fbpx
Alexander gegn Leikni F

Angistin

Árið 1983 varð Trausti Jónsson veðurfræðingur að hálfgerðri rokkstjörnu á Íslandi. Hann fékk á skömmum tíma á sig orð fyrir að vera einhver fyndnasti maður landsins og kallað var eftir því að honum yrði falin umsjón með gerð sjálfs áramótaskaupsins. Falast var eftir Trausta sem skemmtikrafti á samkomum hvers kyns karla- og kvennaklúbba. Hann náði meira að segja slíkri frægð að þegar hann hvarf um hríð af sjónvarpsskjánum komst á kreik kvittur um dauða þessa prúða vísindamanns. Slíkt er alþekkt þegar kemur að frægðarfólki.

Trausti var svo sannarlega veðurspámaður í sínu föðurlandi. Nú kynni yngra fólkið að ætla að þessar gríðarvinsældir hafi skýrst af einmunatíð og bongóblíðu sumarið 1983, en það er öðru nær. Sumarið 1983 var að öllu leyti ömurlegt. Úrkoma var stöðug og kuldi um land allt. Gárungar efndu til mótmælafundar við höfuðstöðvar Veðurstofunnar og kröfðust sólarglennu. Það var grátt gaman.

Og það er einmitt við slíkar aðstæður sem veðurfréttamenn geta blómstrað. Fregnir af sólstrandaveðri dag eftir dag bjóða ekki upp á neina dýpt. Raunveruleg fegurð er ekki fólgin í logni og pastellitum heldur ólgu og átökum. Hvaða fábjáni sem er getur verið glaður. Það eru vonbrigðin sem reyna á.

Fréttaritari Framsíðunnar hefur notið góðs af þessu síðustu misserin. Leik eftir leik hefur hann orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að skrifa um leiki í kulda, leiki í vosbúð, leiki með vondu kaffi, leiki sem tapast útaf farsakenndum varnaleik í hornspyrnum eða þegar einhver rauðhærður bólugrafinn táningurinn kemur af varamannabekk hins liðsins til þess eins að jafna á fjórðu mínútu uppbótartíma. Lýsingar á þessum sameiginlegu skipbrotum hafa oftar en ekki náð að bæra sameiginlega strengi í brjóstum stuðningsmanna Fram og þar af leiðandi aflað pistlunum nokkurra vinsælda. (Áður en lengra er haldið og til að afstýra því að áhugafólk um líkamsvirðingu gangi af göflunum er rétt að taka fram að fréttaritarinn er ekki sérstaklega á móti unglingum, bólugröfnum né rauðhærðum. Einhverra hluta vegna virðast sniðmengi þessara þriggja hópa hins vegar alltaf enda á að skora á móti okkur.)

En hvað má þá einn vesalings fréttaritari gera andspænis leik eins og þeim sem boðið var upp á í Sambamýri í dag? Hvernig er hægt að fella pistlaform sem sniðið er að umsögn um meðalmennsku og brostnar vonir að stórsigri á gömlum fjandvinum í unaðsblíðu, á degi þar sem meira að segja tebolluafskurðurinn í Framherjakaffinu gerði atlögu að Michelinstjörnu? Það er erfitt. Og þrúgandi.

Það var reyndar fátt í byrjun dags sem benti til að boðið yrði til slíkrar veislu á Framvellinum. Fréttaritarinn mætti á slaginu þrjú til að komast í fínukarlaherbergið þar sem boðið er upp á Nóa-konfekt og töflufund með Nonna þjálfara. Þar var varla köttur á kreiki. Mestöll þjóðin er útúr bænum að eyða ferðaávísuninni og að berjast um síðustu brauðhleifana og neskvikkdósina í súpermörkuðunum á Vík og Kirkjubæjarklaustri. Haft var að orði að nær hefði verið að spila leikinn í Grímsnesinu í von um að fá einhverja áhorfendur.

Jón Sveinsson veit þó að það á ekki að láta þá sem mæta gjalda fyrir skróp hinna fjarstöddu og settist við eitt hringborðið í veislusalnum og útskýrði leikskipulagið fyrir fimm gestum…. Það var á þessa leið: Orri kom inn í byrjunarliðið í fyrsta sinn í sumar og Aron Kári í vörnina. Sá fyrr nefndi leysti Magnús af hólmi en sá síðarnefndi kom í stað Arnórs Daða sem varð fyrir einhverju hnjaski í Þróttarleiknum.

Ólafur var vitaskuld í markinu með varnarlínuna Jökul, Hlyn, Aron Kára og Harald fyrir framan sig. Fred og Már voru á sitthvorum kantinum, Orri og Unnar á miðjunni með Albert fyrir framan sig og Þóri fremastan uppi. Albert fékk því öllu sóknarsinnaðra hlutverk en í flestum leikjum hingað til. Nonni gerði ráð fyrir Þórsurum grjóthörðum – sem er mun kurteisari lýsing á Þórsliðinu en fréttaritari hefði notað sjálfur.

Það var fámennt í stúkunni þegar flautað var til leiks. Áhorfendum átti þó eftir að fjölga mjög þegar leið á, svo opinbera talan – 205 – verður að teljast ansi varfærnislegt mat. Meðal fjarstaddra mætti nefna markafleyginn góða, en félagi Valur Norðri er á einhverjum þvælingi um landsbyggðina. Þetta eru orðnar ansi margar fjarvistir í sumar, en fréttaritarinn mun þó ekki gagnrýna Val fyrir það enda er hann frá Kópaskeri og við fólk þaðan treður enginn klókur maður illsakir.

Leikurinn fór rólega af stað en fyrsta hálffærið leit dagsins ljós eftir um sex mínútur þegar Halli sendi á Þóri sem skaut yfir. Þórsarar voru þó meira með boltann þessar fyrstu mínútur og var geðþekkur Framari og íþróttafréttamaður RÚV í miðjum klíðum að kvarta við fréttaritara um skort á baráttukrafti í Framliðinu þegar áhyggjurnar raungerðust, Framarar náðu ekki að hreinsa frá eftir horn gestanna og boltinn lá í netinu, 0:1. Stuðningsmenn á pöllunum hugsuðu sitt og fátt gott… nema þá helst fréttaritarinn sem sá í hillingum Trausta Jónssonar-frægð eftir að hafa skrifað enn einn súldar og nepjupistilinn.

En leikmenn Fram voru ekki á þeim buxunum að láta svona smábakslag koma sér úr jafnvægi. Þremur mínútum eftir markið, eftir rétt um stundarfjórðungs leik, náði Fred lúmsku langskoti sem Þórsmarkvörðurinn mátti hafa sig allan við að missa ekki aftur fyrir línuna. – Hvar er undirskriftalistinn fyrir að fá marklínutækni í Lengjudeildina?

Það þurfti engar myndavélar mínútu síðar þegar Fred jafnaði með einu af mörkum sumarsins. Hann fékk boltann fyrir utan teig, rakti hann áfram 2-3 skref, sneri síðan á punktinum og negldi upp í samskeytin, 1:1.

Þórsarar höfðu ekki fyrr tekið miðjuna en þeir misstu knöttinn og Framarar blésu til sóknar. Albert, sem var frábær í leiknum í þessu sókndjarfa hlutverki, féll við – en fékk ekki víti. Mínútu síðar átti Þórir gott skot að marki og enn leið ekki nema mínúta áður en Fred var nærri búinn að skora aftur, en Þórsmarkvörðurinn varði vel í horn. Tóku nú að renna tvær grímur á fréttaritara sem sá fram á sinaskeiðabólgu eftir allt párið með þessu áframhaldi.

Á 24. mínútu átti Þórir sendingu inn á Albert sem stóð þar í teignum með Þórsara sem hefði auðveldlega átt að ná að hreinsa frá, en kaus í staðinn að detta hálfvegis á rassinn og skilja Albert eftir á auðum sjó þar sem hann skoraði auðveldlega, 2:1. Mínútu síðar var staðan svo orðin 3:1, í það sinnið eftir að Fred lék varnarmann Þórsara grátt og skoraði snyrtilega. – Áberandi var að nánast allar sóknir Framara á þessum tíma komu upp sama kantinn. Jón Sveinsson hefur sýnt að hann er mjög glöggur á veikleika í liði andstæðinganna og sækir grimmt á það sem hann metur sem veikustu hlekkina.

Orri hefði getað aukið forystuna enn frekar áður en halftime var kominn á klukkuna. Skömmu síðar fékk Fred hins vegar högg á hnéð og þurfti að yfirgefa völlinn um tíma til aðhlynningar. Hann virtist illa kvalinn og stóð mönnum ekki á saman, enda sama hnéð búið að valda honum vandræðum í sumar. Hann kom fljótlega aftur inná en við þetta atvik var eins og Framarar drægju úr sóknarþunganum og leyfðu gestunum að komast meira inn í leikinn – þó án þess að skapa sér margt sem tínandi er til.

Þrátt fyrir hrjúft yfirbragð er fréttaritari Framsíðunnar ljúfur sem lamb og ákvað hann því að taka kunningja sinn, sveitapilt úr Akrarhreppi sem gerðist snemma Þórsari, með í Framherjakaffið – svo hann fengi amk eitthvað út úr leiknum. Almenn kátína ríkti í kaffinu, þótt flestir væru tortryggnir undir yfirborðinu, brenndir af svipugöngum fortíðarinnar. Gauti Laxdal var þó allra manna kátastur og fögnuðu hann og fréttaritarinn hvor öðrum vel – enda Luton Town, eftirlætislið beggja í Englandi, nýbúið að vinna frægan sigur og tryggja áframhaldandi veru sína í deild hinna næstbestu. Ef til vill meira um það síðar.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, örlítið varfærnislega þar sem Þórsarar virtust ætla að gera sig líklega. Það var þó snarlega kæft í fæðingu. Framarar voru fljótir upp völlinn í hvert sinn sem gestirnir misstu boltann. Það gerðist á fimmtugustu mínútu þar sem Fred, Orri og Albert geystust upp – léku hratt sín á milli og að lokum kom sending fyrir markið þar sem Halli kom aðvífandi og skoraði, 4.1. Gott mark hjá bakverðinum þar sem einu vonbrigðin voru þau að hvorki Óskar né Kristján – umsjónarmenn hins frábæara Fram-poddkasts og helstu aðdáendur Haraldar hafi verið fjarri góðu gamni, líklega eitthvað að fíflast á Twitter eins og vanalega.

Beint í kjölfar marksins fengu Framarar nokkuð misgóð færi til að auka muninn enn frekar. Elstu menn í stúkunni fóru að rifja upp leik Fram og Þórs árið 1996 í þessari sömu deild, sem lauk 8:0 sælla minninga. Var eitthvað svipað í kortunum? Og hver yrði Michael Payne þessa leiks?

Orri fór af velli eftir tæplega klukkutíma leik og Alexander kom inn í staðinn. Fred og Þórir fóru sömu leið fimm mínútum síðar – brasilíski töframaðurinn þó ekki fyrr en eftir að hafa skotið naumlega framhjá. Inn komu Magnús og Aron Snær.

Mótlætið fór vægast sagt ekki vel í Þórsara og eru þeir þó kvartsárir fyrir. Framherji Þórsliðsins ákvað að löðrunga Unnar beint fyrir framan dómarann. Hafi það verið hluti af snjallri leikáætlun þá mistókst hún og Þórsarar luku keppni tíu.

Þegar kortér var til leiksloka breytti Alexander stöðunni í 5:1 eftir fína fyrirgjöf frá Jökli, sem var stórgóður í leiknum (einkunn sem raunar er óhætt að skella á allt Framliðið). Í kjölfarið réðst Nonni í tvöfalda skiptingu til að gefa fleiri mönnum tækifæri. Albert og Jökull fóru af velli fyrir Tuma og Tryggva. Talnaglöggir lesendur hafa áttað sig á að þetta eru í allt fimm skiptingar og því var engin eftir þegar Halli fór meiddur af velli á 85. mínútu. Vonandi ekkert alvarlegt.

Síðustu mínúturnar einkenndust af stórskotahríð. Þórsarar voru hættir og því frekar kæruleysi okkar manna en varnartilburðum hvítklæddra að þakka að mörkin urðu ekki fleiri. Og þó! Í uppbótartíma unnu Framarar boltann og brunuðu fram í stórum hópum. Boltinn barst á Alexander sem afgreiddi hann snyrtilega í netið, 6:1. – Örlítið vandræðalegt fyrir spekingana í vinsælum útvarpsþætti hér í borg sem afgreiddu framliðið um helgina með þeim orðum að það væri ekki nógu sókndjarft.

Og þannig lýkur þessum pastellitaða og lognmollulega pistli. Tóm leiðindi. Lofa meiri dramatík eftir næsta leik á móti Fylki í bikarnum.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!