Lengi vel fannst Íslendingum bara tvennt fyndið í heiminum. Annars vegar þegar einhver hermdi eftir Halldóri Laxness en hins vegar gamansöngvar Ómars Ragnarssonar sem voru hver öðrum smellnari. Í kvæðinu Lok-lok-og-læs lætur utangáttamaðurinn Páll til að mynda „Bítlana baula á Tarzan“ og í Jóa útherja rímar skáldið saman orðin „Val“ og „Spinnegal“.
Skemmtilegast var þó lagið um kappaksturinn þar sem glæsilegasti kádiljákur Reykjavíkur fer í keppni við örsmáa Fíat-lús. (Höskuldarviðvörun: Fíat-lúsin vinnur keppnina en í ljós kemur að ökumaðurinn náði engu að síður aldrei að koma henni úr öðrum gír!!!)
„Þetta væri mjög flott þema í pistil dagsins“, hugsaði fréttaritari Framsíðunnar með sér í leikhléi á viðureign kvöldsins á móti Ólafsvíkur-Víkingum, meðan hann japlaði á sælgætismolum af gerðinni sem Íslendingar kalla Makkíntoss en fávísir útlendingar halda að heiti Kvolítístrít – með þessu var drukkið kaffi úr pappamálum.
Á þessum tímapunkti hafði leikurinn verið afar tilþrifalítill og Framararnir varla komist úr öðrum gír. – Og það var einmitt tengingin! Ef Eyjólfur myndi hressast í seinni hálfleik og við ynnum leikinn, væri hægt að líkja Frömurum við Fíat-lúsina sem landaði sigrum án þess að skipta upp í þriðja! Það er mjög töff myndlíking og gaman að ná tengingu við Ómar Ragnarsson sem er mikill Framari og pabbi hans Þorfinns sem líka mikill Framari og mjög fínn gaur þótt hann þrasi stundum dálítið mikið á internetinu.
Þessi áform áttu eftir að hrynja til grunna af ástæðum sem síðar verða raktar. En byrjum á fyrri hálfleiknum…
Það var milt í veðri en örlítil úði þegar flautar var til leiks í Sambamýri. Eins og mér fannst þetta gælunafn á heimavelli okkar glatað þegar Kristján Freyr byrjaði að nota það í fyrra, þá finnst mér það æðislegt núna og gaman að þetta sé farið að skila sér í umfjöllun fjölmiðla. Einungis hundrað fengu aðgang, þar af 10 Ólsarar og Guðni Bergsson – við hin 89 vorum hins vegar eins og á ættarmóti þar sem fólk hittist eftir áralangan aðskilnað, frekar en að snúa aftur úr tveggja vikna áhorfendabanni. Plágan hefur einhvern veginn kippt línulegum tíma úr sambandi.
Ólafur stóð vitaskuld í markinu með þá Hlyn og Kyle í miðvörðunum. Kyle er happafengur og var okkar besti maður fyrir hlé. „Gerum við hann þriggja ára samning í hvelli!“ Sagði Coventry-stuðningsmaður nokkur í hléi sem ekki verður þó nafngreindur vegna persónuverndarsjónarmiða.
Aron Þórður og Haraldur gegndu bakvarðastöðunum. Unnar og Albert á miðjunni. Tryggvi og Fred á köntunum og Alexander fyrir framan Þóri uppi á toppi. Fastir liðir eins og venjulega.
Ólsarar mættu til leiks staðráðnir í að verjast vel. Þeir pressuðu grimmt og framarlega, en fannst allt í góðu lagi með að Framarar stjórnuðu spilinu. Á sama hátt virtust okkar menn meðvitaðir um að þetta yrði þolinmæðisverk, að brjóta þétta vörnina á bak aftur og þótt gestirnir verðust stíft þá voru þeir ekki grófir.
Eins og svo oft áður skapaðist mesta hættan þegar Fred lék sér að því að dansa fram hjá varnarmönnum hins liðsins. Uppáhaldið hans er að leika alveg upp að endamörkum og sóla svo undrandi andstæðinginn með því að leika fram hjá honum markmegin – virkar í hvert sinn!
Eftir frekar efnilegar fyrstu tuttugu mínútur, þar sem Framarar sköpuðu engin sérstök færi en voru þó alltaf líklegir, dofnaði aðeins yfir yfir bláum. Víkingar tóku að eiga stöku sóknir og um sama leyti var eins og drægi úr ímyndunarafli okkar manna fram á við. Nokkur hálffæri litu þó dagsins ljós og rétt fyrir hlé fór Tryggvi næst því að skora með ágætu skoti eftir sending frá Kyle.
Kaffiþambi og súkkulaðiátinu í Framherjakaffinu hefur þegar verið lýst og víkur nú sögunni aftur að fréttaritaranum þar sem hann gekk saddur og sællegur til sætis síns fyrir seinni hálfleikinn. Raunar þó eilítið umkomulaus þar sem félagi Valur Norðri var nýkominn heim úr veiðitúr með félögunum – eflaust með markafleyginn góða með í för – og treysti sér ekki til að selja heimilisfólki hugmyndina um fótboltagláp á meðan aðrir verkuðu afla og smúluðu stígvél. Fjarvera hans skyggði þó lítt á gleðina yfir að vera kominn með sniðugt þema fyrir leikskýrslu kvöldsins.
Seinni hálfleikur var þriggja mínútna gamall þegar Fíat-lúsar líkingin var búin að fokkast upp. Gestirnir mættu mjög ákveðnir til leiks en okkar menn ekki. Þetta kom flatt upp á Framvörnina sem sló þó varla feilpúst í leiknum og þeim gekk illa að hreinsa í burtu. Eftir vandræðagang í vítateignum þar sem Víkingar vildu fá víti á Albert fyrir óverulega snertingu, hrökk boltinn í höndina á Hlyni Atla. Dómarinn var greinilega með eitthvað punkta-uppsöfnunarkerfi og komst að því að tvö hálf-víti samsvöruðu einu alvöru víti. Einn Ólsarinn fór á punktinn og skoraði af öryggi, 0:1.
Og þá kom í ljós að óháð því hvort Framliðið stæði undir því að vera röskur Fíat með flókinn gírkassa eða ekki, þá væri lið Víkings Ólafsvíkur enginn helv. kadiljákur heldur risastór rúta. Og þeirri rútu var nú parkerað beint fyrir framan markið af manni sem er með meiraprófið í þeim efnum – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Frá þeirri sekúndu þegar Framliðið tók miðjuna, drógu gestirnir lið sitt allt í vörnina. Nú skyldi skellt í lás og engu skipti þótt þessir bjálfalegu Bítlar bauluðu á Tarzan! (Gaman að ná að endurnýta svona bókmenntavísanir innan pistla – sumir myndu jafnvel segja að það sé aðalsmerki fréttaritarans.)
Albert kom við sögu í tveimur sóknum beint í kjölfar marksins. Í annarri þeirri féll hann við í teignum, klárlega eftir einhverja snertingu, en dómarinn dæmdi ekkert – líklega réttilega. Fred átti bylmingsskot örskömmu síðar, en haukfránir áhorfendur tóku eftir því að hann var farinn að stinga við. Þegar rúmur hálftími var eftir þurfti Fred að fara að velli fyrir Má – í annað sinn í sumar sem brasilíska undrið yfirgefur völlinn meiddur á móti Ólsurum. (Þetta er þó ekki sagt af neinum kala í garð Ólsara. Fréttaritaranum og raunar Frömurum öllum þykir sérstaklega vænt um Víking Ólafsvík enda var það Ásgeir Elíasson sem kenndi þeim að spila fótbolta. Og hafi óvarkár orð mín fyrr í sumar um bökunartíma á flatbökum í bæjarveitingarstaðnum valdið sárindum á Hellissandi eystri voru þau svo sannarlega ekki illa meint.)
Framarar fengu hornspyrnur á færibandi og aukaspyrnur á kjörstöðum en inn vildi boltinn ekki. Átti góður markvörður gestanna stóran þátt í því. Á 73. mínútu hefði Má verið í lófa lagið að fiska vítaspyrnu en ákvað í staðinn að standa í lappirnar og senda á Tryggva sem skaut yfir.
Albert og Alexander fóru af velli fyrir Alex og Aron Snæ þegar tæpt kortér var eftir og enn jókst sóknarþungi Fram. Þórir virtist kominn í dauðafæri til að skjóta á markið þegar tíu mínútur voru eftir en lagði boltann í staðinn á Alex og Víkingar sluppu með skrekkinn. Mínútu síðar átti Þórir skot framhjá.
Á 83. mínútu fór boltinn í hönd eins varnarmanna Víkings. Fréttaritarinn er réttsýnn maður með afbirgðum og hefði undir flestum kringumstæðum verið sammála dómaranum að sleppa þessu, en í ljós vítisins á Hlyn fyrr í leiknum orkaði það verulega tvímælis.
Tveimur mínútum síðar var hins vegar enginn vafi þegar einn Ólsarinn leitaði á náðir Louis Suarez-skólans í varnarleik með því að henda sér fram og slá bolta sem var á leiðinni í netið. Víti dæmt og gult spjald. (Hefði það þó ekki átt að vera rautt?) Alex fór á punktinn og jafnaði, 1:1.
Framarar héldu áfram að sækja. Kyle átti góðan skalla en yfir eftir hornspyrnu og í fyrstu mínútu uppbótartíma virtist brotið á Tryggva sem uppskar þó aðeins gult spjald fyrir. Í kjölfarið kom til stympinga hjá Alex og markverðinum sem báðir voru áminntir. Áður en til þess kom hafði Aron Snær þó líklega fengið besta færi leiksins þegar hann fékk boltann á auðum sjó en þurfti að skjóta hratt og hitti framhjá.
Ergilegt jafntefli í leik sem við áttum öll færi á að vinna, en stig er stig. Nú tekur við rosalegur toppslagur í Breiðholti þar sem Þórir verður í banni. Vonandi verður Fred heill. Hvern þekkir maður sem býr í blokk með góðu útsýni yfir Leiknisvöllinn?
Stefán Pálsson