fbpx
Ferd mark

Lognið

Internetið er skemmtilegt fyrirbæri sem gæti jafnvel innan tíðar leyst Textavarpið af hólmi sem öflugasta þekkingaruppspretta okkar mannanna. Á internetinu – eða lýðnetinu eins og réttara mun vera að kalla það – er að finna margar sniðugar leitarvélar á borð við AltaVista og Ask Jeeves. Unga fólkið kýs þó helst að nota Google.

Google-vélin þekkir marga og veit ýmislegt. Ef slegið er inn leitarorðunum „Grindavík“ og „logn“ stingur gervigreindin upp á því að um misritun sé að ræða – í raun hafi átt að standa „Grindavík logo“. Efsta færslan er hins vegar frétt af vefsíðu Grindavíkurbæjar með yfirskriftina: „Logn í Grindavík“. Hún er frá 26. september árið 2013 þar sem vakin er athygli á því þennan sama dag hafi mælst logn í sveitarfélaginu.

Tíu árum fyrr, þann þrettánda ágúst árið 2003 birtist á sama vef fréttin: „Glæsilegt veður í Grindavík“. Þann dag mældist „nánast logn“ í bænum. Þetta er markverður árangur á ekki lengra tímabili og sterk vísbending um að sænska stúlkan með flétturnar hafi á réttu að standa með varnaðarorðum sínum. Skefjalaus notkun mannsins á jarðefnaeldsneyti hefur leitt okkur á þann stað að Grindvíkingar mega eiga von á logni á tíu ára fresti, næst árið 2023. Í kvöld var ekki árið 2023.

Fréttaritari Framsíðunnar fór ekki til Grindavíkur í fylgd með sessunautnum sauðtrygga Val Norðra að þessu sinni. Það var þó ekki óttinn við landskjálfta eða eldgos í Þorbirninum sem hindraði för Vals og markafleygsins – ónei, Valur Norðri er ofurhugi sem hlær að náttúruhamförum. Raunar var það einmitt þessi eiginleiki hans sem skýrði fjarveruna, því okkar maður ætlar að hlaupa Laugavegshlaup í miðri gulri veðurviðvörun og með hálsbólgu. Blóm og kransar afþakkaðir.

Þess í stað fékk pistlahöfundur að fljóta með hinum fulltrúum fjórða valdsins, þeim Kristjáni og Óskari, umsjónarmönnum hins bráðskemmtilega Fram-fótboltapoddkasts sem allt gott fólk hlustar á þessa daganna. Til að treysta atvinnulífið á staðnum lagði hópurinn snemma í hann og kom í góðum tíma til að gæða sér á lostætishumarsúpu á Bryggjunni, hinu þrælfína súpueldhúsi þeirra Grindvíkinga. Súpan var heit og bragðmikil sem bjargaði líklega því sem bjargað varð meðan á leiknum stóð.

Það voru miklar gleðifréttir að uppgötva að okkar allra besti Fred væri snúinn aftur í liðið. Hans var sárt saknað síðast í leiknum sem við ætlum aldrei aftur að rifja upp. Það var líka eins gott að fá hann aftur inn því Þórir var utan hóps, væntanlega að kljást við einhver meiðsli. Byrjunarliðið var annars á þá leið að Haraldur, Arnór Daði, Unnar og Jökull mynduðu fjögurra manna varnarlínu með Hilmari fyrir framan sig, Albert og Fred framar á miðjunni, Már og Magnús á köntunum og Alexander frammi. Gaman að sjá Magnús fá tækifæri í byrjunarliðinu eftir frábæra innkomu síðast.

Framarar í stúkunni voru tæpast meira en svona fjörutíu talsins og áhorfendur varla mikið meira en 120 í allt. Opinbera talan er þó um 300 manns sem bendir til að löggan á Dalvík hafi séð um talninguna. Þessi litli Framarakjarni var þó hávær og var stúkan með líflegasta móti – sem var raunar snjöll leið til að verjast rokinu.

Það blés og tók leikurinn allur mið af því. Framarar byrjuðu með vindinn í bakið og frá fyrstu mínútu var ljóst að Grindvíkingar ætluðu bara að láta tímann líða, reyna að fá á sig sem fæst mörk og bíða eftir síðari hálfleik. Strax á fyrstu fimm mínútunum var markvörður þeirra farinn að drolla við útspörk og lítið fór fyrir boltasækjurum í hvert sinn sem leikknettirnir fuku í fögrum boga út af vellinum og í átt til hafs.

Í vindi sem þessum geta öll skot reynst óútreiknanleg og Framarar freistuðu þess nokkrum sinnum að láta vaða, t.d. þeir Hilmar og Haraldur á fyrsta hálftímanum. Sending frá Unnari rétt við eigin vítateig fram á við skapaði svo stórhættu þegar Fred stakk sér í gegn og náði hörkuskoti sem markvörðurinn varði glæsilega í horn. Hornspyrnunni lauk svo með því að boltanum var blakað ofan á slánna og þaðan aftur fyrir.

Á árabilinu 1831-36 ferðaðist læknaneminn Charles Darwin um heimshöfin með rannsóknarskipinu HMS Beagle. Á leiðinni kynnti hann sér m.a. ólík afbrigði af finkum á Galapagoseyjum og þá einkum gogga þeirra, sem virtust mismunandi eftir því hver aðalfæða fuglanna væri á einstökum eyjum. Þessi uppfinning er talin grundvöllur þróunarkenningar Darwins, sem gengur í stuttu máli út á að lífverur þróist og taki mið af því umhverfi og náttúru sem þær lifa í. Þetta hafa flestir haft fyrir satt, þangað til í kvöld. Sú staðreynd að fólboltafélag sem starfar og æfir í Grindavík skuli reyna að spila háloftabolta í sjö vindstigum er kjaftshögg fyrir allt það sem við töldum okkur vita um þróunarvísindi.

Fréttaritari Framsíðunnar reyndi að slá á fjölda þeirra útsparka sem markvörður Grindavíkur tók seint um síðir til þess eins að negla þeim beint útaf eða á mótherja, en tapaði tölunni enda máladeildarstúdent. Það var þó ekki markverðinum að kenna heldur klaufaskap í Grindavíkurvörninni við að hreinsa frá þegar boltinn hrökk til Magnúsar á 36. mínútu sem  afgreiddi hann glæsilega í markhornið, 0:1. Það sem eftir var hálfleiknum reyndu Framarar ákaft að sækja annað mark en gulklæddir lágu til baka – fengu raunar bara eitt marktækifæri sem eitthvað kvað að fyrir hlé.

Þeir í stuðningsmannasveitinni sem státa af teflonlúkum treystu sér til að kaupa kaffi í sjoppunni í hléi. Helmingur innihaldsins skvettist á hendur þessara fullhuga. Fréttaritarinn ákvað að koffínþörfin væri ekki slík en skemmti sér í staðinn við að horfa á svartbak sem reyndi að fljúga upp í vindinn, eflaust í von um að komast yfir völlinn og alla leið að blokkinni sem er bara ætluð síðmiðaldrafólki og var alltaf í fréttunum út af dómsmálum og illindum. Þessi mávur leit alls ekki út fyrir að vera 55 ára gamall.

Í seinni hálfleik urðu rækileg endaskipti á hlutum. Grindvíkingarnir, sem áður höfðu tafið og drollað reyndu nú að sækja og nota hvert tækifæri til að láta vaða á markið. Og eins og fyrir einhverja töfra höfðu skyndilega sprottið upp boltasækjarar sem hlupur til og mötuðu Ólaf Íshólm á knöttum í hvert sinn sem Fram fékk útspark. Sá var þó munurinn að á meðan Grindvíkingar höfðu sparkað boltanum upp í loftið í sífellu, til þess að horfa í forundran á hann fjúka, þá héldu Framarar sig við að spila eftir jörðinni. Að svo miklu leyti sem hægt var að láta boltann ganga milli manna við þessar aðstæður, var mestöll spilamennskan í höndum Framara.

Fred og Alexander komust báðir í hörkufæri með skömmu millibili eftir rétt tæplega klukkutíma leik og Már átti fínar rispur upp völlinn. Í vörninni lét Jökull mikið til sín taka. Hlynur kom inn á fyrir Hilmar í hálfleik og var traustur aftast.

Á 59. mínútu náðu Grindvíkingar að jafna. Markið kom beint úr hornspyrnu og var engin tilviljun. Grindavík fékk átta eða níu hornspyrnur (ég sagðist vera máladeildarmaður!) í síðari hálfleik og í hverri einustu freistuðu þeir þess að að skjóta sem allra næst markinu í þeirri von að boltinn flyti í netið.

Ef frá eru taldar hornspyrnur heimamanna sem alltaf sköpuðu hættu voru það Framarar sem sóttu meira það sem eftir lifði leiks. Orri leysti Magnús af hólmi þegar tuttugu mínútur voru eftir og fimm mínútum síðar varði Ólafur glæislega frá einum Grindvíkingnum. Lengra komust liðin þó ekki. Jafntefli var í heildina litið sanngjörn niðurstaða og gott stig á erfiðum útivelli.

Næsti leikur er gegn Þrótti. Þá verður fréttaritarinn hins vegar staddur hjá tengdafólki á Neskaupstað, sem er kannski eins gott því fyrri pistlar um leiki Fram og Þróttar hafa oftar en ekki leitt af sér tölvupósta og einkaskilaboð þar sem kvartað er undan meinfýsni. Kannski fáið þið fréttapistil um Leikni Fáskrúðsfirði : Keflavík í staðinn…

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!