndóttur náði skoti að marki sem Unnar varði vel. Rétt á eftir var flautað til leiksloka. Dýrmæt þrjú stig á erfiðum útivelli. Þá er bara að halda dampi á móti Aftureldingu í næsta leik, en þar verður enginn fréttaritari. Hann verður staddur á fótboltamóti barna á Akureyri og það verður ekki rjómalogn og blíða mun hann finna lýsandann frá Grenivík í fjöru.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0