Í Heiðarvígasögu er fjallað um réttleysi farandverkafólks á Íslandi á söguöld. Þar segir frá sænsku berserkjunum Leikni og Halla sem fengnir eru til að ryðja veg um Berserkjahraun í grennd við Bjarnarhöfn. Að verki loknu býður verkkaupinn, Víga-Styr þeim félögunum að hvílast í gufubaði, en drepur þá þvínæst með köldu blóði. Um margar aldir litu Íslendingar svo á að Víga-Styr væri hetjan í sögunni, drápið hafi ekki verið nóiðingsverk heldur vel til fundið og í rauninni bara gott á þá Halla og Leikni fyrir að stunda félagsleg undirboð, iðka líkamsþrif og vera sænskir.
Löngu síðar, nánar tiltekið árið 1973, stofnuðu ungir menn íþróttafélag í vinnuskúr við Iðufell. Samúð hinna ungu Breiðhyltinga lá ekki með hinum svikula Víga-Styr heldur fórnarlömbum vinnumansalsins og kenndu sig við hið hlunnfarna sænska rustamenni. Kjánalegri gætu nöfnin svo sem verið og víst er að ekki geta allir verið eins heppnir og við með því að heita atviksorði.
Það myndi gera mikið fyrir þennan inngangskafla og fyrirsögn pistilsins ef hægt væri með góðu móti að rökstyðja að Knattspyrnufélagið Fram sé einhvers konar arftaki Víga-Styrs í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu. En svo er ekki. Við höfum ekki staðið fyrir gatnagerð og svikið verktaka og því síður er okkur í nöp við gufubaðsferðir. Þvert á móti höfðu Framarar strax í árdaga félagsins orð á sér fyrir að vera snyrtimenni og kvennagull á meðan t.d. KR-ingar voru lið sem lá í fiskinetum. Og okkur er ekkert illa við Svía. Margir okkar bestu vina eru Svíar og einu sinni átti fréttaritari Framsíðunnar Volvo. Látum þessi litlu smáatriði þó ekki eyðileggja fyrir okkur góða tengingu. Morðsins í gufubaðinu hefur verið hefnt og það voru Framarar sem þurftu að súpa seyðið.
„Það hefði verið nær að þú gleymdir helvítis pennanum á þessum leik!“ – sagði einhver ástsælasti dómari landsins við fréttaritara Framsíðunnar við klósettvaskinn í leikhléi. Og það var ekki fjarri lagi. Fyrri hálfleikurinn og raunar drjúgur hluti þess seinni líka, var hreinasta hörmung. Jákvæðasti punkturinn við þennan súldarlega laugardagseftirmiðdag var sennilega sá helst að eftir leikinn var hægt að nota ferðina til að fylla á metanbíl fjölskyldunnar á bensínstöðinni sem stendur nokkurn veginn á skákinni sem við seldum borginni út úr félagssvæðinu fyrir skrilljónir fyrir margt löngu. Og þótt mörkin yrðu tvö var enga huggun að fá í markapelanum góða, því félagi Valur Norðri var fastur suður í Kópavogi að horfa á stúlknamót í fótbolta. Vonandi með fleyginn í vasanum…
Nonni þjálfari gerði grein fyrir uppstillingunni fyrir leik og þá þegar var ljóst að stefndi í vandræði. Meiðsli hafa leikið hópinn grátt og nú síðast tókst Ólsarafautunum að meiða Fred þannig að ekki var talið óhætt að láta hann leika. Það var skarð fyrir skildi. Hilmar kom inn í staðinn, en að öðru leyti var liðið óbreytt: Ólafur í marki, Jökull, Hlynur, Arnór Daði og Haraldur í vörninni. Unnar og Albert á miðjunni með Má og Hilmar á köntunum. Alexander og Þórir frammi. Leiknismenn eru sterkir og með nokkra mjög sterka menn innanborðs. Ekki skrítið að þeim sé spáð velgengni.
Það var úrvalsfótboltaveður þegar flautað var til leiks, en þó örlítið svalt. Undir lokin var þó farið að þykkna upp og kominn léttur úði. Leikurinn byrjaði varfærnislega og liðin virtust hálfrög að koma sér í færi. Eftir rúmlega átta mínútna leik leit fyrsta markið ljós og var það stórfurðulegt. Leiknir tók aukaspyrnu á hægri kantinum sem Ólafur virtist grípa auðveldlega. Síðan var eins og hann væri keyrður niður og fleygði við það boltanum í eigið mark. Um augljóst brot virtist vera að ræða og í 95% tilvika er dæmt þegar stuggað er við markverði í eigin markteig, en dómarinn benti samstundis á miðjupunktinn. Í umræðum í leikhléi hölluðust menn helst að því að leikmaður Leiknis hefði hrint Hlyn á Ólaf og dómarinn, sem var illa staðsettur, hafi misst af hrindingunni.
Fyrstu tíu mínúturnar eftir markið eyddu leikmenn Fram of mikilli orku í að ergja sig á úrskurði dómarans, sem sannast sagna hafði litla stjórn á leiknum. Upp úr miðjum hálfleiknum virtist liðið þó vera að ná vopnum sínum og skapaði sér fáein færi, þannig skölluðu Leiknismenn frá á marklínu, Hlynur átti bylmingsskot að marki og Þórir skalla rétt fram hjá. Einhver í stúkunni álpaðist til að jinxa þetta með því að hrósa spilamennskunni – þá var eins og við manninn mælt að tuttugu sekúndum síðar lá boltinn á ný í Framnetinu eftir þrumuskot af löngu færi, gjörsamlega upp úr engu. Leiknismenn voru komnir í 0:2 eftir rúmlega hálftíma leik úr einu markskoti.
Eftir þetta hresstust gestirnir verulega og minnstu mátti muna að þeir ykju forystuna enn fyrir hlé, þar sem Ólafur þurfti einu sinni að verja vel eftir hornspyrnu og í annað sinn söng knötturinn í stönginni eftir aukaspyrnu.
Kaffið stóð undir sínu og fréttaritarinn fékk sér eitthvað sem var annað hvort bæklaður ástarpungur eða óvenjuhnöttótt kleina.
Jón Sveinsson gerði tvöfalda skiptingu þegar seinni hálfleikur byrjaði. Þórir og Hilmar fóru af velli fyrir þá Tryggva og Magnús. Kristján vallarþulur upplýsti að áhorfendur væru 354, sem er eins og naskir lesendur átta sig á símsvæðisnúmerið fyrir Ísland! Eigum við að stefna að því í sumar að láta áhorfendatölurnar alltaf vera merkingarbærar?
Ungu strákarnir komu frískir inn í spilið og Framarar virtust aðeins vera að komast aftur inn í leikinn þegar Leiknismenn skoruðu þriðja markið á 54. mínútu og það fjórða þremur mínútum síðar – í bæði skiptin eftir að Framarar misstu boltann á hættulegum stað. Staðan orðin 0:4 og stemningin orðin mjög þung meðal Framara.
Þessi mikli munur var þeim mun ergilegri í ljósi þess að gestirnir úr Breiðholtinu voru fjarri því að sýna neinn stjörnuleik og í hvert sinn sem Framarar reyndu að pressa á Leiknisvörnina sköpuðust tækifæri. Alexander var nærri því að minnka muninn stuttu eftir fjórða markið með ágætum skalla og fljótlega þar á eftir tókst Magnúsi að koma okkur á blað þegar hann renndi boltanum í tómt netið eftir klaufaleg mistök Leiknismarkvarðarins.
Þegar seinni hálfleikurinn var akkúrat hálfnaður misstu Leiknismenn boltann rétt við miðlínu, Albert bar hann upp völlinn og stakk loks inn á Magnús sem skoraði annað mark sitt. Örlítill vonarneisti kviknaði á pöllunum.
Á sjötugustu mínútu fór Albert út af fyrir Orra Gunnarsson sem snýr aftur eftir meiðsli. Siptingin var nokkuð óvænt þar sem Albert hafði verið lipur, en Orri átti raunar eftir að standa sig vel síðstu tuttugu mínúturnar.
Allar vonir um fræga endurkomu fóru fyrir lítið. Fljótlega eftir skiptinguna þegar Breiðhyltingar skoruðu fimmta markið og sem fyrr upp úr engu, þar sem Framvörnin svaf á verðinum. Þokkalegt skot frá Tryggva var svo varið hinu megin á vellinum mínútu síðar – sem endurspeglaði leikinn ágætlega.
Framarar fengu 1-2 færi undir lokin. Var þá búið að gera tvöfalda skiptingu, þar sem Hlynur og Haraldur fóru af velli en Aron Snær og Tumi komu inná. Lokatölur 2:5, sem gefa þó líklega til kynna meira fjör en raun bar vitni.
Hversu fúlt var þetta tap á skalanum 1-10, þar sem 1 er að fá stöðumælasekt eftir að hafa gleymt að nota leggja-appið og 10 er að vera sænskur vegagerðarmaður sem er drepinn í gufunni með sinaskeiðabólgu eftir að hafa rutt hraundröngum með hökum og trjádrumbum? Ég myndi segja 7,5. – En áfram gakk, næst er bara að halda á slóðir jarðskjálftanna miklu í Grindavík á föstudaginn kemur og sækja þrjú stig.
Stefán Pálsson