Regnhlífar eru fáránlegur smáborgaralegur búnaður sem sumir Íslendingar hafa af fordild reynt að innleiða hér á landi, þrátt fyrir að öll veðurfræðileg rök mæli gegn slíku. Þau okkar sem muna eftir Dýrunum í Hálsaskógi munum hvernig Amma mús tókst á loft á dramatísku augnabliki í framvindu sögunnar og sveif til himins eins og vítaspyrna frá Birki Bjarnasyni. Vissulega má segja að flugferð Ömmu músar hafi komið sér vel í því tilviki, en að jafnaði eru regnhlífar í hvassviðri líklegri til að slasa mann og annan svo augað liggi út á kinn.
Það var því þvert á alla skynsemi sem fréttaritari Framsíðunnar greip með sér regnhlíf fyrir kappleikinn í Breiðholtinu í dag. Reyndar enga venjulega renghlíf, heldur forláta Framregnhlíf sem sá ágæti íþróttafulltrúi Þór Björnsson kom með færandi hendi á dögunum. Meðreiðarsveinninn Valur Norðri var með viðlíka amboð, sem hann sníkti út úr nágranna sínum í fínumannahverfinu í Fossvoginum, einhver er nú innkoman!
Raunar var það ekki sjálfgefið að félagarnir kæmust á leikinn, enda síðasti dagur 100 mannna reglunnar í gildi og ætla mætti að slegist væri um hvern miða. Öllum að óvörum virtust íbúar Hóla- og Fellahverfis ekki áhugasamari um toppslaginn er svo að Framarar fengu á síðustu stundu vænan slatta af miðum til að selja. Lauslega áætlað voru því um fjörutíu Framarar í stúkunni á Leiknisvelli á móti sextíu heimamönnum, sem voru með þöglasta móti.
Þórir Guðjónsson tók út leikbann í dag en að öðru leyti gátu Framarar teflt fram sínu sterkasta liði. Ólafur stóð í markinu með Kyle og Hlyn fyrir framan sig. Bakverðir voru þeir Haraldur og Matthúas Kroknes sem er að snúa aftur eftir meiðsli. Hann átti prýðisgóðan leik og gott að sjá hann aftur í liðinu. Unnar og Albert voru á miðjunni, Fred og Tryggvi á köntunum, Alex Freyr tók stöðu Þóris og Alexander fremstur. Gleðilegt var að sjá Gunnar snúa aftur á bekkinn eftir meiðsli.
Þegar Fréttaritarinn og skjaldsveinninn mættu á pallana rigndi sem hellt væri úr fötu og hafði gert lengi. Völlurinn var blautur og hvorki þurr þráður á leikmönnum né áhorfendum. Fréttarinn freistaði þess að spenna upp Framregnhlífina, en hún fauk þegar upp og sýndist ekki til stórræða. Fossvogsregnhlífin reyndist verklegri, enda ógnarstór. Tróðum við okkur þrír undir hana í fyrri hálfleik: Valur, fréttaritarinn og Óskar vallarþulur. Myndaðist þar örlítið skjól til að halda skrifblokk eins en forkunna fögrum hatti annars þokkalega þurrum.
„Ég vil að við byrjum með vindinn í bakið!“, sagði Valtýr Björn Valtýsson ákveðinn, meðan liðin gengu inn á völlinn. Sperrtu þá allir eyrun, enda veit Valtýr sínu viti og pabbi hans var sýslumaður. – Hafði hann lagst yfir allar helstu veðurspár á netinu og bar þeim saman um að lægja myndi með kvöldinu, einkum mun norska veðurstofan hafa verið á því máli. Tóku menn þessu misalvarlega og göntuðust með að Valtýr þættist vera einhver Páll Bergþórsson eða Knútur Knudsen.
Valtý varð að ósk sinni. Framarar unnu hlutkestið og sóttu undan vindi. Það hafði óneitanlega mikil áhrif á gang leiksins. Leiknismenn drógu sig aftarlega á völlinn en okkar menn fengu að stjórna spilinu. Fyrsta færið sem eitthvað kvað að kom á tíundu mínútu þegar Albert nýtti sér mistök í vörn heimamanna, en sko hans var varið í horn.
Fram náði forystunni eftir tæplega tuttugu mínútna leik og var það fyllilega í verðskuldað. Tryggvi braust upp kantinn, átti sending fyrir markið og Alexander kom aðvífandi og skallaði inn með tilþrifum. Sjöunda deildarmark Alexanders sem er að komast í hóp markahæstu manna.
Rétt á eftir markinu átti Fred gott skot að marki. Framarar greinilega staðráðnir í að hamra járnið meðan það væri heitt. Aðstæður til fótboltaiðkunar voru þó mjög erfiðar og áttu eflaust sinn þátt í því að Tryggvi tognaði að því er virtist á læri um miðjan hálfleikinn og Már þurfti að koma inn á. Sex dagar eru í næsta leik svo vonandi nær Tryggvi að jafna sig en maður kemur í manns stað.
Már kom inn af miklum krafti og skapaði sér tvö þokkaleg færi fljótlega eftir að hann kom inn. Leiknismenn reyndu lítið fyrir sér – áttu varla nema tvær marktilraunir fyrir hlé og í bæði skiptin varði Ólafur vel.
Á markamínútunni áttu Framarar skyndisókn þar sem Már náði góðri sendingu fyrir markið þar sem Alexander virtist aðeins eiga eftir að pota boltanum í markið, þegar hann féll til jarðar að því er virtist eftir snertingu frá varnarmanni Leiknisliðsins. Dómarinn dæmdi ekki vítaspyrnu. Skandall? Réttarmorð? Hafið ekki mín orð fyrir því, heldur Þorsteins Joð, fjölmiðlamannsins geðþekka, sem var í kjöraðstöðu til að sjá atvikið og er kunnur að sannsögli.
Flautað var til leikhlés og tóku þá fréttaritarinn og skjaldsveinninn undir sig stökk og hlupu að metanknúnum Volkswagen-skutbíl þess fyrrnefnda. Annars vegar til að þenja miðstöðina í botn til að ná kjarnhita, en hins vegar til að hendast í loftköstum í Fossvoginn. Í ljós hafði komið að markafleygurinn góði hafði gleymst í öllu regnhlífarfárinu. Fréttaritarinn ók eins og Niki Lauda og þótt félagi Valur gæfi sér tíma til að skipta um buxur var fréttatvíeykið mætt aftur á völlinn rétt eftir að seinni hálfleikur hófst.
Hafi fjölmenn Framarasveitin á pöllunum búist við því að Leiknismenn kæmu til leiks eins og grenjandi ljón með vindinn í bakið, reyndust þær áhyggjur óþarfar. Heimamenn voru furðulega varfærnir þrátt fyrir að vera undir og í raun héldu Framarar áfram að stjórna spilinu. Og það sem meira var: það stytti upp og vindurinn gekk talsvert niður eftir því sem leið á hálfleikinn. Spálíkön norsku veðurstofunnar sönnuðu gildi sitt. Valtýr Björn stóð með pálmann í höndunum. Sigur vísindanna var algjör!
Framarar áttu betri færin í leiknum og átti Alex tvö þau bestu, fyrst þegar um tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar hann skaut rétt framhjá og aftur eftir rúmlega klukkutímaleik þegar 2-3 Framarar virtust sloppnir í gegn en markvörður Leiknis náði frábæru úthlaupi á síðustu stundu.
Nokkrum mínútum síðar hrökk boltinn í hönd eins varnarmanna Leiknis innan vítateigs, en dómarinn dæmdi ekkert – og átti raunar eftir að vera sjálfum sér samkvæmur í því efni, eins og síðar kom í ljós.
Þegar tuttugu mínútur voru eftir fór Alex af velli fyrir Hilmar í varnarsinnaðri skiptingu. Heimamenn reyndu að auka sóknarþungann en sköpuðu afskaplega lítið, enda Framvörnin óárennileg í meira lagi. Á pöllunum yfirgnæfðu Framarar stuðningsmenn Breiðholtsliðsins sem voru ekki sjálfum sér líkir í dag.
Fred og Alexander fóru af velli þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fyrir Aronana tvo (Þórð og Snæ). Það hafði lítil áhrif á leikinn. Leiknismenn vildu raunar fá vítaspyrnu á lokamínútunni þegar boltinn hrökk í höndina á Kyle, en líkt og í fyrra tilvikinu lét dómarinn það óátalið. Undir blálokin virtist Már togna. Vonandi ekkert alvarlegt, enda nóg af meiðslum og leikbönnum nú þegar fyrir næsta leik til að kljást við.
Það sást undir iljar Leiknismanna á pöllunum um leið og lokaflautið gall. Framarar stóðu hins vegar eftir, klöppuðu, hrópuðu og sungu sinn zigga-zagga. Stigataflan er farin að líta virkilega vel út. Það er frábærlega skemmtilegt að horfa á liðið okkar þessi dægrin og gaman að sjá hversu mikill baráttukrafturinn er þegar veðuraðstæðurnar eru ömurlegar. Við smekkfyllum Safamýrina um næstu helgi!
Stefán Pálsson